Maður ársins veldur því, að Bandaríkjamenn þurfa að fara úr skóm og beltum í öryggiseftirliti, þegar þeir fara um borð í flugvél. Hann hefur líka gert pyndingar og ofbeldi að tækjum stjórnvalda í Bandaríkjunum og breytt þeim úr vestrænu ríki laga og réttar í ríki geðþóttaákvarðana framkvæmdavaldsins.
Hér er ekki beinlínis verið að tala um George W. Bush forseta, heldur hinn hryðjuverkahöfðingjann, Osama bin Laden, sem enn er ófundinn, þegar þetta er skrifað. Óbeint stýrir hann breyttri utanríkisstefnu Bandaríkjanna og hefur breytt heimsveldinu í spegilmynd hryðjuverkasamtakanna.
Osama bin Laden er talinn hafast við í afskekktu héraði Pakistans nálægt landamærum Afganistans. Þar dvelst hann í ríki, sem er viðurkennt sem staðfast stuðningsríki í stríði Bandaríkjanna gegn hryðjuverkasamtökum. Lengra er tæpast hægt að ganga í ögrun við það langvinna og vonlitla stríð.
Þótt nokkrir stuðningsmenn Osama hafi verið teknir höndum, hafa þúsund nýir stuðningsmenn komið í stað hvers þeirra, því að viðbrögð Bush hafa verið hastarleg. Þeir eru meira að segja farnir að láta að sér kveða í Írak, þar sem þeir voru alls ekki, þegar stríð Bandaríkjanna gegn landinu hófst.
Helzta markmið Osama er að hrekja bandaríska hermenn frá Sádi-Arabíu, hinu helga landi spámannsins. Bandaríkin hafa orðið við því, eru að flytja herinn til furstadæma við Persaflóa af ótta við hryðjuverk í mjög svo heittrúaðri Arabíu. Einnig þannig stýrir Osama gerðum Bandaríkjanna.
Osama hefur knúið Bandaríkin til að taka upp stefnu æðis í hernaði og utanríkismálum og gert þau svo óvinsæl í Evrópu, að meirihluti manna þar telur Bandaríkin vera mestu ógnun við heimsfriðinn um þessar mundir, meiri ógnun en Osama sjálfur. Það er ekki lítið afrek landflótta gamalmennis.
Osama hefur hagað málum svo, að Bandaríkin geta ekki lengur treyst á stuðning Evrópuríkja. Spánverjar eru hættir og Pólverjar eru að draga saman seglin. Í staðinn hafa komið staðfastir stuðningsmenn á borð við geðbilaða ráðamenn í Úsbekistan, Túrkmenistan, Tadsikistan og Kirgistan.
Maður ársins hefur klofið Vesturlönd í herðar niður. Nú talar enginn lengur um vestrænt samstarf. Talað er sér um Bandaríkin og sér um Evrópu, þar sem allur almenningur hefur sagt siðferðilega skilið við Bandaríkin, einnig í löndum á borð við hin staðföstu ríki Bretlands, Ítalíu og Póllands.
George W. Bush er bara tæki í höndum Osama bin Laden. Sá síðarnefndi á skilið að vera útnefndur maður ársins fyrir að hafa með lítilli fyrirhöfn rekið Bandaríkin í feigðarflan.
Jónas Kristjánsson
DV