Í leiðurum þessa blaðs hefur stundum verið lýst megnri óánægju með máttlausa og geðlausa embættisfærslu lögreglustjórans í Reykjavík, einkum í málum, sem varða ölæði og ofbeldi á almannafæri og einnig þeim, sem varða ólöglegar auglýsingar á áfengi.
Blaðið hefur jafnframt fagnað frumkvæði nýs varalögreglustjóra gegn ölæði og ofbeldi á almannafæri, en ekki séð neina breytingu á friðhelginni, sem ólöglegar auglýsingar áfengis njóta hjá embættinu. Hinir nýju vindar mættu blása meira, ef vel ætti að vera.
Dómsmálaráðuneytið hefur á ýmsan hátt reynt að blása lífi í embætti lögreglustjórans í Reykjavík og fá tekin þar upp alvarlegri vinnubrögð, meiri stjórnsemi og aðhald af hálfu yfirmanna. Sem dæmi má nefna viðbrögð við dularfullu hvarfi fíkniefna úr vörzlu lögreglu.
Ráðuneytið þarf þó að fara að leikreglum í þessu sem öðru. Aðgerðir þess gegn lögreglustjóranum í Reykjavík hafa margar hverjir verið á gráu svæði, svo að ekki sé meira sagt. Meðal annars hafa þær falið í sér leka á völdum upplýsingum úr skýrslum um starfsemina.
Fjölmiðlar geta ekki treyst leka ráðuneytisins, því að þar hefur ekki komið fram allur sannleikur málsins, heldur einungis þættir, sem slitnir úr samhengi við önnur atriði gætu orðið til þess að niðurlægja og fjarlægja máttlausan en um leið vammlausan lögreglustjóra.
Dómsmálaráðuneytið hafði frumkvæði að lögum um sérstakt embætti ríkislögreglustjóra til þess eins að draga úr valdi lögreglustjórans í Reykjavík. Það setti sérstakan varalögreglustjóra til höfuðs honum. Og nú hefur það smíðað skipurit til að gera hann valdalausan.
Áratugum saman hefur ekki sést neitt annað dæmi um svona langvinnar og þrautseigar tilraunir til að grafa undan embættismanni, sem hefur ekki gert annað af sér en að vera linur yfirmaður. Þessar tilraunir gefa greinargóða lýsingu á hugarfari dómsmálaráðherra.
Með hreinni og beinni aðferðum hefði verið unnt að knýja fram virkari stjórn á lögreglunni í Reykjavík og spara persónulegar ofsóknir, sem grafa ekki aðeins undan einstaklingum, heldur starfsemi lögreglunnar í heild. En undirferlið hentar ráðherranum betur.
Það nær ekki nokkurri átt, að til tímabundinna þæginda séu lög og skipurit sérsniðin að tilvist ákveðinna einstaklinga, en ekki að langtímaþörfum stofnana, sem halda áfram að lifa, löngu eftir að farnir eru þeir, sem lögin og skipuritin voru upphaflega sniðin að.
Dómsmálaráðherra hefur sjálfur óspart beitt pólitískum ráðningum kvígilda á borð við þá, sem varð, þegar forveri hans réð hæglátan sýslumann úr röðum framsóknarmanna sem lögreglustjóra í Reykjavík. Þannig er fullt af linum embættismönnum í kerfinu.
Það er óviðurkvæmilegt að taka einn slíkan embættismann og ofsækja hann með þeim hætti, sem dómsmálaráðherra hefur gert árum saman. Sá verknaður allur verður honum til lítillar sæmdar, þegar metinn verður pólitískur ferill hans, sem senn er á enda.
Yfirleitt er hrollvekjandi að hugsa til þess, að einn hatursfullur ráðherra skuli geta misnotað sjálft innanríkisráðuneytið til ofsókna gegn einstaklingum. Ef hægt er að beita því gegn lögreglustjóranum, er þá ekki líka hægt að beita því gegn almenningi yfirleitt?
Það eru fleiri en framsóknarmenn, sem hafa óbragð í munninum við að horfa upp á undirferli og ofsóknir af hálfu dómsmálaráðuneytisins og ráðherra þess.
Jónas Kristjánsson
DV