Lofað og mútað

Greinar

Kosningabaráttan hefur fallið í hefðbundinn farveg upp á síðkastið. Miklu er lofað og töluvert er mútað, rétt eins og stjórnmálamenn telji kjósendur sætta sig við augljóst markleysi stjórnmálanna. Það jákvæða er, að illindi og níð hafa verið með minnsta móti að þessu sinni.

Þegar hlustað er og horft á stjórnmálamenn og lesnar fullyrðingar þeirra, mætti ætla, að þeir hafi alls ekki komið að stjórnvelinum. Staðreyndin er hins vegar sú, að langflestir stjórnmálaforingjar landsins hafa meira eða minna verið ráðherrar á undanförnum áratug.

Einkennilegt getur virzt, að fyrrverandi ráðherrar skuli núna vera að átta sig á, að bæta þurfi stöðu ýmissa hópa og mála, en ekki þegar þeir voru við völd. Og einkennilegt getur virzt, að núverandi ráðherrar séu fyrst núna í kosningabaráttunni að átta sig á hinu sama.

Skýringin er augljós. Stjórnmálamennirnir meina ekkert með loforðum sínum. Þau eru dregin upp úr kistunni fyrir kosningabaráttu og lögð niður í hana aftur að henni lokinni. Ef þeir komast í ráðherrastóla, efna þeir ekki loforð sín, svo sem dæmin sanna, gömul og ný.

Enginn heilvita maður ætti að kjósa eftir loforðum stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Sumir gera það eigi að síður. Fólk er gleymið. Fjögur ár eru langur tími og hvað þá áratugur. Margir láta ginna sig aftur og aftur á fjögurra ára fresti. Lýðræðið er ekki fullkomið.

Sumir ráðherrar eru örlátir á kosningavíxla. Lengst gengur Sighvatur Björgvinsson, er galdrar úr hatti ímyndað álver, sem á að byggja strax í sumar. Næst gengur Halldór Blöndal, sem leggur undir sig flugvél Flugmálastjórnar til að strá peningum um kjördæmið.

150 milljónum er lofað í fiskeldi, 100 milljónum í lækkaðan símakostnað, 43 milljónum í stóðhestastöð (!), 96 milljónum í hjúkrunarheimili, 285 milljónum í sjúkrahús, 300 milljónum í heilsugæzlustöð, 180 í hitaveitu, 115 til rannsókna, 200 í skuldbreytingar og 800 í háskóla.

Ef allt væri með felldu í stjórnmálunum, mundu mútukallar af þessu tagi ekki fá neinn hljómgrunn meðal almennings. Guðmundur Árni Stefánsson fellur í skuggann af þessum vænu slummum. En kjósendur virðast sáttir og fá auðvitað þá þingmenn, sem þeir eiga skilið.

Kosningavíxlar ráðherra verða auðvitað ekki greiddir nema að litlu leyti, enda getur ríkið ekki borgað þessi ósköp. Víxlarnir eru að því leyti verri en loforðin, að þeir kosta skattgreiðendur oftast einhverjar málamyndagerðir, en hreinu loforðin eru yfirleitt alveg ókeypis.

Alþýðuflokkurinn er uppvís að því að hella brennivíni í róna og draga þá til utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Össur Skarphéðinsson lætur ráðuneytið greiða kostnað við prentun áróðursrits um meint afrek hans sem ráðherra. Sú tegund spillingar er annars að mestu horfin.

Rónabrennivínið og ráðuneytisbæklingurinn raga kjósendur ekki frekar en dýru kosningavíxlanir og ódýru kosningaloforðin. Menn ráfa að mestu leyti í þá dilka, sem þeir þekkja frá fyrri tíð. Sveiflan í flokkafylgi frá síðustu kosningum verður ekki tiltakanleg á laugardag.

Í rauninni er furðulegt, hversu margir kjósendur hafa gert upp hug sinn í skoðanakönnunum. Miðað við hvað framboðið er lélegt, mætti ætla, að meirihluti kjósenda teldi sig ekki hafa athvarf hjá neinum stjórnmálaflokki. En meirihlutinn hefur þegar rambað í sína dilka.

Verið getur, að kjósendur geri einhvern tíma uppreisn gegn lélegum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. En þeir gera það ekki í kosningunum á laugardaginn.

Jónas Kristjánsson

DV