Stéttarfélögin sömdu um lækkun tekjuskatts fyrirtækja, ekki einstaklinga, sem borga þó hærri prósentu. Það hlýtur að vera prentvilla í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins við ríkisvaldið. Enn skrítnara er, að samið skuli vera um atriði, sem stjórnarflokkarnir voru áður búnir að lofa í samningi sín á milli. Fyrir því er því miður gömul reynsla, að stéttarfélög semja iðulega við ríkisvaldið um efndir fyrri loforða. Jafnvel eru nokkur dæmi í kjarasamningum um, að ríkisvaldið lofi að efna það, sem áður var lofað í fyrri kjarasamningum. Forustumenn stéttarfélaga eru nefnilega vankaðir.