Lóðir í Reykjavík

Greinar

Æskilegt er, að frambjóðendur til borgarstjórnar og stjórnmálaöflin að baki þeirra treysti sér til að gera frambærilega grein fyrir ráðgerðri meðferð þeirra á lóðum í Reykjavík. Í lóðamálum kemur skýrast í ljós, hvort staðið er opið og heiðarlega að stjórn sveitarfélags.

Erlendis hafa ótal dæmi um spillingu í byggðastjórnum verið til umfjöllunar, bæði í fréttum fjölmiðla og í rannsóknum fræðimanna. Allt ber að þeim brunni, að á Vesturlöndum sé vandamál slíkrar spillingar fyrst og fremst að finna í skipulagi svæða og úthlutun lóða.

Algengasta leiðin hefur verið rækilega kortlögð í Bandaríkjunum. Þar eru dæmi um, að ráðamenn skipulagsstjórna sveitarfélaga skipuleggi ný svæði þannig, að ákveðin svæði fái hagstæða nýtingu, til dæmis undir miðbæjarstarfsemi, svo að landið hækki í verði.

Ekki er mikið svigrúm til slíkrar spillingar í Reykjavík. Ráðamenn borgarinnar hafa áratugum saman verið forsjálir í öflun lands. Þeir hafa látið borgina kaupa allt land í kringum byggðina í borginni, löngu áður en til greina kemur að skipuleggja það og byggja á því.

Á þetta reynir einkum í afmörkuðum tilvikum, þar sem miðbæjarlóðir eru frá gamalli tíð í eigu einkaaðila. Þá er með opinberu skipulagi unnt að hækka verð lóðar, annaðhvort með því að ákveða, hvernig hún skuli nýtt, eða með því að ákveða nýtingarstuðul húsanna.

Í Reykjavík skortir umfjöllun utan stjórnmáladeilna um, hvernig staðið hefur verið að skipulagi einkalóða á undanförnum árum, til dæmis við Skúlagötu, svo að áhugafólk um borgarstjórnarsiði geti gert sér grein fyrir, hvort lóðir hafi verið hækkaðar óeðlilega í verði.

Ekki er allt fengið með að færa land úr einkaeign í almannaeign, svo sem gert hefur verið í Reykjavík. Í stað hættunnar á braski með verðgildi lands kemur hætta á braski með úthlutun lóða. Það er einmitt á því sviði, sem Reykjavíkurborg þarf að bæta ráð sitt.

Enginn vafi er á, að slík spilling hefur minnkað með árunum, einkum eftir að tekin var upp sú stefna að hafa jafnan nægilegt framboð af lóðum. Jafnvægi í framboði og eftirspurn lóða náðist í Grafarvogi. Má nú gera ráð fyrir, að hver geti fengið lóð við sitt hæfi.

Um tíma var borgarstjórn næstum búin að stíga skrefið á enda til eðlilegra viðskiptahátta. Það var, þegar boðnar voru út lóðir við Stigahlíð. Þá veitti borgin eftirsóttar lóðir á hagstæðum stað. Í stað skömmtunar leyfði hún markaðslögmálinu að ákveða verðlag þeirra.

Því miður hefur verið horfið frá stefnunni, sem stjórnaði útboði lóða við Stigahlíð. Í stað útboðs hefur komið úthlutun að nýju. Í sumum tilvikum er lóð úthlutað án auglýsingar, jafnvel á stöðum, þar sem enginn utanaðkomandi gerði ráð fyrir, að lóð yrði úthlutað.

Einn borgarfulltrúi fékk fyrir nokkrum árum lóð, sem ekki hafði verið reiknað með, að yrði notuð undir hús. Hann fékk líka að hefja framkvæmdir án þess að hafa greitt tilskilin gjöld. Þessi spilling olli nokkurri umræðu á öndverðum síðasta vetri, en ekkert var þó gert.

Það er valdið til skömmtunar, sem framleiðir spillingu hjá sveitarstjórnum og stofnunum þeirra. Allar lóðir, sem geta reynzt eftirsóttar, á að bjóða út, svo að ekki sé svigrúm fyrir spillingu. Opinn markaður hefur á Vesturlöndum reynzt heppileg leið til heiðarleika.

Í ýmsum atriðum, þar sem hætta getur verið á spillingu, hefur Reykjavík bætt stöðu sína, ef litið er langt til baka, en staðnað, ef litið er aftur til skamms tíma.

Jónas Kristjánsson

DV