Loftið þarf að hreinsa

Greinar

Aukizt hafa grunsemdir um, að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi verið laumað inn á þjóðina í skjóli ósanninda um styrk hennar á Alþingi. Þess vegna er mikilvægt, að sem allra fyrst komi í ljós, hvort nýsett bráðabirgðalög hennar hljóti staðfestingu þings.

Forsætisráðherra hefur reynt og er enn að reyna að tefja fyrir, að afstaða Alþingis til bráðabirgðalaganna komi í ljós. Fyrst gamnaði hann sér við hugmynd um, að hann gæti sent þingið heim að lokinni þingsetningu, alveg eins og landið væri eitthvert Paraguay.

Hugmyndin um brottrekstur Alþingis verður seint kölluð annað en sjúkleg. Hún er grein af sama meiði og setning bráðabirgðalaga aðeins tólf dögum fyrir upphaf þings. Hvort tveggja lýsir andþingræðislegu hugarfari manna, sem kunna illa mannasiði lýðræðis.

Tólf daga bráðabirgðalögin og óskhyggjan um brottrekstur Alþingis eru dæmi um hugarfar, sem telur þingræði of þungt í vöfum, er handhafar framkvæmdavalds telja sig þurfa að fá að ráðskast í friði með milljarða úr vösum skattborgara, sparifjáreigenda og neytenda.

Bráðabirgðalög eru í sjálfu sér ósiður, sem hefur öðlazt hefð við áratuga misnotkun. En brott fellur hin upprunalega forsenda slíkra laga, að ekki náist til Alþingis, þegar aðeins tólf dagar eru til þingsetningar. Þannig hefur misnotkunin verið hert að þessu sinni.

Enn er forsætisráðherra að reyna að fresta sannleikanum um viðhorf Alþingis til bráðabirgðalaganna. Hann leggur þau fyrir efri deild, þar sem staða ríkisstjórnarinnar er tryggari en í neðri deild. Hann getur í efri deild fengið töfina, sem neðri deild mundi ekki veita.

Heiðarlegra hefði verið að viðurkenna, að setning viðamikilla og afdrifaríkra bráðabirgðalaga aðeins tólf dögum fyrir byrjun Alþingis kallaði á tafarlausa niðurstöðu í málinu að hinum tólf dögum liðnum. Á það hefði strax reynt í atkvæðagreiðslu í neðri deild.

Með því að leggja málið fyrir efri deild verður bið á, að það fái eldskírn sína í neðri deild. Fyrst þarf það væntanlega að fara í nefnd í efri deild. Þar verða stjórnarsinnar látnir reyna að tefja málið sem mest má verða, svo sem með því að kalla til ótal umsagnaraðila.

Stjórnarandstaðan getur auðvitað beitt þrýstingi og það ber henni að gera. Hún á fyrir engan mun að sætta sig við, að forsætisráðherra geti látið bráðabirgðalög, sem ekki er meirihluti fyrir, verða að sögulegri staðreynd, sem ekki er lengur marktækt að hnekkja.

Forsætisráðherra hefur myndað stjórn á grundvelli ímyndunar um, að hún njóti á örlagastundum stuðnings huldumanns á Alþingi. Í krafti þess meira en lítið vafasama umboðs hefur hann sett óvenjuleg bráðabirgðalög, sem hann er nú sjálfur að reyna að tefja á þingi.

Ofan á þennan hála ís hefur forsætisráðherra sprautað köldu vatni með því að reiða sig á stuðning þingmanns Alþýðubandalagsins, sem efnislega er andvígur ríkisstjórninni, en hefur formlega lofað að taka samvizkuna úr sambandi, þegar stjórninni hentar.

Að vísu munu þingmenn áður hafa tekið samvizku sína úr sambandi. En einsdæmi er, að menn geri það fyrirfram og á formlegan hátt. Sigurður Líndal lögfræðiprófessor hefur hér í blaðinu dregið í efa, að Skúli Alexandersson megi gera annan mann að “atkvæði sínu”.

Langar leiðir leggur ólyktina af tveggja vikna gamalli ríkisstjórn. Alþingi ber að hreinsa loftið með því að ákveða sem allra fyrst örlög bráðabirgðalaganna.

Jónas Kristjánsson

DV