Lygin er ekki ókeypis

Greinar

Guðrún Helgadóttir alþingismaður sagðist í fyrradag hafa skrökvað að fjölmiðli þá um morguninn. Hún hafði sagzt ekki ætla að gefa baráttulaust eftir sæti sitt á framboðslista Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Í rauninni var hún þegar búin að ákveða að gefa þetta sæti eftir.

Alþingismaðurinn taldi henta sér betur, að sannleikurinn kæmi ekki í ljós fyrr en síðar um daginn. Þetta fannst honum eðlileg málsmeðferð. Sannleikurinn er í augum hans ekkert annað en verkfæri, sem stundum má nota og stundum ekki, allt eftir hentugleikum hverju sinni.

Síðan ætlast sami þingmaðurinn til þess, að fólk trúi honum, þegar hann segist hafa tekið þessa ákvörðun að eigin frumkvæði. Af því að reynsla er fyrir því, að þingmaðurinn segir satt og ósatt eftir hentugleikum hverju sinni, verður honum ekki trúað í þessu frekar en öðru.

Þvert á móti verður haft fyrir satt, að þingmaðurinn hafi aðeins átt tveggja óþægilegra kosta völ. Annar var sá að gefa eftir sætið og fara niður í það fjórða. Hinn var, að flokksbræður hans mundu reyna að koma honum alveg út af listanum, ef hann makkaði ekki rétt.

Með lækkuninni er þingmaðurinn búinn að missa þingsætið og það er gott. Það er þó einum pólitíkusnum færra, sem segir ósatt. Og einum færra, sem er svo blygðunarlaus, að hann talar um það eins og hvern annan sjálfsagðan hlut. Vonandi er brottförin endanleg.

Þingmaðurinn ósannsögli er ekki einn um hituna. Það hefur færzt í vöxt á undanförnum árum, að stjórnmálamenn og embættismenn fari vísvitandi með rangt mál í viðtölum við fjölmiðla. Þessir valdamenn telja hagkvæmnisástæður heimila sér að fara með rangt mál.

Nýlegt dæmi er ráðuneytisstjóri utanríkismála. Hann laug því, að menningarfulltrúinn í London hefði þá diplómatísku stöðu, að hann gæti orðið sendiherraígildi. Síðar kom í ljós, að í kjölfar lyginnar þurfti að breyta stöðu fulltrúans, svo að hann gæti orðið ígildi.

Sá, sem lengst hefur gengið á þessu sviði upp á síðkastið, er hrakfallabálkurinn Guðmundur Árni Stefánsson. Hann hefur sjálfur gefið fjölmiðlum rangar upplýsingar og jafnvel haft samráð við embættismenn um, hvernig þeir eigi að reyna að ljúga sig út úr vondum málum.

Hverjum eiga fjölmiðlamenn og almenningur að treysta, þegar svo er komið, að tilgangurinn helgar meðalið hjá viðmælendum fjölmiðla? Ein leið er að trúa aldrei neinu, sem frá stjórnmálamönnum og embættismönnum kemur. Sú afstaða er skiljanleg, en erfið í raun.

Önnur leið er, að fjölmiðlar venji sig á að fylgjast með, hvort reynslan leiði í ljós, að ákveðnir stjórnmálamenn og embættismenn hafi logið sér til þægindaauka; og setji lygna valdamenn á lista yfir þá, sem hvorki beri að trúa né treysta. Þessi vörn er raunar þegar hafin.

Flest fólk fer aðra leið. Það áttar sig smám saman á, að sannleikur er eins og lygi bara eitt verkfæri af mörgum í hentistefnukassa stjórnmálamanna og embættismanna. Þetta veldur vantrausti á valdamönnum almennt, bæði þeim, sem ljúga og hinum, sem segja satt.

Þetta er ein af orsökum þess, að fólk á erfitt með að gera upp hug sinn milli stjórnmálaflokka og -manna og er þar á ofan reiðubúið að setja traust sitt á ný stjórnmálaöfl, að minnsta kosti meðan ekki er enn komið í ljós, hvort þau séu eins ómerkileg og eldri öflin hafa reynzt.

Þannig er lygin ekki ókeypis frekar en hádegisverðurinn frægi. Hún er hvorki ókeypis fyrir þjóðfélagsgerðina í heild né fyrir þann, sem telur hagkvæmt að beita henni.

Jónas Kristjánsson

DV