Verðbólga lyfja er ein orsaka erfiðs rekstrar Landspítalans. Lyfjareikningur hans hækkar árlega og yfirleitt um nokkur hundruð milljónir króna umfram áætlun. Verðbólgan stafar af botnlausu siðleysi stóru lyfjarisanna, sem fjallað hefur verið um í valinkunnum erlendum fjölmiðlum á síðustu árum.
Washington Post og New York Times hafa fjallað um, hvernig lyfjarisar borga heilar læknaráðstefnur, allan ferðakostnað og uppihald lækna, svo og sérstakar mútur til að kynna ný lyf fyrir öðrum starfsbræðrum. Þannig var komið á framfæri verkjalyfinu Oxycontin, sem varð hundruðum að fjörtjóni.
Einnig kom í ljós, að lyfjafyrirtækin greiddu virðulegum háskólasjúkrahúsum og sérfræðitímaritum stórfé til að koma á framfæri fölsuðum rannsóknaniðurstöðum. Sumar rannsóknir voru með hlöðnum forsendum, í öðrum var skautað yfir hliðarverkanir og enn aðrar voru skáldskapur frá grunni.
Þegar kom í ljós, að New England Journal of Medicine hafði birt grein eftir lækni, sem var á mála lyfjarisanna, var farið að kanna málið. Þá uppgötvuðu fleiri læknarit, svo sem Lancet, Annals of Internal Medicine og Journal of the American Medical Association, að víðar var maðkur í mysunni.
Athuganir læknablaðanna leiddu í ljós, að rangt var staðið að ýmsum rannsóknum, sem þau höfðu fjallað um. Dæmi voru um, að þekktir læknar höfðu verið fengnir til að setja nafnið sitt undir rannsóknarniðurstöður, sem þeir höfðu ekki séð.
British Medical Journal hefur skýrt, hvernig lyfjarisar framleiddu ímyndaðan sjúkdóm kynkulda kvenna til að selja meira af lyfinu viagra. Þeir kostuðu ótal ráðstefnur og fagrit, þar sem flaggað var ímynduðum niðurstöðum rannsókna um, að 43% kvenna þjáðust af þessum ímyndaða sjúkdómi.
Journal of the American Medical Association rannsakaði 108 háskólasjúkrahús og komst að raun um, að lyfjarisarnir réðu þar ferðinni og stjórnuðu í 99% tilvika, hvort niðurstöður rannsókna voru birtar eða ekki. Markmiðið var að telja öllum trú um, að ný lyf virki rosalega vel og séu án aukaverkana.
Lyfjarisarnir teygja anga sína til íslenzkra lækna, kosta tímarit þeirra og ráðstefnur, styrkja þá til utanferða, borga þar uppihald þeirra og útvega þeim gistingu. Af öllu þessu sannfærast sumir læknar um ágæti nýrra lyfja og koma þeirri sannfæringu á framfæri við innlenda starfsbræður.
Af þessu leiðir, að fólk er látið nota ýmis rándýr sérlyf, þótt ódýr lyf geri sama gagn. Á hverju ári koma ný og dýrari lyf til sögunnar og hækka lyfjakostnað Landspítalans, þótt engin ástæða sé til að trúa niðurstöðum rannsókna, sem segja frá kraftaverkum þessara lyfja og skorti á aukaverkunum.
Heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn virðast ekki hafa burði til að hafa hemil á flóði gagnslítilla okurlyfja.
Jónas Kristjánsson
DV