Landsfeðurnir virðast telja sig vera ómissandi og telja kjósendur aldrei munu þreytast. Nú hefur Davíð Oddsson ákveðið að leiða Sjálfstæðisflokkinn áfram, að minnsta kosti til ársins 2007. Flokksmenn taka þessu fagnandi. Þá hefur Davíð verið formaður flokksins í sextán ár, heila eilífð.
Halldór Ásgrímsson var nýlega staðfestur á flokksþingi sem formaður. Enginn eftirmaður er sýnilegur í þeim flokki. Þar er enginn Geir Haarde til að leika hlutverk Gordon Brown fjármálaráðherra í Tony Blair leikriti Davíðs. Allt bendir til, að bæði Halldór og Davíð heyi næstu þingkosningar.
Hugsanlegt er, að Samfylkingin skipti um formann í vor, en allt virðist verða við það sama hjá Vinstri grænum og Frjálslyndum í næstu kosningum. Helzt er von til breytinga í Reykjavík, þar sem R-listinn er byrjaður að liðast í sundur vegna vaxandi ólgu hjá Vinstri grænum og Framsóknarflokknum.
Fólk er farið að verða þreytt á foringjum sínum. Menn hafa auknar efasemdir um heilindi þeirra. Það birtist meðal annars í grunsemdum um, að ekki sé allt með felldu í flóknu ferli við sölu Símans og fullyrðingum um, að einkavæðing bankanna hafi ekki verið framkvæmd með eðlilegum hætti.
Fólk vantreystir ekki bara ríkisstjórninni, heldur líka meirihluta R-listans í borgarstjórn. Þótt loforð um ókeypis leikskóla hafi bætt stöðu meirihlutans í bili, skera í augu stöðugar hrasanir í skipulagsmálum, svo sem Vatnsmýrin, Norðlingaholt og mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Alþingi hefur ekki farið varhluta af efasemdum fólks. Menn hlæja úti í bæ, er Lúðvík Bergvinsson espar Halldór Blöndal þingforseta til að leika hlutverk lélegs kennara, sem hefur misst tökin á tossabekk. Jakki og hálsbindi karlþingmanna eru orðin að síðasta vígi sjálfsvirðingar Alþingis.
Veigamesta forsenda þverrandi virðingar fyrir pólitíkinni er, að það þjónar ekki lýðræði í landinu, ef við lítum á lýðræði sem aðferð til að skipta um valdhafa á tiltölulega friðsaman hátt. Ef lýðræði megnar ekki að gegna þessu hlutverki, missa menn áhuga á því og neita að taka þátt.
Ekki er enn hægt að sjá, hvort þreyta fólks á leiðtogum og stjórnarmynztri muni leiða til byltinga í næstu byggða- og þingkosningum, en vissulega er þegar kominn tími til þeirra.
Jónas Kristjánsson
DV