Lögmálin gilda ekki

Greinar

Erlendis hafa tryggingafélög á sínum snærum svokallaða tryggingafræðinga. Það eru stærðfræðingar, sem reikna líkur á, að upp komi tilvik, er leiði til bótagreiðslna. Útreikningar tryggingafræðinganna endurspeglast síðan í misháum iðgjöldum eftir áhættu.

Svo virðist sem íslenzk tryggingafélög notfæri sér ekki slíka þjónustu. Mjög lítið er um, að þau bjóði viðskiptamönnum sínum misháar iðgjaldagreiðslur eftir áhættuflokkum. Sá, sem hefur eld- eða fokvarnir í lagi, borgar hið sama og hinn, sem ekki hefur það.

Í fárviðrinu um síðustu helgi kom enn einu sinni í ljós, að sum þök í landinu eru fest með hnykktum saum og jafn þétt og reglur mæla fyrir um. Önnur þök eru fest með lélegum saum og mun gisnar, til dæmis á rúmlega 100 sentímetra bili í stað 70 sentímetra bils.

Þetta skiptir ekki aðeins máli vegna tjónsins, sem verður á húsinu sjálfu. Þegar þakplötur fljúga um, valda þær tjóni á öðrum húsum og bílum, þannig að kostnaðurinn hleður utan á sig. Auk þess er mikil hætta á mannskaða, þótt svo hafi ekki orðið um helgina.

Í fárviðrinu um helgina kom líka í ljós, að skortur er á leiðbeiningum og stöðlum um frágang mannvirkja, einkum í sveitum landsins. Sum hús eru eins og spilaborgir, sem hrynja, ef þau gefa eftir á einum stað. Enginn aðili virðist halda uppi aga að þessu leyti.

Áður hefur komið fram, að tryggingafélög gera engan greinarmun á forvörnum, þegar þau gera upp tjón vegna bruna. Frægt er dæmið um Réttarhálsbrunann, þar sem brotnar höfðu verið flestar reglur, sem hægt er að brjóta. Og þannig hefur hvert frystihúsið brunnið af öðru.

Öll greidd tjón, sem stafa af slælegum forvörnum, hækka iðgjöld þeirra, sem hafa sín mál í lagi. Þess vegna verða iðgjöld hærri en þau þyrftu að vera og fæla fólk frá því að taka tryggingar á borð við húsa- eða foktryggingu. Málið verður að vítahring, sem skaðar alla.

Samkvæmt lögmálum markaðarins ætti þetta alls ekki að vera svona. Þau segja, að tryggingafélög eigi að hafa hag af, að viðskiptamenn þeirra hafi sína hluti í sem beztu lagi. Þess vegna eigi þau að bjóða upp á mishá iðgjöld eftir líkum á, að tjón hljótist.

Markaðslögmálin segja, að viðskiptamenn, sem standa andspænis misháum iðgjöldum, leitist við að ganga betur frá atriðum eins og eldvörnum og fokvörnum til að spara sér iðgjöld. Markaðslögmálin eiga að breyta vítahring í jákvæðan hring, sem allir græði á.

Lögmálin segja, að tryggingafélög séu í samkeppni um að fá sem flesta og bezta viðskiptamenn. Þess vegna muni þau bjóða mishá iðgjöld og hafa á sínum snærum skoðunarmenn, sem meti hið tryggða, svo sem hús, með tilliti til áhættu, svo sem af bruna eða foki.

Markaðslögmálin segja raunar, að ekki þurfi nein boð og bönn um frágang húsa, heldur eigi samkeppni tryggingafélaga að nægja til að hvetja húseigendur til að ganga þannig frá málum, að ekki hljótist af eldsvoðar eða foktjón. En lögmálin virka því miður ekki hér.

Forstjóri annarrar samsteypunnar, sem eru alls ráðandi á íslenzka tryggingamarkaðinum, sagði í viðtali við DV í fyrradag, að ekki væri hægt að flokka hús í mismunandi áhættuflokka. Á íslenzku þýðir þetta, að hann nennti ekki að flokka hús eftir áhættu.

Hann nennir ekki að flokka hús eftir áhættu, af því að markaðslögmálin gilda ekki hér á landi að þessu leyti, vegna þess að tryggingafélögin eru of fá.

Jónas Kristjánsson

DV