Loforðið fjarlægist

Greinar

Eitt hafa hægri og vinstri ríkisstjórnir átt sameiginlegt á Vesturlöndum undanfarin ár. Þær hafa rekið hægri stefnu í fjármálum og efnahagsmálum. Þær hafa hægt á eða stöðvað útþenslu velferðarríkisins og reynt að halda aftur af kröfum fólks um aukið öryggi.

Sama er hvort litið er til íhaldsfrúarinnar Thatcher í Bretlandi eða sósíalistans Gonzales á Spáni. Alls staðar er reynt að beita aðhaldi til að hindra, að þjóðarbúið sligist undan kröfum um hraðari aukningu velferðar og öryggis en efnahagsgrunnurinn megnar að bera.

Skattprósentur eru um þessar mundir að lækka beggja vegna Atlantshafsins. Bandaríkin hafa forustu á þeirri braut og eru komin niður í 28% tekjuskatt á hátekjufólk. Japan, Frakkland, Bretland og Ítalía eru varfærnislega að feta í fótspor forusturíkisins.

Hér á landi hefur lengi verið sterkur, pólitískur vilji fyrir lækkun skatta, einkum tekjuskatts. Eindregnastur hefur hann verið í Sjálfstæðisflokknum. Þar hefur í aldarfjórðung verið rætt um, hversu gott og brýnt væri að afnema tekjuskatt af almennum verkamannalaunum.

Þeir, sem fylgja þessari stefnu, telja mikilvægara, að almenningur fái meiri hluta verðmætasköpunar sinnar í eigin vasa, heldur en að auka enn frekar hina opinberu forsjá, sem fylgir hverju mannsbarni frá vöggu til grafar hér á landi sem annars staðar á Vesturlöndum.

Ríkisstjórnin, sem senn hefur setið að völdum í heilt kjörtímabil, hefur að undirlagi Sjálfstæðisflokksins stefnt að afnámi tekjuskatts af venjulegum lágtekjum í þjóðfélaginu. Seta formanns flokksins í stól fjármálaráðherra ríkisins leggur áherzlu á þetta mál.

Ekki vantar, að mikið hafi verið talað og loforð hafi verið ítrekuð, en minna hefur orðið úr verki. Tilraunir til að afnema almennan tekjuskatt í áföngum, til dæmis þremur, hafa farið út um þúfur. Fyrst var dregið úr áföngunum og nú síðast hefur verið gefizt upp á þeim.

Í staðinn hafa komið í ljós tillögur, sem fela ekki í sér minni skattheimtu, heldur meiri. Alvarlegast er frumvarp flokksformannsins og fjármálaráðherrans um virðisaukaskatt, sem felur í sér miklu meiri opinbera skattheimtu en felst í núverandi söluskatti.

Ábendingar og aðvaranir af þessu tagi hafa fryst virðisaukaskattinn á Alþingi, svo að hann verður ekki að lögum að þessu sinni. Ef málið verður tekið upp aftur á nýkjörnu Alþingi á næsta vetri, er ástæða til að vona, að skattagræðgin verði sniðin af frumvarpinu.

Hins vegar er líklegt, að samþykkt verði í næsta mánuði frumvarpið um staðgreiðslu tekjuskatta launafólks. Tæknilega séð er það framfaramál. Hins vegar er tækifæri kerfisbreytingarinnar ekki notað til að framkvæma hugsjónina um lækkun tekjuskatta.

Deila má um, hvort staðgreiðslufrumvarpið felur í sér óbreytta skattheimtu eða lítillega aukna skattheimtu ríkisins. En ekki er unnt að vefengja, að það felur í sér endanlega uppgjöf flokks og formanns, ráðherra og ríkisstjórnar, í hugsjónamálinu mikla.

Stjórnarflokkarnir ganga senn til kosninga með þá siðferðilega þungu byrði á bakinu að hafa ekki getað lækkað skatta á kjörtímabilinu, þrátt fyrir góðan vilja og stór orð og þrátt fyrir góða fyrirmynd frá mestu velgengnis- og auðríkjum Vesturlanda.

Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort slagorð skattalækkana verða notuð í kosningabaráttunni og hvort einhverjir kjósendur muni fást til að trúa þeim.

Jónas Kristjánsson

DV