Lýðræði bananalýðveldis

Greinar

Lýðræði felst ekki í því einu að fá að endurkjósa fjórflokkinn á fjögurra ára fresti, þótt margir haldi, að hér eigi milli kosninga að ríkja eins konar ráðherraveldi, þar sem samkór meirihluta alþingismanna staðfesti allar gerðir ríkisstjórnar og einstakra ráðherra.

Kosningaréttur er bara einn þáttur af miklu reipi lýðræðis, eins og það var skilgreint í bandarísku og frönsku byltingunum fyrir rúmlega tveim öldum og er enn skilgreint af vestrænum ríkjum og samtökum þeirra. Einn er þessi þáttur lítils virði og framleiðir ekki lýðræði.

Réttlæti er annar þáttur lýðræðisins. Það felst í vel skilgreindum leikreglum, sem ná til allra borgara, einkum í stjórnarskrá og lögum. Þessi þáttur hefur styrkzt hér á landi, fyrst vegna styttingar biðlista fyrir dómstólum og síðan vegna afskipta evrópskra dómstóla.

Íslenzkir dómstólar og jafnvel Hæstiréttur eru farnir að dæma með hliðsjón af viðhorfum dómstóla í Strasborg og Bruxelles. Þetta sparar fólki í mörgum tilvikum fé og tíma og gerir fleirum kleift að njóta þess réttlætis, sem erlend réttlætiskennd hefur fært okkur.

Erlend afskipti af íslenzkum dómum hafa líka eflt þriðja þátt lýðræðisins, sem er afnám forréttinda á borð við kvóta, einkaleyfi og sértækar aðgerðir stjórnvalda. Íslenzkir dómstólar og jafnvel Hæstiréttur þora ekki annað en að dæma með hliðsjón af útlendum siðum.

Dómar í kvótamálum eru frægasta dæmið um upplausn þeirra forréttinda, sem kjörnir fulltrúar og ríkisstjórn deila til þeirra, sem eru í náðinni. Einkaleyfi á rekstri gagnagrunns er hins vegar dæmi um mál, þar sem menn verða áfram að sækja réttlæti úr suðri.

Ef frá er skilinn ótti íslenzkra dómstóla við æðri dómstóla í útlöndum er afar veikur sá hlekkur lýðræðis hér á landi, sem lýtur að afnámi forréttinda. Ráðherrar og atkvæðavélar þeirra á þingi telja enn, að stjórna beri með sértækum aðgerðum, kvótum og einkaleyfum.

Fjórði þáttur lýðræðis er skoðanafrelsið, sem hér er í góðu lagi. Allir tjá hug sinn og hafa aðgang að hugsunum annarra. Fjölmiðlar eru nógu margir til að gefa fjölbreytta mynd af lífinu og tilverunni. Ný tækni tölvusamskipta virðist munu efla þennan þátt enn frekar.

Fimmti þáttur lýðræðisins er jöfnuður borgaranna, en deilt er um, hversu langt hann eigi að ganga. Annars vegar fara þeir, sem telja velferð eiga að vera sem mesta og hins vegar þeir, sem telja velferð líðandi stundar verða að víkja fyrir aukinni arðsemi atvinnulífsins.

Íslenzka velferðarríkið er í sæmilega góðu jafnvægi milli þessara tveggja túlkana á því, hver eigi að vera jöfnuður borgaranna. Í erlendum samanburði má þó fullyrða, að Ísland skipar sér í þann kant vestrænna ríkja, sem mesta áherzlu leggja á velferðarríkið.

Þannig er íslenzkt lýðræði ofið úr fleiri þáttum en kosningarétti, sumum sterkum og öðrum veikum. Vandi okkar felst í, að við höfum almennt ekki tileinkað okkur lýðræðishyggju, heldur höfum við meðtekið kerfið að mestu leyti að utan, sumpart vegna þrýstings.

Þetta veldur því, að of margir þingmenn og ráðherrar telja, að lýðræði felist í, að alvaldir ráðherrar stjórni með tilskipunum, undanþágum, kvótareglum, sértækum aðgerðum, einkaleyfum, stöðuveitingum flokksmanna og ýmsu öðru ofbeldi, sem þingmenn staðfesta síðan.

Þegar forsætisráðherra veitir Hæstarétti föðurleg ráð um, hvernig dæma skuli í kvótamálum, er það ein birtingarmynd ástands, sem kallast bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV