Ljúft er að láta sig dreyma

Greinar

Í erfiðleikum hversdagsins hefur forsætisráðherra reynt að lyfta huga fólks með hugmyndum um að stofna alheimslottó á Íslandi og efna til alheimsverðlauna í umhverfismálum. Sérstök nefnd ímyndafræðinga hefur samið handa honum skýrslu um ýmsa slíka drauma.

Alheimslottó er mörgum Íslendingum áreiðanlega að skapi. Í fyrsta lagi telur fólk, að með því fái þjóðfélagið fullt af peningum fyrir ekki neitt. Og í öðru lagi vonast það til að geta unnið, fyrir ekki neitt, margfalt meira happdrættisfé en nú er hægt við séríslenzkar aðstæður.

Meðal okkar er mikið um þrá í eitthvað fyrir ekki neitt. Ótrúlega marga dreymir um stórfelld viðskiptabrögð, sem færi happafeng í höfn. Menn dreymir sí og æ um stóra vinninginn, jafnvel í atvinnulífinu, en reyna síður að vanda sig með súrum svita frá degi til dags.

Þessum hugarórum fylgir svo skammsýni, sem spillir jafnvel þeim draumum, sem verða að veruleika. Okkur hefur borizt happafengur úr heiðskíru lofti með millilendingum erlends flugfélags í vöruflutningum. Með fjárgræðgi erum við að hrekja það til Írlands.

Við getum sennilega aldrei komið upp fríhöfn peningastofnana, sem er ein hugmyndin frá ímyndanefndinni. Ef okkur tækist að gabba hingað erlendar peningastofnanir, mundu

skattóðir og ábyrgðarlitlir fjármálaráðherrar fyrr eða síðar reyna að slátra gullhænunni. Ein hugmynd ímyndafræðinganna er að telja útlendingum trú um þá firru, að Íslendingar séu sérstakir áhugamenn um umhverfi sitt. Samt erum við þjóð, sem árlega ver milljörðum króna af skattfé til að létta sauðfé að halda áfram að eyða viðkvæmum gróðri afrétta.

Forsætisráðherra og ímyndanefndin telja hugsanlegt, að erlendar stórþjóðir skipi sér að baki Íslands sem forusturíkis í umhverfismálum og erlendir neytendur fjölmiðla bíði árlega í ofvæni eftir því, hver fær hnoss umhverfisverðlauna úr hendi forsætisráðherra okkar.

Þetta er svona álíka firring eins og að ímynda sér, að erlend ríki muni lúta óbeinni forustu Íslendinga í friði og afvopnun, af því að svo mikið sé af ónotuðu gistirými úti um allt land, sem henti alþjóðlegri friðarstofnun, svo sem málgagn forsætisráðherra lagði til.

Auðvitað er frábært að geta velt vöngum yfir draumsýnum, þegar flest er í kaldakoli í atvinnulífinu og ríkisstjórnin hefur þurrausið allar hugmyndir um skjótfengið skattfé til að úða yfir gæludýrin. Þá er gott að láta sig dreyma um, að gulli rigni af himnum ofan.

Niðurstaða ímyndafræðinga forsætisráðherra er, að ríkissjóður afhendi ímyndafræðingum 250 milljónir króna á ári til að “skapa” ímynd Íslands á erlendum vettvangi. Þetta er ráðgerður kostnaður við kynningarátak, sem á að geta galdrað brott kreppu hversdagsins.

Allt er þetta í samræmi við kenningar ímyndafræðinnar um, að ekki skipti máli, hvað er, heldur hvað menn haldi, að það sé. Þannig hafa verið búin til söluhæf orð á borð við Gucci og Dior. Vonin er, að ímyndafræðingum takist að búa til hliðstæða ímynd Íslands.

Þjóðin þarf hvíld frá harmafréttum raunveruleikans, gjaldþrotum fyrirtækja, siðferðisbrestum ráðherra, peningaúðun milljarðasjóða Byggða-Stefáns og annarri slíkri martröð. Forsætisráðherra skilur þessa þörf og býður okkur til vistar í himnaríki ímyndafræðinganna.

Þá er sælt að láta sig dreyma um, að dollarar og jen og frankar renni í stríðum straumum til Íslands, nafla alheimsins, í alheims-lottó alheims-umhverfisverndar.

Jónas Kristjánsson

DV