Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kemur ekki á óvart. Búið var að forhanna hana nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Þá var komið í ljós, að mál þessara tveggja flokka lágu saman í flestum atriðum, en ágreiningur hafði magnazt milli stjórnarflokkanna.
Kosningabaráttan staðfesti þetta. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn buðu kjósendum sömu afstöðuna, þegar búið var að skafa hefðbundið orðskrúð af yfirlýsingum þeirra. Þeir vildu óbreytt ástand í flestum þeim atriðum, sem valdið hafa ágreiningi í landinu.
Þessir flokkar vilja ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þeir vilja ekki minnka sjálfvirka peningabrennslu í landbúnaði. Þeir vilja halda nokkurn veginn óbreyttu kvótakerfi í sjávarútvegi. Þeir hafa lítinn áhuga á frekari jöfnun atkvæðisréttar milli kjósenda.
Síðast en ekki sízt standa þeir vörð um velferðarkerfi sérhagsmuna, sem þeir hafa byggt upp í svonefndum helmingaskiptastjórnum, er þeir hafa nokkrum sinnum myndað. Þetta eru einkum sérhagsmunir stórfyrirtækja, arftaka Sambandsins og byggðastefnufyrirtækja.
Þegar talið hafði verið upp úr kössunum, var komið í ljós, að kjósendur voru sáttir við þessa tilhögun. Eini hemillinn á framkvæmd málsins var, að meirihluti fráfarandi stjórnar hékk enn á einu atkvæði. Þá kom Guðmundur Árni til hjálpar og stimplaði sig ótryggan.
Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað haldið uppi lengri málamyndaviðræðum við Alþýðuflokkinn og Framsóknarflokkurinn hefði getað hafið raunverulegar stjórnarmyndunarviðræður litlu flokkanna fimm. Það hefði verið nær hefðbundnum vinnubrögðum í stjórnarmyndun.
Oft hefur verið talið nauðsynlegt að draga málamyndaviðræður á langinn til að vekja athygli stuðningsmanna á erfiðleikum við myndun stjórnar, sem forustumennirnir vilja ekki, og sætta fólk við þá stjórnarmyndun, sem alltaf lá á borðinu, að væri eðlilegasti kosturinn.
Þessi yfirborðsdans tók skamman tíma að þessu sinni. Það sýnir vel, að forustumenn stóru flokkanna tveggja töldu sig ekki þurfa miklar afsakanir til að mynda enn eina helmingaskiptastjórn. Enda geta allir séð, sem sjá vilja, að málefni flokkanna tveggja falla saman.
Að vísu snúast stjórnmál ekki nema að litlum hluta um málefni, kannski 10%. Þau snúast meira um persónur, kannski 30%, og mest um ráðherrastóla, kannski 60%. Málefnin koma í myndina sem takmarkandi þáttur. Þau geta tafið fyrir, að persónur komist í stóla.
Málefnin tefja ekki samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Blágræn bók var samin á einni kvöldstund. En stærri málin voru líka að mestu auðleyst, bæði skipting ráðuneyta og val ráðherra. Það hefði bara verið að drepa tímann að draga það fram yfir helgi.
Kjósendur geta ekki í neinni alvöru haldið fram, að þetta stjórnarmynztur komi aftan að þeim. Til dæmis hefur mynztrið verið boðað í leiðurum DV allt frá því í janúar. Það lá þá í augum uppi, bæði vegna formannaskipta í Framsóknarflokki og vegna málefnasamstöðu.
Sjálfstæðisflokkurinn færði sig inn á Framsóknarlínuna í stjórnmálum á síðasta kjörtímabili. Í ríkisstjórn rak flokkurinn kvótastefnu Framsóknar, búvörustefnu Framsóknar, Evrópustefnu Framsóknar, atkvæðastefnu Framsóknar og sérhagsmunastefnu Framsóknar.
Þetta var hægt, af því að forusta Sjálfstæðisflokksins hefur uppgötvað, að það eru fleiri framsóknarstefnumenn í Sjálfstæðisflokknum en í Framsóknarflokknum.
Jónas Kristjánsson
DV