Væri ég ritstjóri fjölmiðils, væri ég andvaka út af virkum-í-athugasemdum við fréttir. Mundi leysa málið með að loka athugasemdum og tengja frá fréttum yfir á fésbók fjölmiðilsins. Á fésbók koma flestir fram undir nafni. Hægt er að hafa ritstjóra fésbókar, sem strikar út skrif gervihöfunda og þekktra nafnafalsara. Þannig axlaði ég ekki ábyrgð á margvíslegu rugli og rýrði líkur á málshöfðun. Nákvæmlega þetta geri ég í eigin bloggi. Þar er lokað fyrir athugasemdir. Hins vegar er á fésbókarvegg mínum hlekkjað yfir í fréttina. Þar verður málefnalegri umræða en hjá nafnlausum virkum-í-athugasemdum. Slíkt mættu fjölmiðlar prófa.