LEIÐSÖGURIT
FJÖLVA
JÓNAS KRISTJÁNSSON
ritstjóri
MADRID
og merkisborgir Spánar
Leiðsögurit fyrir
íslenzka ferðamenn
Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.
Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.
Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.
Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.
Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.
Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir
Inngangur
Flestir þekkja Costa del Sol, Costa Brava eða Benidorm, enda er þessi bók ekki um þá valinkunnu staði. Handan við sólarstrendur er til annar Spánn, gamall menningarheimur, sem hefur gengið í endurnýjun lífdaganna á nýfengnum lýðræðistíma. Þessi bók er skrifuð fyrir ferðamenn, sem vilja kynnast ánægjulegum raunveruleika utan við ágæta ferðamannaþjónustu sólarstranda. Við munum í yfirreið okkar bæði skoða frjálslegan nútíma og fjölbreytta menningarsögu.
Suma staðina í þessari bók er auðvelt að skoða með því að fá sér bílaleigubíl frá Costa del Sol eða Costa Brava. Aðra er auðvelt að skoða með því að láta eftir sér að taka flugvél frá sólarströnd inn til höfuðborgarinnar í Madrid og gista þar tvær eða þrjár nætur. Þeir, sem ætla að fljúga með Iberia til Spánar geta fengið lítt takmarkað flug innanlands í 60 daga á Spáni fyrir $250, ef þeir panta það fyrirfram.
Spánn er skagi, sem löngum hefur staðið sér á parti í Evrópu, en samt í þjóðbraut. Fyrir ritöld voru þar gamlar þjóðir vesturevrópskar, svo sem Íberar og Keltar. Grikkir og síðan Karþagó-menn náðu tímabundnum áhrifum, en Rómverjar náðu góðum tökum á skaganum og gerðu að helzta hornsteini ríkis síns, sóttu meira að segja þangað fræga keisara, skáld og heimspekinga.
Vestgotar komu á þjóðflutningatímanum. Síðan tóku Márar við, héldu völdum í átta aldir, gerðu Spán að menningarmiðstöð íslams og skildu eftir sig djúp spor og minjar. Síðan hefur verið strangkaþólskur tími á Spáni í fimm aldir. Á 16. öld, tíma landafundanna, var Spánn voldugasta ríki heims. Þá dreifðist spönsk tunga um mestan hluta rómönsku Ameríku. Í lok valdaskeiðs Francos fyrir hálfum öðrum áratug var Spánn fátækt og fyrirlitið afturhaldsríki, en hefur með innreið lýðræðis brunað í átt til velsældar.
Spánn er ekki eitt land, heldur mörg lönd. Þungamiðjan er landlokað kastalalandið Kastilía, sem hefur gefið ríkinu aðalsættirnar og tungumálið, sem við köllum spönsku, en aðrir Spánverjar kalla kastilísku. Í suðri er glöð og fátæk Andalúsía með márískum áhrifum frá Afríku. Við Miðjarðarhafið eru dugnaðarlöndin Katalúnía og Valensía með sérstökum tungumálum, sem minna á suðurfrönsku. Í norðri eru Galisía og Euzkadi, sem hvort um sig hafa eigið tungumál. Galisíska minnir á portúgölsku, og euskera, baskatunga, stendur alein út af fyrir sig í heiminum, ein af óleysanlegum gátum veraldarsögunnar.
Ef greina á Spánverja frá öðrum Evrópumönnum, má segja, að þeir séu sjálfmiðjaðir stjórnleysingjar. Frá blautu barnsbeini eru þeir vanir að tjá sig sem einstaklinga, fremur en að gefa og þiggja upplýsingar og skoðanir. Þeir hemjast illa í félagsskap, og á kaffihúsum tala allir í einu. Þeir eru hrokafullir og vingjarnlegir í senn, þrasgjarnir og gjafmildir, sérstaklega barngóðir. Og þeir eiga gnótt listamanna.
Bankar
Flestir bankar eru opnir 9-14 mánudaga-föstudaga og 9-13 laugardaga. Sumir opna fyrir erl. gjaldeyri 17-19.
Dagblöð
International Herald Tribune er víða fáanlegt. El País er spánskt blað, sem hefur mikið af erlendum fréttum.
Ferðir
Skrifstofur ferðamálaráðs, Oficina de Turismo, er á Plaza Mayor 3, símar 221 12 68 og 266 48 74 og á Princesa 1 (Plaza de España), sími 241 23 25.
Flug
Barajas-flugvöllur er 13 kílómetra frá miðbænum, símar 205 40 90 og 205 83 84. Leigubíll þangað kostar um 1.100 peseta og tekur ferðin hálftíma. Fljótlegra er að fara í lest en í loftkældum strætisvagni, sem fer á 20 mínútna fresti frá Plaza de Cólon og er þrjá stundarfjórðunga á leiðinni.
Framköllun
Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á hálftíma.
Hótel
Á Barajas-flugvelli og á járnbrautarstöðvunum Atocha og Chamartin er ferðamönnum útvegað hótelherbergi. Pantaðu herbergi með “twin beds”, því að þau eru oft stærri en herbergi með “double bed”. Herbergi með útsýni eru oft ekki dýrari en önnur herbergi.
Krítarkort
Ef þú hefur glatað krítarkorti, er heima svarað allan sólarhringinn í 354-1-68 54 99 fyrir Eurocard og í 354-1-67 17 00 fyrir Visa.
Kvartanir
Ef þú ert óánægður með frammistöðu hótela eða veitingahúsa, getur þú krafizt kvörtunareyðublaðs (hoja de reclama-ciones) í þríriti, sem slíkum stofnunum ber að eiga. Krafa um slíkt leysir oft vandamál, því að kvartanir ferðamanna eru teknar alvarlega.
Leigubílar
Leigubílar eru á sérstökum biðstöðvum og einnig er unnt að veifa í þá á götunni. Ef þeir eru lausir, hafa þeir grænt ljós á þaki og skilti í framglugga með orðinu “libre”. Þeir nota gjaldmæla. Álag er á ferðir til og frá flugvelli og fyrir ferðatöskur.
Lyfjabúð
Lyfjabúðir (“farmacia”) eru opnar 9-14 mánudaga-laugardaga og 16-20 mánudaga-föstudaga. Á þeim er yfirleitt vísað á næstu lyfjabúð á næturvakt. Þær mega selja ýmis lyf án lyfseðils.
Löggæzla
Hringdu í neyðarsímann 091 hvar sem er á Spáni.
Peningar
Á Spáni er 1, 5, 25, 50 og 100 peseta klink og 100, 500, 1.000 og 5.000 peseta seðlar. Flest hótel og veitingahús taka bæði Eurocard og Visa.
Póstur
Pósthús eru venjulega opin 9-13 mánudaga-laugardaga og 17-19 mánudaga-föstudaga, en aðalpósthúsið í Madrid er opið til miðnættis.
Rafmagn
Rafmagnsspenna er sama og hér heima, 220 volt, en sums staðar á hótelum er þó eldra, 120 volta kerfi.
Ræðismenn
Aðalræðismaður Íslands í Madrid er í Eurobuilding, Oficina 15, sími (1) 457 89 84. Í Barcelona: Cerdena 229-237, Sobreatico Tercera, sími (3) 232 58 10. Ræðismaðurinn í Benidorm er í Casa Las Flores, local 13, Avda. Mediterranée 2/n, sími (65) 85 08 63. Í Bilbao: San Vicente 6, Apartado 250, sími (4) 423 06 79. Í Las Palmas: Leon y Castillo 244, Oficina 209, sími (28) 23 04 60. Í Malaga: Paseo Maritimo 25, sími (52) 22 17 39. Í Valencía: Plaza Porta de la Mar 4, sími (6) 351 72 75. Í Palma de Mallorca er vararæðismaður í Vía Alemania 2-10, sími (71) 29 10 88.
Salerni
Salerni eru í kaffihúsum, veitingahúsum, söfnum og stórverzlunum. Víða þarf að borga salernisverði þjórfé.
Samgöngur
Annatímar á götunum og í neðanjarðarlestinni eru 8-10, 13-14, 16-17, 19:30-20:30. Neðanjarðarlestin er hreinleg og fljótvirk, en getur orðið heit á sumrin.
Sendiráð
Ekkert sendiráð er á Spáni, en ræðismenn eru víða, sjá “Ræðismenn”.
Sími
Myntsímar eru víða, til dæmis á börum og kaffihúsum. Milli borga á Spáni er tölustafnum 9 bætt framan við svæðisnúmerið. Til Íslands er hringt fyrst í 07 til að fá millilandasamband, beðið eftir sóni, síðan í 354 fyrir Ísland og loks svæðisnúmer og símanúmer í einni bunu. Landsnúmer Spánar er 34, svæðisnúmer Madrid er 1, Barcelona 3 og Sevilla 5.
Sjúkrabíll
Hringdu í 252 32 64 eða 227 20 21.
Sjúkrahús
Almennur neyðarsími heilsugæzlu í Madrid er 061. Slysa- og neyðarspítali í Madrid er t.d. Urgencia Médica, Barco 26, sími 531 88 47.
Slys
Almennur slysasími í Madrid er 092.
Slökkvilið
Hringdu í síma 232 32 32.
Vatn
Kranavatn er drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.
Veitingar
Veitingahús eru yfirleitt opin fyrir matarpantanir 13:30-16 og 21-24. Mörg eru lokuð í ágúst og sum sunnudaga. Leiðsögumenn og hótelpúrtnerar reyna yfirleitt að benda þér á hús, sem gefa þeim prósentu af viðskiptum.
Verðlag
Verðlag hér í bókinni er frá áramótum 1990-1991. Verðbólga er svipuð og hér á landi. Liðinn er sá tími, þegar Spánn var ódýrt land.
Verzlun
Verzlanir eru yfirleitt opnar 9-13/14 mánudaga-laugardaga, 16:30/17-19:30/20 og jafnvel lengur mánudaga-föstudaga. Stórverzlanir eru opnar samfellt yfir daginn, líka laugardaga.
Þjórfé
Þjónusta er innifalin í reikningum veitingahúsa. Sumir skilja eftir klink til viðbótar. Burðarmenn fá 50 peseta fyrir töskuna.
Öryggi
Notaðu ekki handtöskur. Hafðu peninga í fremri buxnavösum eða í belti innan klæða. Notaðu plastkort sem mest. Hafðu skilríki ekki á sama stað og peninga. Skildu ekki eftir verðmæti í hótelherbergjum eða í læstum bílum.
1991
© Jónas Kristjánsson