Lloyds kemur til bjargar

Greinar

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur unnið þrekvirki og fengið þekktasta tryggingafélag heimsins, Lloyds, til að hefja samkeppni við íslenzku fáokunarfélögin í bílatryggingum. Er reiknað með, að tryggingagjöld bíla hér á landi muni lækka um fjórðung við komu Lloyds.

Þetta er hægt, af því að fimm þúsund af nítján þúsund félagsmönnum FÍB hafa ákveðið að vera með í sameiginlegu tryggingaútboði félagsins. Þannig er með samtakamætti hinna smáu hægt að skáka innlendu risunum, sem allt of lengi hafa misnotað markaðsaðstöðuna.

Búast má við, að fáokunarfélögin reyni að mæta innrás Lloyds með því að lækka iðgjöld bíleigenda. Þau hafa ráð á því, enda hafa þau haft digra sjóði af viðskiptamönnum sínum á undanförnum árum. Skyndilega munu þau finna út, að þau hafi efni á að lækka iðgjöld sín.

Hingað til hafa innlendu tryggingafélögin þótzt tapa á bílatryggingum. Sannleikurinn mun hins vegar koma í ljós, þegar Lloyds tekur til starfa. Þá mun skyndilega koma í ljós, að tryggingafélögin hafa hingað til farið með ósannindi um slæma afkomu sína af bílatryggingum.

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda setti sér það markmið fyrir ári að ná innlendum bílatryggingum niður um 20%. Samkvæmt samningunum við Lloyds, sem nú eru á lokastigi, mun árangurinn verða nokkru betri, eða 25%. Þetta verða háar krónutölur hjá hverjum og einum.

Enn meira máli skiptir, að FÍB hefur ekki samið við neitt einnar nætur tryggingafélag, heldur þekktasta tryggingafélag heims, sem íslenzku tryggingafélögin endurtryggja hjá, þegar áhættan verður of mikil. Lloyds hefur því úthald í samkeppni við okurfyrirtækin.

Nú reynir á Íslendinga, sem áratugum saman hafa orðið að sæta skilmálum fáokunarhrings tryggingafélaganna. Ýmis dæmi eru um, að við séum þýlyndari en borgarar í nágrannaríkjunum og látum vaða yfir okkur án þess að grípa til sameiginlegra gagnaðgerða.

Frægt er, þegar bíleigendur ætluðu um árið í eins dags akstursverkfall til að mótmæla hækkun benzínverðs. Aðgerðin fór út um þúfur, af því að bíleigendur voru ekki nógu harðir af sér til þess að standa saman. Vonandi verður annað uppi á teningnum í þetta sinn.

Íslendingar eru íhaldssamir eins og klárinn, sem vill vera þar sem hann er kvaldastur. Ef kvalarar þeirra í bílatryggingum lækka iðgjöldin til að mæta nýrri samkeppni, munu margir þeirra halda tryggð við kvalarana í stað þess að flytja sig til þess, sem braut ísinn.

Þannig vilja menn njóta óbeins góðs af framtaki annarra, en kæra sig ekki um að taka sjálfir neinn þátt í frumkvæðinu. Ef allir hugsuðu svona, væri aldrei hægt að brjóta neinn ís. Frumkvöðlar gæfust upp og fáokun héldist með sama hætti og hefðbundin er í landinu.

Tryggingafélögin eru í góðri aðstöðu til að halda sauðahjörðinni saman. Þau hafa safnað digrum sjóðum í skjóli fáokunar. Vextirnir einir af sjóðunum nema tíu þúsund krónum á hverju ári á hvern bíleiganda í landinu. Þau lána fólki úr sjóðunum og hafa gert það háð sér.

Ástæða er til að vona, að ekki fari í þetta skipti eins og stundum áður. Gegn fáokuninni stendur nú þekktasta tryggingafélag heimsins og öflug samtök bíleigenda. Uppreisnarliðið hefur því úthald til langvinnra átaka við eigendur sauðahjarðanna, innlendu tryggingafélögin.

Þetta er eitt bezta tækifærið, sem þjóðin hefur fengið til að losna á einu sviði úr langvinnri ánauð kolkrabba og smokkfisks. Nú reynir á hana sem sjaldan fyrr.

Jónas Kristjánsson

DV