Alþýðublaðsdeilan hefur breytt um eðli. Hún var í fyrstu deila um ritskoðun, en er nú orðin að deilu um stefnu Alþýðuflokksins og stöðu einstakra ráðamanna hans. Vilmundur Gylfason og Jón Hannibalsson hafa boðið hinum byrginn.
Fyrsta þætti deilunnar lauk, þegar Vilmundur og blaðstjórn Alþýðublaðsins sömdu um, að hið stöðvaða blað skyldi koma út í óbreyttu formi. Með því viðurkenndi blaðstjórnin, að rangt hafði verið að stöðva útkomu tölublaðsins.
Í þessu samkomulagi var ekki nefnt, að blaðstjórnin skyldi biðjast afsökunar á frumhlaupinu og lýsa trausti á ritstjórn blaðsins. Var samkomalagið þó eðlilegur vettvangur slíkrar yfirlýsingar, ef hún var nauðsynleg.
Hins vegar var óeðlilegt hjá Vilmundi að gera bakkröfu um slíka yfirlýsingu. Menn verða að geta gengið frá því sem vísu, að samkomulag sé samkomulag. Um slíkt gilda ákveðnar leikreglur, sem ekki á að brjóta með bakkröfum.
En milli samkomulags og bakkröfu höfðu blaðstjórn og ráðamenn flokksins gert þau mistök að fegra málstað sinn og gera lítið úr samkomulaginu sem út af fyrir sig óþörfu, en eins konar persónulega greiðasemi við Vilmund.
Jafnframt rægðu þeir Vilmund óspart og á þann hátt, sem hér á landi er oft gert í skúmaskotum en nánast aldrei á prenti. Þeir hvísluðu um drykkjuskap og geðveiki, en slíkan róg hafa einmitt ýmsir gaman af að hlusta á.
Vinsældir aðferðarinnar má sjá af því, að nýlega freistaðist stjórnarformaður og yfirritstjóri Vísis, Svarthöfði G. Þorsteinsson, til að bera drykkjuskap á einn af átta núlifandi, fyrrverandi ritstjórum blaðsins. En hugarfarið á þeim bæ er líka alveg sér á parti.
Formaður Aþýðuflokksins gekk ekki svona langt á opinberum vettvangi, heldur talaði við fréttamenn um “mannlegan harmleik”. En ekki þarf mikið ímyndunarafl til að sjá, hvaða dylgjum formaðurinn er að reyna að koma á framfæri.
Um leið kom í ljós, að sumir af verkalýðsrekendum Alþýðuflokksins höfðu lengi talið, að stöðva þyrfti skrif Vilmundar og Jóns Hannibalssonar, ábyrgðarmanns blaðsins, um verkalýðsmál og frammistöðu verkalýðsrekenda.
Þetta upphlaup leiddi til, að Vilmundur, sem starfandi ritstjóri, blaðamennirnir og Jón Hannibalsson ábyrgðarmaður töldu rétt að standa fast á kröfunni um traustsyfirlýsingu, þrátt fyrir áður gert samkomulag.
Um leið er Vilmundur með aðstoð Jóns að minna á stöðu sína meðal kjósenda flokksins. Hann er að vísu einangraður í flokksforustunni, en dró þó á sínum tíma þessa forustumenn inn á þing á sínum vinsældum en ekki þeirra.
Líta má á Vilmund, Jón Hannibalsson og nokkra fleiri sem eins konar hagfræðiarm Alþýðuflokksins. Þeir hafa reynt að sveigja flokkinn til nýtízkulegri og djarfari sjónarmiða í efnahagsmálum, til dæmis í verkalýðsmálum.
Vilmundur og Jón eru því ekki bara að svara ómerkilegum vinnubrögðum flokksforustunnar. Þeir hafa stigið skrefinu lengra og beinlínis boðið henni byrginn, vakið athygli á sjónarmiðum hagfræðiarmsins.
Ekki er ljóst, hvaða rás deilan og eftirleikir hennar taka á næstu dögum. En þá kröfu verður þó að gera til málsaðila, að þeir koðni ekki niður í rógi og skítkasti.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið