Losaralegt ráðuneyti

Greinar

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu í utanríkisráðuneytinu sýnir, að hvort tveggja var rétt, sem sagt var hér og í öðrum fjölmiðlum á sínum tíma, að starfshættir ráðuneytisins væru of losaralegir og hefðu versnað í ráðherratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Í sex skipti af fjórtán hafði ráðherrann frumkvæði að skipun embættismanna, þar af sumra án menntunar eða reynslu og án hæfnisflokkunar í ráðuneytinu. Þekktasta dæmið er skipun búksláttarfræðings sem sendifulltrúa og síðan eins konar viðlagasendiherra í London.

Sumt af göllum ráðuneytisins er gamalkunnugt. Sendiherrar hafa ekki skýr fyrirmæli um störf og stefnu, heldur móta hver starf sitt að töluverðu leyti að eigin höfði. Þegar þeir eru leystir af, eru ekki til skýr fyrirmæli um verksvið og verkefni þeirra heima í ráðuneytinu.

Einnig kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að sendimenn erlendis tregðast við að koma heim til starfa í ráðuneytinu, af því að þá missa þeir skattfrjálsar staðaruppbætur, sem eru breytilegar og geta verið miklar. Sumir sendimenn ílendast hreinlega erlendis.

Risna sendiráðanna beinist í of miklum mæli inn á við. Sendiráðin leggja sig fram um að gera vel við gestkomandi stjórnmála- og embættismenn að heiman, þótt sú risna gagnist ríkinu ekki út á við. Hana má minnka án þess að það komi niður á hagsmunum ríkisins.

Ekki kemur fram í skýrslunni, að töluvert af þeirri risnu, sem snýr að erlendum aðilum, gagnast ríkinu ekki heldur. Þar er um að ræða hefðbundinn sirkus, sem hefst, þegar nýr sendiherra kemur í borgina og þarf að þiggja hjá og veita öllum sendiherrunum, sem fyrir eru.

Fræg er skýrsla, sem sendiherra Íslands í Bretlandi gaf einu sinni um afhendingu trúnaðarbréfs sem sendiherra í Indlandi. Hún fór víða og var höfð í flimtingum, því að sendiherrann fór einlæglega og að tilefnislitlu gegnum allan risnuferilinn fyrir milljónir króna.

Ekki kemur fram í skýrslunni, að staðsetning sendiráða er sumpart tilviljanakennd og sumpart sagnfræðileg. Við höfum til dæmis ekkert sendiráð í Japan, sem er mikilvægt viðskiptaríki okkar, en aftur á móti sendiráð í Kína, þar sem viðskipti eru lítil og léleg.

Æskilegt væri að nota skýrslu Ríkisendurskoðunar til að stokka upp sendiþjónustu ráðuneytisins. Að svo miklu leyti, sem um er að ræða hversdagslega þjónustu við Íslendinga í útlöndum, er unnt að nýta betur ágætt kerfi kjörræðismanna, sem er ódýrt í rekstri og gefst vel.

Ræðismenn Íslands eru oft auðugir menn, sem geta rekið skrifstofu á eigin kostnað, en fá í staðinn virðingarstöðu, sem veitir þeim aðgang að samkvæmum fína fólksins á viðkomandi stað. Þetta er þægilegt fyrirkomulag, þegar Íslendingar þurfa aðstoð í útlöndum.

Raunveruleg sendiráð þurfum við fyrst og fremst í löndum, þar sem við eigum mikilla hagsmuna að gæta, oftast vegna fjölþjóðlegra stofnana, sem við þurfum að vera í nánu sambandi við. Lykilstaðir af því tagi eru Brussel, Genf og París, þar sem framtíð Evrópu ræðst.

Við neyðumst af sagnfræðilegum ástæðum til að hafa lágmarkssendiráð á Norðurlöndum og við verðum vegna mikilla viðskiptahagsmuna að hafa sendiráð í Þýzkalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Ekki er því unnt að fækka sendiráðum okkar neitt, sem heitið geti.

Kostnaður utanríkisþjónustunnar mundi nýtast betur með nýjum reglum og áherzlum, svo og með því að ófyrirleitnir ráðherrar trufli ekki gangverk hennar.

Jónas Kristjánsson

DV