Lögregluofbeldið.

Greinar

Lögreglustjóraembættinu í Reykjavik ber að greiða sektir þær og skaðabætur, sem Hæstiréttur dæmdi nýlega fórnarlambi lögregluofbeldis. Starfsmaður lögreglunnar, sem dæmdur var, framdi ofbeldið í vinnutímanum og á vegum húsbóndans, lögregluríkisins.

Venja er, að vinnuveitendur greiði kostnað, sem hlýzt af mistökum starfsmanna, þótt sjálfir dómsúrskurðirnir beinist að starfsmönnum sem einstaklingum. Enn meiri er ábyrgð húsbóndans, þegar hann hefur mótað andrúmsloft, sem hvetur til slíkra mistaka.

Lögregluofbeldi er algengara hér á landi en sem svarar einu hæstaréttarmáli. Fáir hafa aðstöðu og bein í nefinu til að kæra lögregluna og fylgja kærunni á leiðarenda. Það reynir á þolrifin að sitja undir rógi lögreglunnar, lögmanna hennar og klappliðs hennar.

Brezk lögregluyfirvöld gera sér grein fyrir, að ofbeldishneigðar hlýtur að gæta hjá sumum lögreglumönnum. Þau hafa staðið fyrir rannsóknum á vandamálinu í því augnamiði að finna ráð til að halda ofbeldinu í skefjum og hindra útbreiðslu þess innan löggæzlunnar.

Hér á landi er viðhorf yfirstjórnar lögreglunnar þveröfugt. Sama er að segja um viðhorf samtaka lögreglumanna. Frá sjónarhóli þessara aðila gera lögreglumenn aldrei neitt rangt í starfi. Þeir eru varðir gegnum þykkt og þunnt, allt fram í rauðan dauðann.

Þetta stuðlar að ákveðinni hóphvöt, sem lýsa má á þann hátt, að hér erum við, vaktin, sem stendur saman, en þarna úti í umheiminum er pakkið, fyllibytturnar, þrasararnir, blaðamennirnir og aðrir óvinir okkar, vaktarinnar. Slík hóphvöt er þekkt fyrirbæri.

Það er lýsandi dæmi um ástandið, að lögregluofbeldi hefur haldið áfram að viðgangast, síðan hófust þau málaferli, sem nú hafa náð niðurstöðu í Hæstarétti. Lögreglumenn vita, að efnislega styður húsbóndinn þá, þótt hann virðist nú ekki vilja borga tjónið.

Að vísu kann þetta að breytast, ef lögreglustjóraembættið vill ekki borga fyrir starfsmanninn. Slíkt er auðvitað líklegt til að draga úr lögregluofbeldi í framtíðinni, því að einstaklingar hafa ekki efni á að tapa mörgum slíkum málum í Hæstarétti.

En þetta er ekki rétta leiðin til að draga úr lögregluofbeldi. Lögreglustjóraembættinu sem stofnun ber að standa við húnbóndaskyldu sína. Það átti sjálft og á enn að geta haldið uppi slíkum aga á liði sínu, að ekki leiði til mistaka, sem hér eru til umræðu.

Löngu áður en þetta mál kom upp lét dómsmálaráðuneytið kanna viðhorf almennings til lögreglunnar. Þetta var fyrir fimm árum. Þá kom í ljós, að fólk var hrætt við lögregluna. Hætt er við, að traust almennings hafi enn rýrnað eftir ofbeldi síðustu ára.

Fyrir fimm árum töldu flestir hinna spurðu, að lögreglan kynni ekki tök á drukknu fólki, hefði ekki lag á að róa fólk, beitti stundum óþarfri hörku, til dæmis við handtöku, og berði fólk, þegar aðrir sæju ekki til. Þetta er ekki félegt álit á verndurum borgaranna.

Rotnunin í lögreglunni kemur að ofan, en ekki frá einstaklingum, sem lenda í mistökum í hita andartaksins. Það er sjálf yfirstjórnin, sem er skyldug til að koma upp aga, svo að ofbeldi minnki og lögregluríkið hverfi. En ekki með því að neita að borga eftir á.

Jónas Kristjánsson.

DV