Lýðræðið leitar út

Greinar

Arftakar kommúnista í Póllandi töpuðu í þingkosningum helgarinnar, þrátt fyrir eindreginn stuðning vestrænna fjármálaafla. Sigurvegarar kosninganna voru tveir arftakaflokkar Samstöðu, annar kristilegur íhaldsflokkur og hinn frjálslyndur auðhyggjuflokkur.

Misheppnaður stuðningur vestrænna fjármálaafla við stjórnarflokk kommúnista gefur góða innsýn í þverstæður stjórnmálanna. Vestrænir auðmenn beittu áhrifum og fjármagni til að reyna að tryggja endurkjör þeirra manna, sem stjórnuðu landinu á Sovétöldinni.

Það stafar ekki af, að Lýðræðislega vinstrabandalagið, flokkur kommúnista, hafi stjórnað landinu vel á síðasta kjörtímabili. Hagvöxtur hefur að vísu verið nokkur, en hann er fyrst og fremst afleiðing gerða fyrri ríkisstjórnar, sem var hægri sinnuð Samstöðustjórn.

Kjörtímabilið hefur einkennzt af stöðnun. Uppstokkun kerfisins hefur að mestu frosið. Undir forustu Kwasniewski forseta reyndu kommúnistar að halda sjó og maka krókinn. Pólland hefur þannig tapað tíma í undirbúningi sínum að þátttöku í Evrópusambandinu.

Höfundur efnahagsumbóta Póllands er Balcerowicz, sem var fjármálaráðherra, áður en kommúnistar komust til valda að nýju. Aðgerðir hans voru óvinsælar og leiddu til afturhvarfs. Nú sáu menn þær í réttu ljósi og veittu flokki hans brautargengi til kosningasigurs.

Nú vona erlendir fjármálamenn, að Balcerowicz og Kwasniewski semji um Evrópu- og fjármagnshneigða ríkisstjórn, fremur en að Balcerowicz og Krzaklewski, leiðtogi Hægri bandalagsins, semji um hægrisinnaða stjórn, sem yrði væntanlega verkalýðsvænni.

Vestrænir fjármálamenn vilja annars vegar festu í stjórnmálunum og hins vegar góðan aðgang að stjórnmálamönnum. Arftakar kommúnista í Póllandi og raunar annars staðar í Austur-Evrópu bjóða þeim einmitt þægilega þriðja-heims-blöndu af festu og spillingu.

Athyglisvert er, hversu snögglega gömlu kommúnistarnir í Austur-Evrópu hafa breytzt í forstjóra stórfyrirtækja. Þeir notuðu niðurrif ríkisvaldsins til að komast með sjónhverfingum í bókhaldi yfir gífurleg framleiðslutæki, sem áður voru í eigu ríkisins.

Staðreyndin er nefnilega sú, að það var alveg sama manngerð, sem komst til valda á vegum kommúnistaflokka Austur-Evrópu og sem kemst til valda á vegum stórfyrirtækja Vesturlanda. Það eru þeir, sem kunna að spila með umhverfið sér til framdráttar.

Meiri háttar kommúnistar eru orðnir að forstjórum og öðrum yfirmönnum stórfyrirtækja, sem eiga fjölmiðla og ráðskast með pólitíkina. Minni háttar kommúnistar eru orðnir að mafíuforingjum, sem heimta sinn hlut herfangsins með aðferðum úr undirheimum Vesturlanda.

Þeir, sem fjárfesta í Austur-Evrópu að lokinni Sovétöldinni, eru að semja við sína líka og gæta sameiginlegra hagsmuna, þegar þeir styðja kommúnista til valda. Þetta er nákvæmlega eins og þeir styðja alla harðstjóra, sem lofa festu í stjórn ríkja þriðja heimsins.

Frá skammtímasjónarmiði veita harðstjórar þriðja heimsins og kommúnistar Austur-Evrópu festuna, sem fjármagnið heimtar. En slíkt stjórnarfar er eins og útfallslaus stífla, sem safnar vatni að baki sér og brestur að lokum. Lýðræðið leitar út, þótt það sé barið með lurk.

Vestræn stjórnvöld þurfa að átta sig á, að vestræn fjármálaöfl hamla gegn lýðræði og langtímafestu, þótt þeim hafi ekki tekizt það í Póllandi að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV