Loðmundarfjörður

Frá Bakkagerði í Borgarfirði eystra um Breiðuvík og Húsavík til Klyppstaðar í Loðmundarfirði.

Hér förum við um litskrúðugasta og eitt fegursta svæði landsins, um gróðursælar víkur og firði undir hvössum og litskrúðugum líparítfjöllum. Skrautlegastur er Hvítserkur úr ljósu flikrubergi. Hvítafjall er mikil ljósgrýtisdyngja. Loðmundarfjörður er einn elzti hluti landsins með bergtegundum, sem eru um tíu milljón ára gamlar. Við Breiðuvík er kennd hin sporöskjulagaða Breiðuvíkureldstöð, sem einkennist mikið af líparíti. Loðmundarfjörður og víkurnar norðan hans eru paradís jarðfræðinga. Þar eru einnig fágætar plöntur, svo sem skollakambur, þúsundblaðarós og þrílaufungur, bjöllulilja, baunagras og gullkollur. Svæðið er einn af Íslands mestu dýrgripum.

Förum frá þjóðveginum innan við Bakkagerði, þar sem hann liggur yfir brúna á Fjarðará. Þar liggur jeppaslóð til suðausturs á Þrándarhrygg. Við fylgjum henni að mestu leyti alla leið. Við höldum áfram suðaustur á Gagnheiði og förum þar í 470 metra hæð norðaustan við Marteinshnjúk. Leiðin liggur í sneiðingum upp í skarðið og úr því aftur niður í Breiðuvík. Þar er sæluhús. Förum síðan vestur dalinn upp með Víkurá, norður fyrir Hvítafjall og síðan með fjallinu að vestan. Þar förum við í sneiðingum upp á Víknaheiði og þar sunnan við Gæsavötn. Þar sveigir leiðin til suðurs og hækkar um Krossmela upp að Hvítserk að vestanverðu og síðan um Húsavíkurheiði suður fyrir fjallið, þar sem við náum 480 metra hæð. Förum austur og niður Vetrarbrekkur í Gunnhildardal, þar sem við höldum til suðurs og niður í Húsavík. Síðan austur að sjó að eyðibýlinu Húsavík. Förum svo aftur vestur dalinn að sæluhúsinu og höldum frá dalbotninum suður á Nesháls milli Nónfjalls að austan og Skælings að vestan. Þar náum við 440 metra hæð. Förum svo í sneiðingum niður í Loðmundarfjörð og förum þar vestur með ströndinni sunnan undir Grjótbrún og Stakkhömrum. Þegar komið er inn undir Stakkahlíð, sveigir vegurinn til suðurs og síðan aftur til vesturs að gistikofanum á Klyppstað.

39,3 km
Austfirðir

Skálar:
Breiðavík: N65 27.830 W13 40.286.
Húsavík: N65 23.716 W13 44.160.
Klyppstaður: N65 21.867 W13 54.051.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Kjólsvík, Norðdalsskarð, Tó, Hjálmárdalsheiði, Kækjuskörð, Dalsvarp, Dyrfjöll, Borgarnes, Kjólsvíkurvarp.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort