Lýðræði er margslungið

Greinar

Kosningar eru aðeins einn af nokkrum þáttum lýðræðis. Víða um heim eru haldnar kosningar í ríkjum, sem ekki geta talizt lýðræðisríki. Jafnvel þótt ekki sé haft rangt við í kosningum ríkja á borð við Perú og Singapúr eru þessi ríki af öðrum ástæðum ekki lýðræðisríki.

Ekki ríkir lýðræði nema valdi sé skipt. Ekki ríkir lýðræði í ríkjum, þar sem landsfeður nota dómstóla sem tæki í baráttu sinni við að halda völdum, svo sem í Perú og Singapúr. Á þessum grunni hvílir reglan um skiptinguna í framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.

Ekki ríkir lýðræði nema við aðstæður skoðanafrelsis í margvíslegum myndum, þar á meðal prentfrelsi. Ekki ríkir lýðræði í ríkjum, þar sem landsfeður nota sjónvarpsstöðvar og útvarpsstöðvar sem tæki í baráttu sinni við að halda völdum, svo sem í Perú og Singapúr.

Ekki ríkir lýðræði nema allir séu jafnir fyrir réttlátum lögum. Ekki ríkir lýðræði í ríkjum, þar sem fólk og fyrirtæki verða að sæta geðþóttaákvörðunum stjórnvalda, svo sem í Kína og Sovétríkjunum. Leikreglur þurfa í senn að vera réttlátar og fastmótaðar og aðgengilegar.

Samkvæmt þessu ríkir ekki lýðræði nema í örfáum tugum ríkja, fyrst og fremst í Evrópu og Norður-Ameríku. Margir tugir annarra ríkja þykjast vera lýðræðisríki vegna heiðarlegra kosninga. Og flest afgangsríkin láta kosningar fara fram, en hafa rangt við í þeim.

En lýðræði getur verið ábótavant á Vesturlöndum, þótt fylgt sé formsatriðum valddreifingar, skoðanafrelsis og jafnréttis fyrir réttlátum lögum. Sem dæmi um það má nefna síaukinn áhrifamátt fjármagns í kosningum, svo sem við höfum séð í Bandaríkjunum að undanförnu.

Í krafti fjármagns kaupa menn sér athygli kjósenda og ráðamanna og vefja sumum þeirra um fingur sér. Fjármagn kaupir frambjóðendur, ryður þeim braut og stýrir síðan gerðum þeirra við völd. Þannig hefur lýðræðið spillzt og orðið að baráttu milli sérhagsmuna.

Bandaríkjamenn hafa sett lög til að sporna við þessu, en þau eru ófullkomin og þarfnast gagngerðrar endurnýjunar og útvíkkunar. Hér á landi eru ekki til nein lög um gagnsæi í fjármálum stjórnmálaflokka og annarra aðila, sem standa að framboðum til starfa í stjórnmálum.

Annað dæmi um lýðræði, sem ekki virkar nógu vel, er áhugaleysi kjósenda, sem skýrt kemur fram í Bandaríkjunum, þar sem aðeins annar hver maður hirðir um að nota kosningarétt sinn. Sums staðar er notuð sú vafasama patentlausn að sekta menn fyrir að kjósa ekki.

Ekki hefur fundizt neitt gott ráð gegn þessu áhugaleysi, sem virðist fara vaxandi. Moldviðri kosninga verður þéttara með hverjum áratugnum sem líður og fælir kjósendur frá þátttöku. Vonandi finnast leiðir til að endurvekja vilja kjósenda til að taka sinn þátt í lýðræðinu.

Þriðja dæmið, sem stundum er notað um illa virkt lýðræði er hins vegar ekki rétt. Það er ekki galli lýðræðis, að það velji ekki beztu mennina til forustu. Það er ekki hlutverk lýðræðis að velja betri menn en önnur stjórnkerfi. Kostur lýðræðis er bara að geta skipt um þá.

Lýðræði er hins vegar ekki fasteign, sem endist án viðhalds. Lýðræði þarf að rækta með því að slípa agnúa. Sérstaklega er brýnt að setja leikreglur, sem hamla gegn því, að áhrif séu keypt í krafti fjármagns. Því miður hafa engar slíkar reglur enn verið settar hér á landi.

Lýðræði er margslungið fyrirbæri, sem hefur gefizt vel á Vesturlöndum og víðar. Það hefur lyft þjóðum úr sárustu fátækt og losað hug þeirra og hag úr læðingi.

Jónas Kristjánsson

DV