Madonna ratar ekki
Madonna við Rauðárstíg 2729 ratar ekki heim. Svokallað ítalskt salat sérkennilegt fólst í sjálfstæðum geirum af túnfiski, skinkubitum, pylsuneiðum, olífum og sveppum, borið fram með sýrðum rjóma krydduðum. Svokallað espresso-kaffi reyndist vera lapunnt americano úr fjölkaffivél. Svo illa ítölsk er hún þar á ofan, að vínlistinn er aðallega spánskur.
Allur fiskur frystur
Allur fiskur reyndist vera úr frysti, allt frá seigum og þurrum skötusel með yfirfljótandi holland-aise-sósu yfir í þurra ýsu með smjöri. Humarsúpa dagsins með þeyttum rjóma var hins vegar fín í tvígang. Beðið var um lítið steikt lambakjöt, en það kom næstum grátt á borð, borið fram með ofelduðu og ofsöltuðu grænmeti og brúnni hveitisósu. Svipaða sögu var að segja af nautalund, þar sem brúna hveitisósan flaut um allt. Í öllum heimsóknum reyndist eftirréttur dagsins vera Royal-ættaður súkkulaðibúðingur.
Leiktjöld úr frauðplasti
Aðalréttir dagsins eru fjórir og kosta 1560 krónur með súpu og eftirrétti. Þetta er í rauninni ekkert “ristorante”, heldur skyndibitastaður í rólegum gír. Fáið ykkur ekki mat, heldur pitsu á 1090 krónur eða pöstu á 1350 krónur. Þröng og básaskipt veitingastofan er fremur notalega gamaldags með óþægilegum glerplötum á borðum, tvískipt í reyksal og reyklaust, hlaðin leiktjöldum úr frauðplasti og langmesta magni gerviblóma, sem ég hef séð á einum stað.
Ítalíulaust Ísland
Sorglegt er, að ekki skuli vera til neitt almennilega fjörugt ítalskt veitingahús hér á landi, laust við bása, glerplötur og pappír í þurrkum, með fallegu salati Miðjarðarhafslanda, ferskt löguðu pasta hússins og bragðþrungnu risotto, ítölskum réttum á borð við saltimbocca og ossobuco, mögnuðum gorgonzola-osti, léttu borðvíni hússins, massífu bezta kaffi í heimi og hinni heimskunnu ítölsku þjónustu.
Fisklaust fiskhús
Árum saman hefur engan ferskan fisk ófrosinn verið að fá í Jónatan Livingstone Mávi, þótt enn sé haft í matseðlinum eftir ónafngreindum erlendum aðila, að þetta sé eitt af tíu beztu fiskréttahúsum heims. Jónatan er ekki einu sinni einn af þeim tíu verstu, því að hann er alls enginn fiskréttastaður. Það er alltaf leiðinlegt að sjá engan bilbug á þvættingi og bulli í sölumennsku.
Tilþrif í kryddi
Matreiðsla Jónatans mávs var upp og ofan, skemmtilega krydduð á köflum, svo sem sesamfræ með grafinni gæs, stundum úr hófi fram, svo sem í fjölkrydduðum grillhumar. Sósur og soð flæddu í miklu magni um diska. Grænmeti var ofsoðið, en réttir eldunartímar voru í kjötréttum og humar. Staðurinn er lítt breyttur, þjónusta er ágæt og verðlagið komið upp í 5.000 krónur þríréttað með kaffi.
Jónas Kristjánsson
DV