Loforðin í erminni.

Greinar

Undarlegt er, hversu mikið stjórnmálamenn, og þar með taldir ráðherrar, geta talað án þess að hafa hugmynd um, hvað þeir eru að tala um. Viðbrögðin við vandræðum húsbyggjenda og -kaupenda eru skýrt dæmi um þetta.

Linun húsnæðisvandans var eitt helzta kosningamál flestra flokka í vor. Einna harðast gekk fram Sjálfstæðisflokkurinn, sem lofaði 80% lánum til 42 ára. Afhyglisverð var nákvæmnin í að tala um 42 ár, en ekki 40.

Þá þegar kom þó í ljós, að loforðasmiðir höfðu ekki minnstu hugmynd um, hvernig þeir ætluðu að framkvæma loforðið. Þeir lögðu ekki fram neinar áætlanir um fjármögnun eða aðrar áþreifanlegar upplýsingar.

Ekki hefur tekið miklu betra við hjá ríkisstjórninni, sem tók við eftir kosningar og lofaði að lána húsbyggjendum og -kaupendum 50% af verði staðalíbúðar til lengri tíma. Hún hefur verið í vandræðum með þetta loforð.

Til skamms tíma hefur loforðið yfirleitt verið skilið svo, að veðdeildarlán ríkisins ættu að hækka úr tæplega 20% í 50% og að lán lífeyrissjóða væru þar fyrir utan. Engin svör hafa þó fengizt, þegar um þetta hefur verið spurt.

Ef hins vegar öll lán ættu að vera innifalin í 50% loforðinu, væri sennilega ekki um neina aukningu lána að ræða, heldur eingöngu yfirfærslu úr frjálsu kerfi lífeyrissjóða inn í ríkisrekstur Húsnæðisstofnunarinnar.

Fyrri skýringin var raunar viðurkennd óbeint í fyrradag, þegar sagt var, að markmiðið mundi ekki nást í einum áfanga, heldur mundu veðdeildarlánin fyrst um sinn hækka í 30% af verði hinnar margumtöluðu staðalíbúðar.

Má þá líta svo á, að 50% markmiðið gildi fyrir kjörtímabilið í heild. Ríkisstjórnin ætli að hækka veðdeildarlánin í áföngum á fjórum árum úr 20% í 50%. Virðist það óneitanlega raunhæfara en kosningaloforðin voru.

Jafnframt hefur ríkisstjórnin samið við lánastofnanir um tiltölulega einfalda og ódýra breytingu á lausaskuldum húsbyggjenda og -kaupenda í fyrst fimm ára og síðan átta ára lán. Þetta hafa fáir notað sér enn.

Af þessum neyðarlánum er aðeins greitt 0,8% lántökugjald, en ekki 1,5% stimpilgjald. Um þessi lán má semja í þeim banka einum, sem er stærstur lánardrottinn, þótt lausaskuldirnar séu í hinum og þessum stöðum.

Ríkisstjórnin hyggst réttilega ganga lengra í að létta róður þeirra, sem hafa ráðizt í byggingu eða kaup síðan verðtrygging hófst. Vandi þeirra, sem sitja í súpunni, er áþreifanlegri en hinna, sem ekki eru byrjaðir.

Því miður virðist ríkisstjórnin og ráðgjafar hennar ekki hafa hugmynd um, hvernig eigi að framkvæma þessa afturvirkni, þótt hún sé mikilvægari en hækkun nýrra lána og ætti raunar að sitja í fyrirrúmi aðgerða.

Einnig er illt, að ríkisstjórnin skuli ekki finna neina leið til sparnaðar í fjárlagafrumvarpi og lánsfjáráætlun, sem rúmi húsnæðismálaloforð upp á 1,6 milljarða króna, – aðra en að mjólka lífeyrissjóðina.

Hætt er við, að ríkisstjórnin reyni að “leysa” vandann með því að taka húsnæðisfé af lífeyrissjóðunum og ríkisreka það, þannig að menn fái meira fé ríkismegin en minna lífeyrissjóðamegin. Heildarféð verði hins vegar lítið aukið.

Jónas Kristjánsson.

DV