Neytendur og hluti reykvískra matvörukaupmanna sæta nú lögregluofsóknum af hálfu samtaka kaupmanna og verzlunarfólks, svo og borgaryfirvalda, sem hafa ákveðið að fólki sé fyrir beztu að verzla ekki á laugardögum.
Yfirlögregluþjónninn í Reykjavík hefur látið hafa eftir sér flóknar lögskýringar á atburðunum. Hún er sú, að lögreglumenn hindri neytendur í að fara inn í matvörubúðirnar, en beiti þá ekki valdi.
Í öllum málum, sem varða opnunartíma, hafa Kaupmannasamtökin bæði verzlunarmannafélagið og borgaryfirvöld í vasanum, einkum þar sem þessir tveir máttarstólpar sameinast í Magnúsi L. Sveinssyni stéttarfélagsformanni og borgarfulltrúa.
Þessi þríhöfða þurs kaupmanna, verzlunarmanna og borgaryfirvalda hefur um langt skeið hindrað eðlilega viðskiptahætti í Reykjavík, svo að neytendur þurfa að aka í bílalestum vestur á Seltjarnarnes til að fá að verzla.
Samkvæmt valdboði þursins má engar nytsamlegar vörur selja utan þess tíma, sem almenningur er í vinnu. Þegar reykvískir neytendur hafa frí til að verzla, er þeim bara boðið upp á súkkulaðihúðað kex og gos út um sjoppugöt.
Áður fyrr hímdi hinn dæmigerði Reykvíkingur hóstandi í keng við sjoppugöt hinna vinsamlegri kaupmanna, sem höfðu innangengt úr sjoppum inn í verzlun hinna nytsamlegri hluta. En nú komast þeir þó í hlýjuna vestur á Nesi.
Hinn þríhöfða þurs hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ríða net einokunar yfir Seltjarnarnes, en ekki fengið að gert. Við Eiðisgranda stöðvast þráhyggja einokunarsinna, sem þykjast vita, hvað sé neytendum fyrir beztu.
Verzlunum á Seltjarnarnesi og þeim verzlunum í Reykjavík, sem hafðar eru opnar á laugardögum, er haldið opnum af eigendum sjálfum, enda hefur laugardagsvinna verzlunarfólks á sumrum verið bönnuð með kjarasamningum.
Hagsmuna verzlunarfólks hefur því þegar verið gætt í kjarasamningum. Magnús L. Sveinsson þarf því ekki verzlunarfólks vegna að fylgja hagsmunum hinna latari kaupmanna alla leið inn í borgarstjórn með tilheyrandi lögregluofsóknum.
Kjarni þessa máls er auðvitað sá, að meirihluti reykvískra kaupmanna nennir ekki að vinna um kvöld og helgar. Það er ákaflega skiljanleg leti, svo framarlega sem hún kemur ekki niður á matvörukaupmönnum, sem vilja vinna.
Í þessu efni fara saman hagsmunir þeirra neytenda, sem eiga erfitt með að fara úr stífri vinnu til að verzla á takmörkuðum opnunartíma lötu kaupmannanna – og hagsmunir hinna duglegri kaupmanna, sem nenna að þjónusta þessa neytendur.
Á Seltjarnarnesi hafa bæjaryfirvöld ekki séð neina þörf á að ákveða, hvenær kaupmenn skuli selja og neytendur kaupa. Í Reykjavík beita borgaryfirvöld hins vegar lögregluofsóknum til að hafa vit fyrir fólki og tryggja ró kaupmanna.
Ef lögreglan í Reykjavík er svo fjölmenn, að yfirlögregluþjónninn hefur aðstöðu til að láta standa vörð við einar 30 matvörubúðir til að koma í veg fyrir heilbrigð viðskipti neytenda, er kominn tími til að fækka þar í sveit.
Og svo mikil andstaða er meðal kaupmanna og neytenda gegn sumarlokun laugardaganna, að vonandi er nú fengið tækifæri og samstaða til að brjóta á bak aftur hinn þríhöfða þurs, sem lætur Magnús L. Sveinsson hafa vit fyrir fólki.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið