Lyfjasparnaður

Greinar

Betra er að spara í sjúkrakerfinu með því að taka ódýrar eftirlíkingar, svonefnd samheitalyf, fram yfir dýr sérlyf heldur en að auka hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Báðar aðferðir fela í sér undanhald velferðarkerfisins, en síðari leiðin niðurgreiðir beinlínis stéttaskiptingu þjóðarinnar.

Öll lyf hafa aukaverkanir, einnig það pólitíska lyf að efla kostnaðarvitund sjúklinga með því að láta þá borga hluta af lyfjakostnaði. Það leiðir til skiptingar þjóðfélagsins í tvær þjóðir. Annars vegar hafa sumir ekki efni á að borga sinn hluta. Hinir betur stæðu fá hins vegar niðurgreidd lyf.

Ríkisendurskoðun telur, að spara megi hundruð milljóna og jafnvel milljarða á að taka ódýru samheitalyfin fram yfir dýru sérlyfin. Ef ríkið vill, getur það ýtt notkuninni yfir til samheitalyfja með því að borga að mestu fyrir þau, en aðeins fyrir þau sérlyf, sem talin eru sérstaklega brýn.

Tillaga ríkisendurskoðunar gengur raunar skemur en þetta. Hún vill, að ríkið greiði fyrir sérlyf upp að því marki sem hliðstætt samheitalyf mundi kosta. Kostnaðarhlutdeild hins opinbera sé miðuð við lægsta lyfjaverð í nálægum löndum og gerðar séu ráðstafanir til að ná því verði hér á landi.

Ekki er hægt að taka mark á fullyrðingum lyfjafyrirtækja og lækna um gagnsemi lyfja. Erlend læknatímarit og fjölmiðlar hafa upplýst fjölmörg dæmi um, að fréttir af gagnsemi lyfja byggjast á fölsuðum rannsóknum og að mikill fjöldi lækna og fræðimanna er á beinum og óbeinum mútum hjá lyfjarisunum.

Þeim hefur tekizt að sjúkdómavæða vesturlönd. Til dæmis hefur tekizt að selja þá hugmynd, að fólk eigi að vera hamingjusamt í sífellu og þurfi að taka geðbreytilyf, ef ytri aðstæður valda því þunglyndi eða sorg, svefntruflunum eða kvíða, sem allt er eðlilegt og óhjákvæmilegt ástand.

Hagkvæmt er að nota þá meginreglu, að ódýr samheitalyf séu í flestum tilvikum ágætar eftirlíkingar af dýru sérlyfjunum. Ríkið eða heilbrigðisráðuneytið eða tryggingastofnunin eða landspítalinn geta boðið út samheitalyf og dregið verulega úr miklum mun lyfjakostnaðar Íslands og nágrannalandanna.

Ríkisendurskoðun segir, að við notum lyf fyrir 14 milljarða króna á ári, en þyrftum ekki að borga nema 10 milljarða, ef farið væri að ráðum hennar um samheitalyf og ýmislegt annað, svo sem hagræðingu í dreifingu og sölu lyfja. Þetta eru engir smáaurar í biluðu velferðarkerfi, sem berst í bökkum.

Svo að bilað sjúkrakerfi bresti ekki, þurfa ráðamenn að beita öllum tiltækum ráðum til að verjast innri verðbólgu þess og ná fram sparnaði. Lyfin eru þar skýrasta verkefnið.

Jónas Kristjánsson

DV