Írski skæruliðinn og brezki þingmaðurinn Bobby Sands er látinn í Maze-fangelsi eftir 66 daga hungurverkfall. Hann var 27 ára og hafði verið næstum samfleytt í fangelsi frá 19 ára aldri fyrir aðild að vopnuðum aðgerðum skæruliða.
Hin stutta ævisaga Sands er dæmigerð fyrir hinn óleysanlega norður-írska vanda, að fjölmenn miðstétt mótmælendatrúarmanna og fámennari undirstétt kaþólskra manna standa andspænis hvor annarri, gráar fyrir járnum.
Kaþólsk fjölskylda Sands hrakist úr hverfi mótmælenda, þegar ruslatunnu var varpað inn um gluggann að næturlagi og skotið að húsinu. Slíkt hafa margar fjölskyldur mátt reyna, beggja vegna trúarmúrsins.
Sands hraktist svo sjálfur úr vinnu í strætisvagnaverksmiðju, þegar honum var hótað lífláti, ef hann hefði sig ekki á brott. Í sumum stéttum og fyrirtækjum Norður-Írlands sitja nefnilega eingöngu mótmælendatrúarmenn að vinnu.
Þannig varð Sands félagi í Írska lýðveldishernum og gerðist skæruliði. Fyrst var hann dæmdur árið 1973 í fimm ára fangelsi fyrir aðild að tveimur vopnuðum ránum og síðan árið 1976 í fjórtán ára fangelsi fyrir vopnaburð og átök við öryggissveitir.
Sands er þrettándi Írinn, sem lætur lífið af völdum hungurverkfalls í fangelsi á þessari öld. Í þetta sinn, alveg eins og í fyrsta sinn, lá að baki krafan um meðhöndlun eins og á pólitískum stríðsfanga, en ekki venjulegum glæpamanni.
Frá Íslandi séð er einkar erfitt að meta, hvað sé glæpur, hvað sé pólitík og hvað sé stríð á Norður-Írlandi. Hitt er ljóst, að enginn maður sveltir sig til bana án þess að meina það, sem hann segir.
Meðan Sands var í hungurverkfalli var hann kosinn á brezka þingið í aukakosningum í Fermanagh og Suður-Tyrone, þar sem kaþólskir menn eru í naumum meirihluta. Hann sópaði til sín svo að segja öllum kaþólskum atkvæðum.
Eftir þessa kosningu er ekki lengur hægt að halda því fram, að umdeildar baráttuaðferðir Írska lýðveldishersins njóti lítils stuðnings hjá kaþólskum almenningi. Sands hefur sameinað hann undir merkjum skæruliða.
Margir lögðu hart að sér við að leita málamiðlunar, allt frá Mannréttindaráði Evrópu yfir í Jóhannes Pál páfa. Allt kom fyrir ekki og Sands dó sem venjulegur glæpamaður, mest fyrir þrjózku Thatcher forsætisráðherra.
Að vísu nýtur járnfrúin stuðnings stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Eftir lát Sands sagði Michael Foot, formaður Verkamannaflokksins, að Bretar mundu aldrei samþykkja, að skæruliðar Íra fengju sömu meðferð og pólitískir fangar.
Ýmis sjónarmið geta verið gild í máli þessu. En upp úr stendur þó, að Bretar hafa gert sig seka um hrikaleg, söguleg mistök. Kaþólskir menn á Norður-Írlandi styðja nú eindregið samtök skæruliða, sem hafa boðað grimmilegar hefndir.
Miklir fjármunir streyma nú til skæruliða frá írskættuðu fólki í Bandaríkjunum, sem er bæði fjölmennt og valdamikið. Hinn írskættaði Reagan forseti segir kannski ekki margt, en þingið í New Jersey samþykkti stuðning við Sands.
Hinn gífurlegi viljastyrkur írska skæruliðans og brezka þingmannsins Bobby Sands hefur í bili espað andstæðumar og fjarlægt hugsanlegar lausnir. Þangað til menn byrja að reyna að skilja.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið