Mikið fé hvarf, þegar fjármálabófar landsins skutluðu fé milli banka og eignarhaldsfélaga. Sumt varð eftir á Tortóla, þegar fyrirtækin rúlluðu. Sé grunur um slíkt, mega bankar ekki semja um afskriftir eignarhaldsfélaga. Þeim ber að reyna að sækja týnda féð til Lúxemborgar eða Tortóla. Þeim ber líka að hafna eignar- eða rekstrarhaldi bófanna á endurreistum fyrirtækjum bófanna eða á kvóta þeirra. Fráleitt er, að þeir sitji í skuldhreinsuðum fyrirtækjum og samtímis á digrum sjóðum í erlendum paradísum. Skilanefndum, slitastjórnum og nýjum bankaráðum ber að gæta ítrustu hagsmuna þjóðarinnar.