London göngur

Ferðir

Eftir fyrstu gönguferðina um búðir St James´s og Mayfair hverfa, er kominn tími til að segja frá tíu almennum skoðunarferðum um aðra markverða staði miðborgarinnar. Við förum frá austri til vesturs, byrjum austast í City og færum okkur síðan til Covent Garden og Soho, enn til St James´s og Mayfair og loks til Westminster.

Vegna stærðar borgarinnar og smæðar bókarinnar verður ekki lýst ferðum um önnur hverfi nálægt miðju og engum ferðum um úthverfin.

Við sleppum öllu fyrir sunnan á, þótt þar á bakkanum sé Þjóðleikhúsið. Við sleppum menntahverfinu Bloomsbury, þótt þar sé háskólinn og British Museum, sem áður hefur verið lýst. Við sleppum Marylebone, enda höfum við þegar lýst söfnunum þar.

Við sleppum jafnvel hverfunum sunnan garða, “vinstri bakkanum”, sem sumir kalla svo. Frá South Kensington höfum við þegar lýst söfnunum, frá Knightsbridge höfum við þegar lýst Harrods og verzlanahverfinu þar í kring, og frá Belgravia og Chelsea höfum við þegar lýst verzlanagötum og veitingahúsum, sem máli skipta.

Til hagræðingar hafa flestar gönguferðir okkar upphaf og endi við stöðvar neðanjarðarlestarinnar.

2. gönguferð:

London Wall

Þegar við komum upp úr Tower Hill neðanjarðarstöðinni (K2), skulum við fyrst virða fyrir okkur Tower of London, því að héðan er eitt bezta útsýnið til hans. Síðan förum við göng undir götuna að Tower. Á leiðinni eru leifar af London Wall, múrnum, sem Rómverjar létu reisa utan um borgina, þegar Boadicea Keltadrottning hafði rænt hana árið 61. Þá var Londinium, eins og Rómverjar kölluðu hana, ung borg, aðeins tveggja áratuga gömul.

Leifar rómverska múrsins sjást víðar umhverfis City og eru aðallega frá 2. öld. Sumar götur í City sýna enn í nöfnum sínum, hvar hlið voru á virkisveggnum: Ludgate, Newgate, Aldersgate, Moorgate, Bishopsgate og Aldgate. Múrinn var ekki fluttur til, þótt borgin stækkaði, heldur aukinn og endurbættur á sama stað á miðöldum. Mestallt núverandi City, nema Fleet Street svæðið, er innan þess ramma, sem gamli múrinn markaði.

Tower

Við höldum áfram meðfram síkinu, sem var þurrkað á síðustu öld og gert að grasvelli, og nálgumst innganginn í Tower of London, eitt helzta einkennistákn borgarinnar. Miðkastalinn, sem gnæfir hæst, er Hvítiturn, White Tower, elzti hluti kastalans, reistur af Vilhjálmi sigursæla (bastarði) árið 1077 og árin þar á eftir, í fyrstu fremur til viðvörunar borgarbúum en til ytri varna. Hann er einn elzti kastali slíkrar stærðar í Vestur-Evrópu, ágætt dæmi um ferköntuð turnvirki Normanna.

Þá voru Rómverjar horfnir á braut fyrir meira en sex öldum og litlar sögur höfðu farið af London á engilsaxneskum tíma. Borgin byrjaði fyrst að dafna sem miðstöð kaupsýslu eftir valdatöku Normanna.

Ríkharður ljónshjarta byrjaði á virkisveggjum umhverfis Hvítaturn seint á 12. öld. Undir lok 13. aldar var Tower í stórum dráttum búinn að fá á sig þá mynd, sem hann ber enn í dag.

Löngum var Tower konungssetur, allt fram á 17. öld, vopnageymsla og fjárhirzla. Enn eru krýningardjásnin geymd þar og höfð til sýnis. Þar er m.a. stærsti demantur heims, 530 karata Star of Africa úr Cullinan-steininum, og hinn sögufrægi, 109 carata Kohinoor-demantur. Fjársjóðanna og Tower í heild er gætt af hinum frægu Beefeaters í einkennisbúningi frá túdorskum tíma á 16. öld.

Í Tower voru hafðir í haldi frægir fjandmenn ríkisins, svo sem Anne Boleyn, María Stúart og síðastur manna Rudolf Hess á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Frá Middle Tower förum við yfir fyrrverandi síkið inn um hliðið á Byward Tower og erum þá komin inn á milli innri og ytri virkisveggja. Við förum framhjá Bell Tower, sem Jóhann landlausi reisti snemma á 13. öld, okkur á vinstri hönd, og göngum að Traitors Gate á hægri hönd. Þar í gegn var fyrrum hægt að flytja fanga á bátum inn í kastalann.

Hér fyrir innan er Bloody Tower, þar sem Ríkharður III er sagður hafa látið myrða ungu prinsana. Um turninn förum við inn í miðgarðinn, þar sem við sjáum brátt biðröðina að krýningardjásnunum. Hún hreyfist hratt, svo að ekkert er að óttast. En ráðlegt er að vera komin sem fyrst eftir kl. 9:30, þegar Tower er opnaður, til að forðast manngrúann.

Yfir miðgarðinum gnæfir Hvítiturn með 4-5 metra þykkum veggjum og turnum á hornum. Innan dyra er merkilegt vopnasafn á neðri hæðunum, en uppi á hinni þriðju er Kapella heilags Jóhannesar frá 1080, enn nokkurn veginn í upprunalegu horfi, eitt fegursta dæmið um snemm-normanska byggingarlist í Englandi.

Tower Bridge

Úr Tower förum við fram á bakka árinnar, þaðan sem hægt er að fá sér bátsferð inn til Westminster. Frá ánni er einmitt eitt bezta sjónarhornið að White Tower. En við beinum sjónum okkar að öðru einkennistákni borgarinnar, Tower Bridge.

Þetta er neðsta brúin yfir Thames, reist 1886-94 í gotneskri stælingu frá Viktoríutíma. Hún er vindubrú, sem getur furðu snöggt hleypt skipum í gegn. Af henni er ágætt útsýni yfir ána og herskipið Belfast, sem liggur við festar ofan við brúna og er til sýnis.

St Katharine´s Dock

Ef við göngum árbakkann undir brúna, komumst við framhjá Tower hóteli að St Katharine´s Dock, friðsælli lystisnekkjuhöfn. Hún var gerð árin 1827-28 og var þá ein aðalhöfnin í London, enda sú, sem næst var City.

Nú hefur verið safnað þar nokkrum gömlum skipum, þar á meðal Discovery, sem Scott fór á í suðurpólsferðina. Í gömlu vöruhúsi hefur verið innréttuð Dickens Tavern, þar sem gott er að sötra bjór að skoðunarferð lokinni, áður en skotizt er einstigi norðan hafnar upp til Tower Hill, þar sem þessi gönguferð hófst.

3. gönguferð:

City

Þegar við komum upp úr Bank neðanjarðarstöðinni (J/I2), erum við á frægu horni, þar sem mætast sjö af höfuðstrætunum í City. Hér getum við litið inn eftir Þráðnálarstræti, Threadneedle Street. Þar er Englandsbanki á vinstri hönd, Konunglega kauphöllin á hægri og Verðbréfamarkaðurinn í bakgrunni.

Þetta er hjarta bankahverfisins í þungamiðju kaupsýsluhverfisins, City.
Þráðnálarstræti minnir á markaðinn, sem hér var í gamla daga, eins og aðrar nálægar götur minna líka á: Cornhill, Poultry, Cheapside, Eastcheap og Bread Street. En fátt annað minnir hér á gamla tíma. Eftir eyðingu í seinni heimsstyrjöldinni var þessi hluti borgarinnar endurreistur í andstyggilegum bankastíl undanfarinna áratuga.

Og þó. Við skulum ganga um 100 metra eftir Cornhill og skjótast inn í annað eða þriðja sundið, sem liggur yfir til Lombard Street. Þarna finnum við völundarhús göngusunda, sem minna á gamla tíma. Þar eru til dæmis notalegir nágrannar, kráin George & Vulture og vínbarinn Jamaica Wine House. Hinn fyrri er sex alda gamall og hinn síðari er þriggja alda.

Ef við höldum áfram göngusundin milli Cornhill og Lombard Street og förum yfir Gracechurch Street, komum við að Leadenhall markaði, sem hefur verið rekinn frá rómverskum tíma. Þar er nú selt í smásölu kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir og ostur. Aðaláherzlan er á villibráð. Þar kaupa menn lynghænur og orra fyrir stórhátíðir.

Frá markaðnum förum við Gracechurch Street niður að Monument, sem er minnisvarði um brunann mikla árið 1666, þegar nánast allt City brann til kaldra kola. Einu sinni var útsýni frá toppi varðans, en það hafa háhýsi eftirstríðsáranna að mestu eyðilagt.

Næst liggur leiðin vestur yfir King William Street, inn Arthur Street og þaðan um göngusund vestur að Cannon Street neðanjarðarstöðinni (J2). Rétt við Arthur Street verður á vegi okkar vínbarinn Olde Wine Shades (bls. 44) í húsi, sem er frá 1663, þremur árum fyrir brunann mikla.

Á þessari hringleið um hjarta City hefðum við getað skoðað nokkrar af kirkjum þeim, sem arkitektinn Christopher Wren byggði árin eftir brunann. Sérstakir aðdáendur hans geta samtals fundið í City 29 kirkjur af teikniborði hans, en við látum okkur nægja eina, þá sem sagt verður frá í næstu gönguferð.

4. gönguferð:

St Paul´s

Frá St Paul´s neðanjarðarstöðinni (H1) fyrir aftan dómkirkjuna í City getum við gengið umhverfis höfuðkirkju hins borgaralega Bretlands til að komast inn í hana að framanverðu.

Christopher Wren reisti St Paul´s Cathedral á árunum eftir brunann mikla 1666. Þar höfðu áður staðið a.m.k. tvær kirkjur, hin fyrsta reist árið 604. Talið er, að miðaldakirkjan hafi verið enn stærri en kirkja Wrens, sem er þó ein af allra stærstu dómkirkjum heims.

St Paul´s hefur grunnlögun enskrar, gotneskrar kirkju, krosskirkja með mjög langan kór, en útfærð í endurreisnarstíl með rómönskum bogagöngum. Reiptog varð milli Wren, sem aðhylltist hlaðstíl, og byggingarnefndar, er taldi þá stílgerð kaþólska, og neyddi hann til að sveigja kirkjuna til fægistíls mótmælendatrúarmanna. Yfir miðmótum hennar gnæfir 30 metra breitt hvolf, æði hlaðrænt að formi, eins konar eftirmynd Péturskirkju í Róm. Auk þess fékk Wren því framgengt, að vesturturnarnir tveir voru í hlaðstíl.

Við göngum aðalskipið inn á miðmótin undir hvolfinu, björtu og víðu. Því er haldið uppi af átta öflugum hringbogum. Utan við hvolfið, sem við sjáum neðan frá, er múrhleðsla, er heldur uppi luktaranum efst, og svo blýkápan, sem sést að utanverðu eins og luktarinn.

Á mótum aðalskips og syðra þverskips er hringstigi upp á svalir, hinar hljóðbæru Whispering Gallery, með útsýni niður í kirkjuna, og Stone Gallery, með útsýni yfir borgina. Hinir loftdjörfu geta haldið áfram upp í Golden Gallery við grunn luktarans ofan á hvolfinu og fengið þaðan stórbrotið útsýni í góðu skyggni.

Kraftaverki er líkast, að St Paul´s skyldi standast loftárásir síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar allt hverfið í kring brann til grunna og kirkjan ein stóð upp úr eldhafinu.

5. gönguferð:

Gray´s Inn

Gönguferðina um hulin port og yfirskyggða garða lögmannastéttar borgarinnar hefjum við hjá Chancery Lane neðanjarðarstöðinni (G1). Frá götunni High Holborn göngum við eitt af þremur sundum, nr. 21 eða Fulwood Place eða Warwick Court, inn í völundarhús sunda, porta, stílhreinna húsa og fagurra garða, indæla vin í skjóli fyrir skarkala borgarinnar.

Hér eru skrifstofur lögfræðinganna í Gray´s Inn, einu af fjórum lögmannafélögum borgarinnar, Inns of Court, stofnað á 14. öld. Elztu húsin eru frá 17. öld, en garðarnir nokkru yngri, teiknaðir af Sir Francis Bacon. Gray´s Inn er opið almenningi 8-19.

Staple Inn

Við förum eitt sundið aftur út á High Holborn. Andspænis, nokkru austar við götuna, sjáum við Staple inn, tvö timburhús, fjögurra alda gömul, frá 1586-96. Þessi framhlið er eina dæmið í borginni um, hvernig fínu göturnar litu út á dögum Elísabeter I. Taktu eftir bindingsverki bita og gafla og alls konar útskotum. Í miðjunni veita bogagöng aðgang að portunum að baki.

Lincoln´s Inn

Rétt vestar mætir Chancery Lane aðalgötunni High Holborn. Þar beygjum við til vinstri suður meðfram austurhlið Lincoln´s Inn. Við förum framhjá Stone Buildings Gate, því að við ætlum inn um Gatehouse með upprunalegum eikarhliðum frá 1518, hátt í fimm alda gömlum.

Hliðhúsið úr tígulsteini er með ferningslaga hornturnum, opið 8-19. Að baki er Old Square með gömlum húsum frá Túdor-tíma, öll úr rauðum tígulsteini, endurgerð 1609. The Old Hall er frá 1490. Kapellan við norðurhlið torgsins er frá 1619-23.

Við förum áfram til vesturs inn í sjálfa garðana, aðlaðandi og friðsæla, umlukta gamalli og gróinni byggingarlist frá því áður en góður smekkur komst úr tízku. Úr görðunum göngum við til suðurs um New Square og hlið frá 1697 út í Carey Street, þar sem við erum að baki hallar Borgardóms í London.

Temple

Kringum Borgardóm, Royal Courts of Justice, göngum við að austanverðu niður á Fleet Street, þar sem blasir við okkur portið inn í Middle Temple, enn eitt lögmannaþorpið á gönguferð okkar. Hliðhúsið úr rauðum tígulsteini frá 1684 er eftir hinn margumrædda Wren. Þar að baki eru ótal göngusund, port og torg, ekki eins græn og gróin og í hinum Inns of Court, sem við erum búin að fara um.

Sérstaklega er gaman að Middle Temple Hall frá 1562-70, einkum þakbitunum og eikarskilrúmunum. Salurinn er lokaður 12-15. Sagt er, að Shakespeare hafi sjálfur leikið hér í Jónsmessunæturdraumi 1602.

Til austurs liggur mjótt sund að Inner Temple, hins síðasta af lögfræðingafélögunum á göngu okkar. Þar er merkust Musteriskirkjan, hringlaga að hætti Kirkju hinnar heilögu grafar í Jerúsalem. Hún var reist 1160-85 og er eitt elzta gotneska mannvirki Bretlandseyja, opin 9:30-16.

Kirkjan var miðja mikils klausturs, sem regla Musterisriddara kom á fót um 1160. Reglan var leyst upp á 14. öld og þá eignuðust lögmenn húsakynnin og eiga enn.

Við göngum um Inner Temple Gateway gegnum hliðhús úr bindingsverki frá 1610 og endurreist 1906 í gamla Túdor-stílnum.

Fleet Street

Hér erum við í Fleet Street, vestasta hluta City, hinni miklu götu fjölmiðlunar fyrri áratuga. Nú eru margir fjölmiðlarnir fluttir. Rétt við Middle Temple Gateway er Temple Bar, er drottningin má ekki aka hjá, nema með sérstöku leyfi borgarstjórans í City, sem er kosinn af gildum handverks- og kaupsýslumanna.

Ef við göngum Fleet street til austurs, framhjá Inner Temple Gateway, verður fljótt á vegi okkar el Vino (bls. 45), vel þeginn vínbar eftir langa göngu um hulin port og yfirskyggða garða.

Frá norðurhlið götunnar liggja fjölmörg smásund, meðal annars til dr. Johnson´s House frá um 1700. Sömu megin götunnar er Cheshire Cheese (bls. 50), gömul krá frá 1667. Hér taka við blaðhúsin og fréttastofurnar niður að Ludgate Circus, þar sem St Paul´s blasir við á hæðinni fyrir ofan.

Hér undir brautarteinunum er vínbarinn Mother Bunch´s (bls. 45). Ef við göngum vestur New Bridge Street að Blackfriars neðanjarðarstöðinni, er andspænis stöðinni kráin Black Friar (bls. 50) (H2).

6. gönguferð:

Covent Garden

Skemmtilegsta hverfið í London er leikhúsahverfið Covent Garden. Við förum létt með að skoða það, þar sem við sitjum að mestu um kyrrt á sjálfum markaðnum (F2), svo sem lýst var fyrr hér í bókinni (bls. 47).

Austur frá markaðnum liggur Russell Street, þar sem mannþröngin á vínbörunum nær út á götu. Örlitlu austar við götuna er Konunglega leikhúsið. Við fyrstu þvergötu til norðurs er Konunglega óperan og Blómahöllin, sérkennilegt dæmi um byggingarlist undir áhrifum frá Crystal Palace, úr járni og gleri.

Auk King Street norðan markaðar, Henriette Street sunnan markaðar og Russel Street austan markaðar, er skemmtilegast að ganga Tavistock Street, sem liggur sunnan við Henrietta Street, og New Row í framhaldi af King Street. Í þessum götum er kaffihúsalífið og göturápið skemmtilegast í borginni.

Syðst í hverfinu er leikhúsgatan Strand, sem liggur milli Fleet Street og Trafalgar Square. Vestast er önnur leikhúsgata, St Martin´s Lane, milli Trafalgar Square og Long Acre. Norðarlega í hverfinu er Neal´s Yard og Neal Street með heilsufæði- og handíðabúðum.

Segja má, að Covent Garden sé hverfi hins náttúrulega skemmtanalífs, meðan Soho var um tíma hverfi hins ónátturulega, þótt veitingahúsin góðu hafi jafnan haldið þar velli og hverfið sé aftur á uppleið. Sem betur fer er Covent Garden í uppgangi um þessar mundir. Skemmtilegar smáverzlanir, kaffihús og vínbarir eru sífellt að bætast við.

Trafalgar Square

Við endum óskipulega göngu um Covent Garden með því að ganga suðvestur Strand, framhjá Charing Cross brautarstöðinni að Trafalgar Square (E2), hinnar eiginlegu miðju borgarinnar. Þar við mynni götunnar Whitehall er riddarastytta af Karli I, þaðan sem allar fjarlægðir og vegalengdir á Bretlandi eru reiknaðar.

Á miðju torgi gnæfir Nelson flotaforingi á 52 metra hárri granítsúlu, umkringdur fjórum ljónum og þúsundum lifandi dúfna, sem eru mikið eftirlæti barna, er heimsækja borgina. Ofan við torgið er lág og lítilfjörleg framhlið National Gallery (bls. 58).

Til hliðar er hin fagra kirkja, St-Martin-in-the-Fields, reist 1722-26 í léttum, gnæfrænum stíl, sem minnir á rómverskt musteri með óviðkomandi turni og spíru. Að innan er hún með víðari og bjartari kirkjum. Hún er nú orðin að félagsmálamiðstöð og skjóli utangarðsfólks.

7. gönguferð:

Soho

Frá Trafalgar Square (E2) er stutt að ganga vestan við National Gallery framhjá Royal Trafalgar (bls. 9) og Pastoria (bls. 20) hótelum upp að Leicester Square, þungamiðju bíóhverfisins í Soho. Þar er rólegur garður með þægilegum bekkjum til að hvíla lúin bein.

Rétt fyrir vestan torgið er Piccadilly Circus, forljótt torg með æpandi ljósaskiltum. Á því miðju er eitt af einkennistáknum borgarinnar, styttan af Eros, alþjóðlegur mótsstaður ungmenna á faraldsfæti, margra gersamlega út úr heiminum.

Frá Piccadilly Circus göngum við til baka rúmlega hálfa leið til Leicester Square og beygjum til norðurs Wardour Street, sem liggur þvert um kínverska hverfið. Þar er Chuen Cheng Ku, kjörinn hádegisverðarstaður (bls. 33).

Við förum yfir Shaftesbury Avenue, eina af miklu leikhúsgötunum, göngum nokkur skref til vesturs og síðan norður Rupert Street og í framhaldi af því Berwick Street. Í þeim tveimur götum er ágætur og skemmtilegur útimarkaður grænmetis, ávaxta og blóma. Hann hefur verið hér síðan 1778.

Frá norðurenda markaðsins þræðum við hliðargötur um friðsælan Soho Square til Charing Cross Road, þar sem Foyle (bls. 72) og hinar bókabúðirnar eru. Skemmtilegust er hliðargatan Cecil Court til austurs, þar sem eru mætar fornbókaverzlanir.

Ef við göngum suður allan Charing Cross Road, endum við á upphafspunktinum, Trafalgar Square. Nálægt leiðarlokum er gott að hvíla sig á kránni Salisbury (bls. 51). En hafa má til marks um hnignun Soho að meira að segja á þessari fögru krá er búið að setja upp eitt leiktæki.

Kynlífsiðnaðurinn og skríllinn hertóku smám saman Soho, nema veitingahúsin, og hröktu ánægjuna yfir í Covent Garden. Meira að segja krárnar 60-70, sem margar eru frá fyrri hluta 18. aldar, urðu flestar hverjar ekki nema svipur hjá fyrri sjón. Þetta er nú byrjað að lagast aftur.

8. gönguferð:

Pall Mall

Aðalgatan í St James´s hverfinu er Pall Mall, þar sem við hófum gönguferð nr. 1 um skemmtilegustu búðir miðborgarinnar. Í þetta sinn ætlum við hins vegar að kynnast öðrum þáttum andrúmsloftsins í St James´s, hverfi hinna fínu karlaklúbba.

Við förum enn frá Trafalgar Square (E2), í þetta sinn til suðvesturs eftir Pall Mall. Hérna megin við horn Regent Street er fyrsti klúbburinn sunnan götunnar, Institute of Directors. Síðan koma Travellers Club á nr. 106 og Reform á nr. 104, þaðan sem Phileas Fogg átti að hafa farið kringum jörðina á áttatíu dögum. Stóra höllin er Royal Automobile Club. Síðan kemur Oxford & Cambridge Club á nr. 71. Norðan götunnar er Army & Navy andspænis RAC.

St James´s Palace

Við enda götunnar komum við að St James´s Palace, hinni raunverulegu konungshöll Bretaveldis, þar sem drottningin tekur á móti erlendum sendiherrum. Þaðan kemur nafnið, að vera við hirð St James´s. Buckingham Palace er bara konungsbústaður, ekki konungshöll.

Í þessari lágreistu og sérkennilegu höll frá Túdor-tíma, reistri árið 1532, bjuggu konungar Bretlands frá 1698, þegar Whitehall-höll brann, til 1837, er Buckingham-höll tók við. Frá svölunum á hliðhúsinu úr rauðum tígulsteini með áttstrendum turnum tilkynnir kallari valdatöku nýrra konunga.

Í St James´s Palace búa nú ýmsir hirðmenn. Áfast höllinni til vesturs er Clarence House, heimili drottningarmóður. Til hliðar og aftan við St James´s Palace eru tvær hallir, Marlborough House til austurs og Lancaster House til vesturs.

St James´s Street

Klúbbarnir eru áfram í röðum við St James´s Street, sem liggur til norðvesturs frá höllinni. Við hlið Berry Brothers vínbúðarinnar (bls. 64) er mjótt sund inn í Pickering Place. Handan götunnar, aðeins ofar, er Carlton, mesti íhaldsklúbburinn. Nokkrum skrefum ofar er mjó gata, sem liggur að hótelunum Dukes og Stafford (bls. 14). Enn ofar, hvor sínum megin götunnar, eru klúbbarnir Brook´s á nr. 61 og Boodle´s á nr. 28. Loks uppi undir Piccadilly gatnamótum er klúbburinn White´s.

Við eigum bara eftir að rölta meðfram Ritz-hóteli við Piccadilly vestur að Green Park neðanjarðarstöðinni (D3) til að ljúka stuttri gönguferð um fínasta, brezkasta og rólegasta hverfi miðborgarinnar.

9. gönguferð:

Mayfair

Við erum þegar búin að skoða austurhluta Mayfair í fyrstu gönguferðinni, milli frægustu verzlana miðborgarinnar, svo að í þetta sinn getum við látið nægja vesturhliðina og suðurhornið. Þetta er hverfi auðs og glæsibrags með þremur virðulegum gróðurtorgum, Grosvenor Square, Berkeley Square og Hanover Square, sem við sleppum í þessari gönguferð.

Frá Green Park stöðinni (D3) við enda 8. gönguferðar göngum við Piccadilly til suðvesturs yfir Half Moon Street og beygjum næstu smágötu. Þar komum við fljótt að Shepherd Market, þar sem svokölluð Mayfair-hátíð var haldin allt frá 17. öld. Þar er nú 19. aldar smáþorp götusunda með hvítum smáhúsum, gömlum verzlunum og veitingastofum, svo og útikaffihúsum, enn ein af mörgum vinjum í nútímaborginni.

Síðan förum við til vesturs út að Park Lane, sem afmarkar Mayfair og Hyde Park. Þar göngum við framhjá frægum lúxushótelum: Hilton, Dorchester og Grosvenor House, alla leið norður til Marble Arch, sem upphaflega var hlið Buckingham-hallar, en síðan flutt vegna þrengsla. Hér skemmtu menn sér í gamla daga við að horfa á opinberar hengingar, teygingar og sundurlimanir.

Hyde Park

Frá Marble Arch förum við undir götuna yfir í Speakers´ Corner í horni Hyde Park. Hér var árið 1872 komið á málfrelsi, þar sem menn gátu flutt ræður um hvaðeina, án þess að vera stungið inn. Um langt skeið töluðu hér einkum trúarofstækismenn og aðrir sérvitringar, en síðustu árin hefur aftur fjölgað alvöruræðum, einkum flóttamanna frá löndum, þar sem málfrelsi er heft. Mest er um að vera á sunnudögum.

Hyde Park er stærsta opna svæðið í London, ef vesturhlutinn, Kensington Gardens, er talinn með. Þetta eru 158 hektarar graslendis, voldugra trjáa, ljúfra blómabeða og vatnsins Serpentine, sem búið var til árið 1730.

Hér er gott að slaka á í sveitasælu, hanga á útikaffihúsi eða fara í bátsferð. Í andstæðu við svonefnda franska garða, sem eru formfastir og þrautskipulagðir, er Hyde Park enskur garður, óformlegur og losaralegur, með frjálsum gróðri.

Upprunalega girti Hinrik 8. garðinn og gerði að veiðilendu sinni. En fyrir hálfri fjórðu öld var hann gerður að almenningsgarði.

Í suðausturhorni garðsins, milli beljandi umferðaræða, eru litlir gróðurreitir milli Hyde Park og Green Park. Þar standa m.a. Wellington sigurboginn og Aspey House, sem einu sinni hafði hið fína heimilisfang: London nr. 1. Þar bjó Wellington hershöfðingi, er sigraði Napóleon við Waterloo. Milli eyjanna og frá þeim liggja göng undir umferðaræðarnar á alla vegu. Við ljúkum hér þessari gönguferð, í næsta nágrenni Hyde Park Corner neðanjarðarstöðvarinnar (C3).

10. gönguferð:

Horse Guards

Við komum okkur fyrir á suðurhorninu, þar sem skrúðgöngugatan The Mall mætir torginu með minnisvarða Viktoríu drottningar fyrir framan Buckingham Palace (D3). Klukkan er 10:45 á virkum degi, — og virkum degi með jafnri tölu mánaðardags, ef vetur er. Hér er bezt að vera til að fylgjast með öllu, miklu frekar en í manngrúanum við hallargirðinguna.

Við notum tímann til að líta í kringum okkur. Til norðvesturs er Green Park. The Mall er til norðausturs. St James´s Park er til austurs. Og Buckingham Palace er að baki minnismerkisins til vesturs. Þar blaktir drottningarfáninn við hún, þegar hún er heima. The Mall er hin hefðbundna skrúð- og sigurgönguleið frá Trafalgar Square til Buckingham Palace, vörðuð glæsilegum trjám og görðum á báða bóga.

Rétt fyrir 11 koma Horse Guards um torgið norðanvert frá Knightsbridge yfir á The Mall. Horse Guards er konunglega riddaraliðssveitin í glæsilegum búningum. Hún ríður hér daglega framhjá á leið sinni að Horse Guards Parade torginu við hinn enda St James´s Park.

Buckingham Palace

Eftir þessa skrautsýningu virðum við fyrir okkur Buckingham Palace, sem er 19. og 20. aldar stæling á fyrri tíma stíl og hefur verið konungsheimili, síðan Viktoría drottning flutti þangað 1837. Höllin er klædd Portland-steini og er í stíl við minnismerkið og The Mall.

Við höllina eru varðmannaskipti 11:30 alla daga á sumrin og annan hvern dag á veturna. Nokkru fyrir þann tíma koma viðtakandi varðmenn frá Wellington Barracks við Birdcage Walk og við færum okkur til suðurs á stéttinni til að sjá þá betur. Þeir ganga á formlegan hátt, en þó ekki með gæsagangi, undir hljómmiklum mörsum.

St James´s Park

Að skrautsýningunni lokinni getum við beðið eftir, að fráfarandi riddaraliðsmenn og hallarverðir komi sömu leiðir til baka, er hinir viðtakandi fóru. Ella getum við gengið um St James´s Park, sem Hinrik 8. lét gera árið 1536. Í austurenda vatnsins í garðinum er Duck Island, þar sem pelikanar, svanir, endur og aðrir fuglar eiga hreiður sín. Frá brúnni yfir vatnið (E3) er ágætt útsýni, bæði til vesturs að Buckingham Palace og austur að Whitehall, þar sem við verðum í elleftu og síðustu gönguferðinni.

11. gönguferð:

Whitehall

Í þetta sinn förum við sem oftar frá borgarmiðju á Trafalgar Square (E2), en nú til suðurs eftir Whitehall, stjórnarráðsgötu borgarinnar. Nafn götunnar er orðið svo frægt, að það hefur færzt yfir á embættismannakerfi Bretaveldis. Upphaflega hét gatan eftir fornri konungshöll, Whitehall. Sú höll var fyrst erkibiskupsins af Jórvík, en Hinrik 8. tók hana af Wolsey kardínála árið 1530 og gerði að sinni eigin. Hún var konungshöll til 1698, er hún brann og St James´s Palace tók við.

Banqueting House

Merkasta hús götunnar er Banqueting House, handan Horseguards Avenue, sem er andspænis Horse Guards. Hús þetta er hið eina, sem eftir er af Whitehall, reist 1619-22 af hinum fræga arkitekt Inigo Jones. Það er eitt fegursta hús borgarinnar, í palladískum endurreisnarstíl, allt teiknað í nákvæmu mælirænu hlutfallaformi, breiddin helmingur lengdarinnar.

Framhliðin er gnæfræn og virðist tveggja hæða, með jónískum veggsúlum að neðan og rómverskum að ofan. Að innan er húsið hins vegar aðeins einn salur, með risastórum hlaðstíls-málverkum eftir Rubens.

Banqueting House var móttökusalur hinnar fornu hallar og um leið miðpunktur hennar. Nú er húsið orðið ósköp einmana innan um voldugar stjórnarráðsbyggingar síðari tíma.

Við höldum áfram suður Whitehall, framhjá lokaðri götu, Downing Street, götu forsætisráðherra og fjármálaráðherra ríkisins. Aðeins sunnar, á miðri Whitehall, er Cenotaph, minnisvarði um fallna brezka hermenn í heimsstyrjöldinni fyrri. Við komum senn að Parliament Square, þar sem voldug myndastytta af Churchill trónir á horninu næst okkur.

Westminster

Hér erum við komin í hjarta Westminster, hins gamla konungsbæjar, sem löngum var andstæða kaupmannabæjarins City. Konungarnir vildu vera í hæfilegri fjarlægð frá uppreisnargjörnum og illa útreiknanlegum rumpulýð borgarinnar. En London nútímans hefur einmitt orðið til við samruna City og Westminster í eina stórborg. Nú er Westminster hverfi stjórnmálamanna og embættismanna, arftaka konungsvaldsins.

Á Parliament Square eru styttur fleiri kunnra stjórnmálamanna en Churchill eins. Þar er t.d. Disraeli, Palmerston og meira að segja Abraham Lincoln.
Við blasir Westminster Palace, venjulega kölluð Houses of Parliament, enda byggð sem þinghús Bretaveldis, ákaflega víðáttumikil, reist 1840-65 í nýgotneskum stíl.

Westminster Hall

Hér var fyrst reist konungshöll um árið 1000, hin fyrsta í London. Fremst við torgið eru leifar konungshallarinnar, Westminster Hall, upphaflega reist af syni Vilhjálms bastarðs, Vilhjálmi Rufus, árin 1097-99.

Westminster Hall er merkasta hús veraldlegs eðlis frá gotneskum tíma í Englandi. Á sínum tíma var þetta stærsti salur Evrópu. Árin 1397-99 fékk hann þá mynd, sem hann hefur enn í dag. Frægastar eru bálkasperrurnar í þaki, ensk uppfinning, sem gerði kleift að brúa víðara haf með timburþaki en áður hafði þekkzt. Undir þessum bitum voru á miðöldum haldnar konunglegar veizlur, en síðan sat þar ríkisréttur með mörgum frægum réttarhöldum. Þar var Karl I dæmdur til dauða.

Westminster Palace

Þinghúsið mikla er sambyggt hinu gamla Westminster Hall og stendur á bak við það frá götunni séð. Næst og vinstra megin við Westminster Hall er grannur og frægur Clock Tower með klukkunni Big Ben. Hinum megin, við suðurenda hallarinnar, er hinn breiðari og stærri Victoria Tower.

Því miður er ekki auðvelt að njóta hallarinnar sem heildar úr þessari átt nú um stundir, því að fram fer viðamikil hreinsun á henni. Kaflinn frá Westminster Hall að Victoria Tower hefur þegar verið hreinsaður og sýnir vel hina mildu og ljósu liti, sem höllin bar í upphafi, gullinn og ljósbrúnan kalkstein.

Bezta útsýnið til hallarinnar er af brúnum yfir Thames, Westminster og Lambeth Bridge, og af bakkanum handan árinnar. Frá þeim stöðum séð rennur höllin saman í skipulega heild, þar sem formfasta hliðin, sem snýr að ánni, er mest áberandi.

Handan við Abingdon Street, götuna framan við höllina, er Jewel Tower, annað miðaldaminni, fyrrum fjárhirzla konungs.

Westminster Abbey

Sömu megin götunnar snýr Westminster Abbey afturhluta að Westminster Palace. Þetta er krýningar-, giftingar- og greftrunarkirkja brezkra konunga og minningarstaður um þjóðhetjur ríkisins. Meðan St Paul´s er höfuðkirkja borgarinnar, er Westminster Abbey höfuðkirkja ríkisins.

Að stofni er kirkjan hluti Benediktínaklausturs. Smíðin hófst árið 960 og var síðan haldið áfram eftir 1055, upphaflega í normönskum stíl, en eftir 1220 meira í gotneskum stíl. Hún er franskrar ættar, hærri og mjórri en enskar kirkjur. Aðalskipið er 31 metri á hæð, hið hæsta í Englandi.

Vesturturnarnir eru yngstir, í gotneskri stælingu frá upphafi 18. aldar.
Kirkjan hefur verið hreinsuð að utan, svo að mildir litir hleðslusteinsins koma vel í ljós. Þar sem við stöndum að kirkjubaki sjáum við vel turna og svifsteigur frá tíma Hinriks 7.

Við göngum svo meðfram kirkjunni að norðanverðu, þaðan sem hún er fegurst að sjá. Þar er mest áberandi stór rósagluggi með stílfögrum svifsteigum í kring. Áður en við förum inn í kirkjuna, bregðum við okkur inn í friðsælan Dean´s Yard til að sjá kirkjuna að sunnanverðu.

Inn í kirkjuna förum við að vestanverðu, þar sem útsýnið er stórfenglegt inn eftir aðalskipinu. Andspænis innganginum er minnismerki um Winston Churchill og að baki þess leiði óþekkta hermannsins.

Bæði þverskipin eru hlaðin minnismerkjum. Innar í kirkjuna komumst við um hlið í norðurskipi. Eftir að hafa skoðað nyrðra þverskipið förum við ferilganginn til kapellu Hinriks 7. í ríkulega skreyttum, gotneskum stíl í austurenda kirkjunnar. Þar eru yfir 100 styttur.

Frá kapellunni förum við á brú til baka yfir að helgidómi Játvarðs I. Þar er krýningarhásætið frá 1300, þar sem nær allir enskir konungar frá Vilhjálmi bastarði hafa verið krýndir. Undir hásætinu er Scone-steinninn, krýningarsteinn skozkra konunga allt frá 9. öld, þar á meðal hins sögufræga Macbeths.

Héðan liggur leiðin yfir í syðra þverskipið, þar sem eru minnisvarðar margra fremstu rithöfunda á enskri tungu. Þar eru líka dyr til klausturs, sem gengið er um til að komast í Chapter House, sammiðja, átthyrndan sal, sem reistur var árið 1250 og notaður á miðöldum fyrir fundi enska þingsins.

Útrásir

Miðborgin í London er nægur heimur út af fyrir sig í augum ferðamanns, sem er þar aðeins eina eða tvær vikur. Ef meiri tími er til umráða, getur verið gaman að skreppa úr miðborginni, til dæmis með bát eða bílaleigubíl.

Greenwich

Niður með ánni er Greenwich, ekki aðeins frægt fyrir breiddargráðuna núll. Þar er líka skógi vaxinn garður umhverfis stjörnuskoðunarstöðina, brezka siglingasafnið, opið 10-17, sunnudaga 14-17, svo og hið hraðskreiða seglskip Cutty Sark, þar fyrir utan. Bátsferðin til Greenwich tekur 45 mínútur.

Kew

Upp með ánni eru Kew-garðar eða bótanísku garðarnir, opnir 10-16/17. Þeir eru fagrir, meira en 120 hektarar að flatarmáli og hafa að geyma yfir 25.000 mismunandi plöntutegundir. Bátsferðin til Kew tekur 75 mínútur.

Hampton Court

Enn ofar er hin fagra Hampton Court, höll Wolsey kardínála, er Hinrik 8. tók eignarnámi, ásamt ógrynni málverka og minjagripa, sem nú eru til sýnis, svo og einhverjum fegurstu görðum í heimi.

Windsor

Rétt handan við Heathrow-flugvöll er smábærinn Windsor með Windsor-kastala, sveitasetri drottningar. Hann er opinn mánudaga-laugardaga 10:30-17 og sunnudaga 13:30-17.

Windsor er elzti og stærsti íbúðarkastali í heimi, upphaflega reistur af Vilhjálmi bastarði sem hringlaga virki, en síðan öldum saman aukinn og stækkaður. Frægust er Georgskirkja, eitt bezta dæmið um enska byggingarlist 15. aldar. Í kastalanum eru nokkur söfn til sýnis, svo sem brúðusafn Maríu drottningar og hinar konunglegu vistarverur, þegar drottningin er ekki að nota þær.

Ef börn eru með í förinni, er rétt að tengja heimsóknina við ferð í Windsor Safari Park, sem er opinn villidýragarður í Windsor Great Park. Þar er hægt að skoða, sumpart út um lokaða bílglugga, ljón, tígrisdýr, fíla, zebradýr, nashyrninga, úlfalda, gíraffa, apa og dádýr, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Þar má einnig sjá hnísur og höfrunga leika listir sínar.

Í bakaleiðinni er sniðugt að koma við í tívolí-skemmtigarðinum Thorpe Park í Staines, rétt fyrir sunnan Heathrow-flugvöll.

Góða ferð!

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson