Í Guardian fjallar Neil Clark um ýmsar myndir arabahaturs á Vesturlöndum nútímans, þar sem Osama bin Laden og Saddam Hussein hafa tekið við hlutverki hins skítuga og svikula araba í skáldsögunum. Hann bendir til gamans á, að hinn stórilli Saddam Hussein hafi reynzt vera sannorðari um gereyðingarvopn í Írak heldur en hinir ástsælu þjóðarleiðtogar George W. Bush og Tony Blair. Clark segir, að nú sé verið að reyna að skýra vandræði hernámsliðsins í Írak með þeirri klisju, að fólkið í landinu sé almennt lúmskt og svikult. Til stuðnings kenningunni vitnar hann í ýmsa ráðamenn Bandaríkjanna, svo sem Condoleezza Rice og Richard Perle.