Tollstjórinn í Reykjavík hefur alla tíð verið á pólitísku framfæri Framsóknarflokksins í ýmsum embættum og hvergi gert garðinn frægan. Stofnun hans er full af silkihúfum, en virðist samt skorta mannskap til að halda uppi eðlilegum vörnum gegn innflutningi fíkniefna.
Tollstjórinn hefur ekki séð ástæðu til viðbragða, þótt fíkniefnasalar reyni að hræða tollverði til hlýðni með því að valda þeim miklu fjárhagslegu tjóni með skemmdarverkum á bílum þeirra og rúðubrotum á heimilum þeirra. Þetta gerist þó vegna starfs þeirra.
Fíkniefnasalar vita, að tollverðir eru á lágum launum og hafa ekki ráð á að amast við mönnum, sem valda þeim persónulegu fjárhagstjóni í skjóli nætur. Ef þeir hafa ekki stuðning frá silkihúfunum í Tollstöðinni, eru þeir varnarlitlir og hætta að finna fíkniefni.
Ofan á þetta hefur tollstjóri tekið upp þá ógeðfelldu stefnu að ógna tollvörðum með því að kalla þá á teppið fyrir að segja fjölmiðlum frá ólestrinum í vörnum gegn innflutningi fíkniefna. Næsta skref á eftir teppinu er skrifleg áminning og hið þriðja er brottrekstur.
Ekki er komið í ljós, hversu langt tollstjórinn mun ganga á þessari braut. Tollverðirnar hafa fengið sér lögmann til að gæta hagsmuna sinna gagnvart honum. Það segir raunar mikla sögu, að tollverðir í fíkniefnaleit telji sig þurfa lögfræðilega vernd gegn yfirmanni sínum.
Komið hefur í ljós, að töluvert af þeim fíkniefnum, sem eru í umferð hér á landi, berst til landsins í pósti. Samt er millilandapóstur afar lítið tollskoðaður frá þessu sjónarmiði. Það er til dæmis aðeins gert í dagvinnu, þótt póstur berist til landsins á öllum tímum sólarhringsins.
Nú síðast viðurkenndi maður fyrir fíkniefnalögreglunni að hafa látið senda sér kókaín í hraðpósti frá New York. Verðmæti sendingarinnar nam rúmlega einni milljón króna á götunni. Það er því ljóst, að fíkniefnasalar hafa ráð á að mýkja tollgæzluna í landinu.
Andvaraleysi og tvískinnungsháttur stjórnvalda gagnvart fíkniefnavandanum er alltaf að koma betur og betur í ljós. Lögreglumenn standa í vonlítilli baráttu um grömm og milligrömm á götunni á meðan lítið sem ekkert er gert til að sporna gegn innflutningnum sjálfum.
Starfsmenn tollgæzlunnar í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli telja, að fíkniefnasmyglarar hafi nánast frjálsar hendur í innflutningi. Starfsmönnum við fíkniefnaleit hefur farið fækkandi, en stofnanirnar notaðar til að sjá pólitískum kvígildum fyrir þægilegu lifibrauði.
Ekkert vit fæst í baráttuna gegn innflutningi fíkniefna fyrr en skipt hefur verið um tollstjóra í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Fá þarf til mannaforráða menn, sem ekki eru á pólitísku framfæri, og beina starfsorku embættanna í auknum mæli að fíkniefnaleit.
Þetta er ekki spurning um aukin heildarútgjöld hins opinbera, heldur tilfærslu á mannskap og skipti á mannskap. Með því að skipta um tollstjóra og fækka silkihúfum á skrifstofum þeirra verður hægt að fjölga starfandi fólki við varnir gegn innflutningi fíkniefna.
Stóru fíkniefnasendingarnar til landsins fara um hendur tollgæzlunnar, yfirleitt í Reykjavík eða á Keflavíkurflugvelli. Af því að sambandið við útlönd verður annað hvort að vera á sjó eða í lofti, á að vera hægt að hafa strangt eftirlit á hinum fáu innflutningspunktum.
En fyrst þarf að ryðja þeim frá, sem standa í vegi þess, að eyja í miðju Atlantshafi geti notið þeirra fíkniefnavarna, sem landfræðilegar kringumstæður leyfa.
Jónas Kristjánsson
DV