Lögin eru okkar megin

Hestar

Dönsku herforingjaráðskortin gömlu með ótal reiðleiðum um landið eru grundvallarheimild um, hvað séu hefðbundnar reiðleiðir, sem njóta lagalegrar verndar, allt frá Jónsbók ársins 1281 yfir í náttúruverndarlög ársins 1999. Þetta má sjá af viðtölum Eiðfaxa við Sigurð Líndal lagaprófessor og tvo forstjóra Landmælinganna, Ágúst Guðmundsson og Magnús Guðmundsson. Af viðtölunum má ráða, að réttarstaða hestaferðamanna er betri en margir hafa talið, þótt lítt hafi verið látið á hana reyna fyrir dómstólum. Það er til dæmis varla löglegt að banna rekstur hrossa um Þjórsárbakka, svo að þekkt dæmi sé tekið. Ennfremur er varla löglegt að merkja gamla reiðleið sem gönguleið og banna umferð hesta um hana. Hins vegar er ljóst, að samtök hestamanna hafa látið undir höfuð leggjast að verja hefðarrétt hestaferðamanna á gömlum götum og slóðum, svo að hann kann að hafa fallið niður í sumum tilvikum.

Hætt að fella
út reiðleiðir

Ágúst Guðmundsson

Landgreining er að afla heimilda um yfirborð landsins. Unnið er eftir stöðlum, sem hafa breytzt í tímans rás. Sérstök ákvörðun er, hvaða upplýsingar eru notaðar í hvern kortaflokk fyrir sig. Kort eru í ýmsum mælikvörðum. Færri merkingar eru í kortum í mælikvarðanum 1/250.000, þar sem km á landi er 4 mm á korti en í mælikvarðanum 1/25.000, þar sem km á landi er 4 sm á korti.

Danir mældu landið á fyrsta áratug tuttugustu aldar. Þær mælingar eru grundvöllur kortanna, sem eru í mælikvarðanum 1/100.000. Þar eru merktir alls konar slóðar og stígar, raunar fjórir flokkar leiða, sem ekki eru bílvegir. Þessar leiðir voru einnig lengi merktar inn á kort í mælikvarðanum 1/250.000, svo og á kort, sem unnin voru af Bandaríkjamönnum og prentuð í mælikvarðanum 1/50.000.

Þegar bílvegir urðu meginæðir milli landsvæða, voru þessar gömlu leiðir að mestu felldar út af nýjum útgáfum af kortum í mælikvarðanum 1/250.000.

Upp úr 1970 fór að bera á, að landeigendur óskuðu eftir því við Landmælingarnar, að felldar yrðu niður merkingar á gömlum götum og slóðum um land þeirra. Að mestu byggðust þessar óskir á ágreiningi við hestamenn. Landeigendur girtu lönd, grófu skurði og gerðu tún, en hestamenn rifu girðingar, ef ekki voru hlið á þeim, þar sem kortin sýndu leið.

Í samræmi við slíkar óskir voru gamlar leiðir teknar út af kortum í miklum mæli í þéttbýli, en miklu minna á óbyggðum svæðum. Segja má, að óskir landeigenda hafi nánast verið afgreiddar eftir pöntun, þótt dæmi séu um, að þeim hafi verið hafnað.

Um 1975 fóru óskir einnig að berast frá náttúruverndarsamtökum um, að leiðir yrðu yfirleitt ekki merktar inn á kort. Þetta átti að vernda staði, en leiddi um leið til þess, að umferð dreifðist vítt og breitt, en takmarkaðist ekki eins vel við slóða og stíga. Reynslan hefur sýnt, að merking leiða á kort fer betur með landið.

Engin lög eða reglugerðir voru til á þessum tíma um Landmælingarnar. Þar með voru ekki til nein fyrirmæli um, hvernig þær ættu að fara með erindi um niðurfellingu leiða.

Þegar ég varð forstjóri Landmælinganna árið 1985, hófst vinna við staðla fyrir nýja landgreiningu. Samkvæmt þeim átti að staðsetja allar leiðir, en misjafnt af þeim fór inn á kort eftir stærðarhlutfalli þeirra. Á kort í mælikvarðanum 1/250.000 fóru aðeins bílvegir og jeppaslóðir, en ekki götur og gamlar leiðir, sem sýndar voru áfram á kortum í mælikvarðanum 1/100.000 og stærri mælikvörðum.

Meginstefnan varð sú, að kort ættu að sýna landið, burtséð frá eignarhaldi og utanaðkomandi sjónarmiðum. Þess vegna var hætt að verða við óskum um niðurfellingu leiða af kortum, þegar ég tók við Landmælingunum. Frá þeim tíma hafa sjáanlegar og þekktar leiðir verið hluti landlýsingar stofnunarinnar eins og þær voru í landmælingunum í upphafi 20. aldar.

Rof milli þjóðleiða
og nýrra reiðvega

Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinganna:

Enn er fylgt þeirri reglu hér á stofnuninni, að reiðleiðir eru ekki teknar út úr kortagrunni eftir pöntun hagsmunaaðila. Hins vegar er matsatriði, hvaða staðreyndir skuli sýna á útgefnum kortum og hvaða atriði fari fyrst inn í stafrænan kortagrunn, sem er í smíðum. Reiðleiðir hafa þar ekki verið í forgangi.

Reiðleiðir herforingjaráðskortanna verður hægt að sjá á geisladiski, sem kemur út í haust og nær til alls landsins, en alls verða á þeim diski 87 kortablöð í kortaröð sem nefnd er Atlaskort. Diskurinn nær yfir yngstu útgáfur þessara korta, þannig að einhverjar reiðleiðir úr fyrstu útgáfum hafa fallið út, en allur þorri reiðleiðanna er á kortinu.

Við höfum samráð við ýmsa aðila um gerð korta t.d. Vegagerðina, Örnefnastofnun, samtök ferðaþjónustunnar og sveitarfélög. Hestamenn hafa komið að þessu samstarfi og við höfum gefið út sérstök reiðleiðakort í samstarfi við Landssamband hestamannafélaga.

Það verður þó að segjast, að þessir aðilar hafa meiri áhuga á uppbyggðum reiðvegum við þéttbýli og innansveitarleiðum heldur en gömlum þjóðleiðummilli sveita. Þess vegna meðal annars hafa leiðir af herforingjaráðskortunum ekki verið teknar upp í ýmis nýleg sérkort til ferðalaga, svo sem kort af Reykjanesskaga og kort af Hornströndum.

Segja má því, að myndast hafi rof milli gömlu þjóðleiðanna á herforingjaráðskortunum og nýju reiðveganna, sem eru þáttur í skipulagi sveitarfélaga. Það er þó markmið Landmælinganna, að allar upplýsingar fari að lokum í stafræna kortagrunninn, þar á meðal reiðleiðir herforingjaráðskortanna.

Reiðleiðir eru
lögverndaðar

Herforingjaráðskortin gilda

Sigurður Líndal lagaprófessor:

Samkvæmt Jónsbók frá 1281, landsleigubálki 24, er mönnum heimilt að ríða um annarra manna land og almenning og æja hestum þar. Þetta umferðarfrelsi er staðfest í nýjustu náttúruverndarlögum nr. 44 frá 1999. Í þriðja kafla laganna er fjallað nánar um einstök atriði og takmarkanir þessa almannaréttar, sem varða hestamenn, einkum í 12.-16. grein þeirra.

Meginreglan er að mönnum er almennt heimil för um landið, þar á meðal um eignarlönd, og heimil dvöl á landi í lögmætum tilgangi. Þeir þurfa ekki að fá sérstakt leyfi til að fara um óræktað land. Þeim er ekki bannað að hafa lausa hesta með í för. Á eignarlöndum mega þeir að fengnu leyfi slá upp aðhaldi og næturhólfi, enda valdi þau ekki landspjöllum. Óheimilt er að loka gömlum þjóðleiðum með girðingum og skurðum, nema hafa á þeim hlið, brýr eða stiga.

Hestaferðamenn skulu sýna landeigendum og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, einkum vegna búpenings, hlunninda og ræktunar. Þeim ber að fara eftir merktum leiðum og loka hliðum á eftir sér. Þeir eiga að fylgja skipulögðum reiðstígum eins og kostur er. Á hálendinu er þeim gert að æja á ógrónu landi og hafa fóður í næturstað. Þeir þurfa að hafa samráð við landverði, þegar þeir fara um náttúruverndarsvæði.

Landeigandi getur unnið eignarhefð á tilfæringum bundnum við fornar þjóðleiðir og þeir sem hafa farið um slíkar þjóðleiðir geta unnið afnotahefð og þannig helgað sér rétt til umferðar. Þar kæmi til 20 ára hefðartími, hugsanlega einnig 40 ára, ef slíkur réttur teldist til ósýnilegra ítaka. Reiðleiðir munu væntanlega falla undir þessa skilgreiningu. Ein mikilvægasta heimildin um hefðbundnar reiðleiðir eru kort danska herforingjaráðsins frá fyrsta áratug 20. aldar, þar sem merktar eru inn fjórar tegundir leiða, fyrir utan akvegi.

Hafi leiðum dönsku kortanna ekki verið mótmælt í orði eða verki í, má líta svo á, að þær séu verndaðar af hefðarrétti, en skoða verður hvert tilfelli til að ákvarða nánar rétt einstakra manna. Ef einhver vill vefengja reiðleið á dönsku herforingjaráðskorti, sem kortlögð hefur verið í góðri trú, hvílir á honum sönnunarbyrði um, að hún sé ekki hefðbundin þjóðleið, en ekki á hinum, sem vill ríða þessa leið.

Ef hefðbundin reiðleið hefur lengi ekki verið farin og landeigandi eða rétthafi hefur girt yfir hana í góðri trú og enginn mótmælt því, má ef til vill líta svo á, að girðingin hafi unnið sér hefð, sem víki eldri hefð reiðleiðarinnar til hliðar. Hér mætti ef til vill hafa hliðsjón af hefðartíma, 20 eða 40 árum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 7.tbl. 2003