Landlæknir hefur ákveðið að halda verndarhendi yfir svefnlyfinu Halcion, sem hefur verið bannað í Bretlandi, Noregi og Finnlandi vegna rökstudds gruns um hættulegar aukaverkanir, sem geti leitt til geðbilunar og ofbeldisafbrota sumra þeirra, sem ánetjast lyfinu.
Þetta er í stíl við dálæti Íslendinga á ýmsum lyfjum, sem notuð eru sem fíkniefni. Þetta dálæti kemur meðal annars fram í, að mikill hluti þeirra, sem lagðir eru inn á slysadeild Borgarspítalans vegna inntöku eiturefna, hefur neytt lyfja, sem þeir fá samkvæmt lyfseðlum.
Erlendis eru eitranir af slíku tagi einkum af völdum heróíns eða kókaíns, amfetamíns eða kannabis, sem eru seld á svörtum markaði. Hér á landi gegna lögleg lyf hlutverki fíkniefna, enda virðist aðgangur að slíkum lyfjum meira eða minna auðveldur og aðhaldslítill.
Enginn af þeim 155 einstaklingum, sem komu til slysadeildar vegna eitrunar, hafði notað kókaín eða heróín. Aðeins sex höfðu notað amfetamín eða kannabis. Afgangurinn hafði verið á löglegum eiturlyfjum, ýmist áfengi eða lyfjum eða hvoru tveggja í senn.
Flest fólk, sem er til vandræða í þjóðfélaginu vegna síbrota af ýmsu tagi, er áfengis- og lyfjafíklar. Þjóðfélagið hefur stuðlað að þessu með því að leyfa, að dælt sé róandi lyfjum í fanga á Litla-Hrauni, þannig að þeir verða ekki síður háðir þeim en hinu hefðbundna áfengi.
Því má halda fram, að betra sé að hafa fíkniefnavandamálið á lyfseðlunum heldur en á svarta markaðnum. Þá sé betra að fylgjast með því og halda því í skefjum. En í raun er lítið sem ekkert fylgst með, hverjir eru í hve miklum mæli á hinum löglega eiturlyfjamarkaði.
Halcion er eitt þeirra róandi lyfja, sem notuð hafa verið af fíklum, og hefur einkum verið vinsælt í Vestmannaeyjum. Það hefur þó fallið í skuggann fyrir benzodíazepíni af ýmsu tagi. En öll þessi róandi og svæfandi lyf hafa reynzt vanabindandi eins og önnur eiturlyf.
Því er nú haldið fram af ábyrgum læknum og fræðimönnum í Bandaríkjunum, að fyrirtækið, sem framleiðir Halcion, hafi í um það bil áratug sumpart falsað niðurstöður rannsókna og sumpart haldið þeim leyndum til að leyna vitneskju um aukaverkanir þessa lyfs.
Með tilliti til hins gífurlega kostnaðar og hörmunga, er þjóðfélagið sætir vegna ofnotkunar löglegra lyfja, sem fólk fær afgreidd samkvæmt lyfseðli, verður að teljast sérkennilegt, að heilbrigðisyfirvöld og landlæknisembættið skuli ekki taka þessi mál fastari tökum.
Algengt er, að fólk, sem orðið er háð áfengi, er flutt yfir í lyfjaþrældóm og ástand þess þannig gert enn verra en það var. Þetta tengist útbreiddri trú meðal sálfræðinga, að unnt sé að kenna fíklum að nota lyf og áfengi í hófi, þótt það stríði gegn niðurstöðum rannsókna.
Töluvert er þegar vitað um hættur af efnum þeim, sem breyta hugarfari og sálarástandi. Því ætti strax að þrengja að notkun róandi lyfja og svefnlyfja, sem eru stór og vaxandi grein af þessum persónubreytandi efnum. En því miður virðast yfirvöld ekki skilja þetta enn.
Halda má fram, að lyf þessi geti verið bráðnauðsynleg við ákveðnar aðstæður. En ekki verður betur séð en að töluvert svigrúm sé til að þrengja notkun þeirra með betra eftirliti með útgáfu lyfseðla og strangara aðhaldi með læknum þeim, sem þjóna fíklamarkaðnum.
Læknar taka lítið mark á hvatningu landlæknis um að gefa fremur út ávísanir á veikari útgáfu af Halcion en hina sterkari. Silkihanzkar landlæknis virka ekki.
Jónas Kristjánsson
DV