Svo virðist sem lögreglan í Reykjavík hafi látið Stöð 2 misnota sig til að vernda meintan eignarrétt stöðvarinnar á Bobby Fischer við komu hans til Íslands. Það hlýtur að vera sérkennilegt fyrir skákmann, sem er andvígur Bandaríkjunum, að lenda í amerískri fjölmiðlagræðgi við komuna til Íslands. Auðvitað var út í hött af lögreglunni að þjóna hagsmunum stöðvarinnar við komuna. Það var stuðningsnefnd Fischers, sem á heiðurinn af komu hans til landsins og hún átti að fá að ráða því, að hún færi fram með virðulegum hætti, en ekki sem gráðugur skrípaleikur á vegum fréttastjóra Stöðvar tvö.