Frá Stakkhamri að Görðum á Snæfellsnesi.
Þetta er vesturendinn á Löngufjörum, fjölfarinni þjóðleið frá fornu fari. Ekki lengur leirur eins og vestan Stakkhamars, heldur gullin fjara úr skeljasandi. Víða eru sker utan fjörunnar eða í fjörunni, sem ýmist er farið ofan við eða neðan við eftir sjávarföllum. Fjaran nær frá Stakkhamri að Staðará. Hér eru eyðibýlin Melur og Krossar. Hjá þeim síðari fórst Galdra-Loftur. Hann fékk bát hjá bóndanum á Krossum, reri út á sjó og þar kom upp grá og loðin hönd, sem dró bátinn niður. Norskur sumarbúseti á Krossum amast stundum við ferð hestamanna um fjöruna, vill heldur að þeir fari upp fyrir bæjarhús og tún, svo að hrossin spori ekki fjöruna. Engir jeppar eiga að geta verið hér á ferð fyrr en komið er yfir Staðará.
Förum frá Stakkhamri vestur dráttarvélaslóð um fjöruna, fyrir sunnan Sauratjörn, vestur um eyðibýlið Melkot, gegnum hlið og fljótlega síðan niður í fjöruna og fylgjum henni vestur, neðan garðs í Krossum. Síðan landmegin við Löngusker og áfram fjöruna vestur að Staðará, förum þar yfir um 200 metra frá ósnum. Síðan meðfram girðingu upp að þjóðvegi 54. Fylgjum honum sunnan Langavatns að Görðum.
21,2 km
Snæfellsnes-Dalir
Erfitt fyrir göngufólk
Nálægir ferlar: Straumfjarðará, Skógarnesfjörur, Búðaós, Klettsgata.
Nálægar leiðir: Bláfeldarskarð.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson