Lónið

Veitingar

Stéttaskipting Lónsins á Loftleiðum felst í, að íslenzkt kaupsýslufólk flykkist í vont hlaðborð fyrir 1395 krónur í hádeginu og á kvöldin tínast inn nokkrir hótelgestir, sem ekki þora í bæinn, og fá sér af góðu hlaðborði fyrir 2300 krónur. Þetta var sama hlaðborðið, vel vaktað og áfyllt um kvöldið, en látið eiga sig og verða ólystugt í hádeginu.

Uppbökuð og seigfljótandi spergilsúpa að séríslenzkum forneskjuhætti var súpa dagsins í öll fjögur skiptin, sem ég heimsótti staðinn, einkennisréttur staðarins, með tveggja sólarhringa gömlu brauði af ýmsu tagi og álpökkuðu smjöri. Sennilega er skipt um súpu mánaðarlega og brauð vikulega.

Þótt ekkert minni á bistró, heitir þetta Lónið Bistró. Notalegur hótelsalur er tilviljanlega innréttaður í mildum litum í afgangsplássi milli anddyris og Blómasalar, með mildri lýsingu og útsýni um stóra glugga út á þéttskipað bílastæði. Pappírsþurrkur og kerti eru á borðum og um helmingur borðanna óuppbúinn, rétt eins og verið sé að flytja.

Þjónusta var skóluð og góð, sumpart svo alþjóðleg, að hún skildi ekki íslenzku, enda fremur ætluð hótelgestum en fólki innan úr bæ.

Kryddleginn hörpufiskur var meyr og góður að kvöldi, en skorpinn og seigur í hádeginu. Tómatsalötin þrjú gljáðu af ferskleika að kvöldi, en láku niður í hádeginu, sennilega olíuhrist snemma morguns. Síld var góð, kryddlegnar rækjur, lax og graflax. Ýmiss konar fiskur í hlaupi var frambærilegur, en kaldur nautavöðvi óvenju seigur.

Heitir réttir voru sumir frambærilegir að kvöldi og pönnusteiktur þorskur beinlínis góður, enda nýkominn fram. En grátt og seigt var lambakjöt, sem sneitt var niður fyrir gesti eftir pöntun, og þar að auki svo illa vaktað í hádeginu, að gestir urðu að banka í borðið til að vekja á sér athygli. Í hádeginu voru heitir réttir yfirleitt illskilgreinanlegir og óásjálegir.

Eftirréttir voru einkum ísar og búðingar, svo og tvær tertur og blandað salat ferskra ávaxta, sem fólst einkum í melónubitum.

Af matseðli kostar um 3.100 krónur að snæða þríréttað með kaffi, frambærilegra en hlaðborðið, en jóðlandi í smjöri eða olíu að íslenzkum hætti. Ég þurfti að fá sérstaka skál til að láta renna í af diskunum. Með örbylgjuofni var náð óeðlilegri hitasnerpu í réttina um leið og þeir voru bornir fram.

Sjávarréttasúpa Provençale var bragðsterk og gleymanleg tómatsúpa með fiskbitum og olífum. Bakaður saltfiskur Romesco var sæmilegur, á heitri og bragðsterkri kássu af tómötum og kúrbít, undir þaki af söxuðum olífum bragðgóðum. Meyr og góð var grilluð risahörpuskel undir svonefndu humarravioli, sem var pastaplata, með grænmetisþráðum fljótandi í smjöri.

Steiktur og ostbakaður þorskur dagsins var milt eldaður og ágætur, með smjörblautum og ofelduðum grænmetisþráðum af fjölbreyttu tagi. Steinbítur í sítrónupiparsósu var ógirnilega grár ásýndum, en reyndist ágætlega eldaður, í sterku sítrónupiparsoði.

Grillaður lambahryggur var borinn fram sem tveir þriggja rifja kambar, hæfilega eldaðir og milt kryddaðir, bornir fram með hóflega brúnuðum kartöflum, bezti réttur staðarins. Ristuð andabringa með engifer-portvínssósu og rauðlaukssultu var hins vegar of gróf og þurr.

Bananafrauð var þétt og bragðlaust, með faglega sneiddri peru upp að stikli. Pressukönnukaffi var gott og nóg til af því.

Jónas Kristjánsson

DV