Mafían sækir fram

Greinar

Daginn eftir síðustu kosningahelgi gaf landbúnaðarráðherra út grænmetisreglugerð, sem þrengdi verulega rétt neytenda frá því, sem lög gera ráð fyrir. Eftir þessum nýju starfsreglum er nú verið að vinna til að endurreisa fyrri einkasölu í hertri og grimmari mynd.

Athyglisvert er, að ráðherra skyldi velja mánudaginn eftir kosningar til að setja reglur, sem taka til baka hinn tímabundna ávinning, er neytendur náðu, þegar djarfir heildsalar rufu kartöflueinokun Grænmetisverzlunar ríkisins eftir fræga, finnska kartöfluævintýrið.

Þannig malar kerfið hægt, en örugglega. Það reynir að gefa sem minnst eftir, þegar hneykslismálin eru komin í forsíðufréttir. Þegar svo storminn lægir, fer samsæri landbúnaðarkerfisins aftur í gang til að geta afturkallað ávinninginn, þegar búið er að telja atkvæði neytenda.

Þegar boðað er til blaðamannafundar út af haugakjöti, er hann haldinn hjá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga. Þar hefur Landbúnaðarráðuneytið orð fyrir mafíunni, en fulltrúar Búnaðarfélags, Stéttarsambands og Framleiðsluráðs fylla fjölskyldumyndina.

Þannig er mafían ein og heil, hvaða nafni sem hún nefnist eftir aðstæðum hverju sinni. Hún fyrirlítur neytendur og skattgreiðendur og telur tilverugrundvöll þeirra vera þann einan að standa undir andstyggilegu búvörukerfi, sem heldur þjóðinni í sífelldum fjárskorti.

Ekki hefur tekizt að gera gælufyrirtækin Ísfugl og Ísegg að fullgildum félögum í einkasölukerfi land búnaðarins. Það stafar þó ekki af, að haldið hafi verið uppi nægum vörnum fyrir neytendur, heldur hreinlega af, að fyrirtækin eru svo illa rekin, að með eindæmum er.

Hins vegar hefur tekizt að gera Sölufélag garðyrkjumanna að verðugum arftaka Grænmetisverzlunar landbúnaðarins í mafíunni. Í skjóli reglugerðar ráðherrans hefur félaginu tekizt að kúga og knýja framleiðendur til að skríða undir verndarvæng einokunarinnar.

Neytendur hafa ef til vill tekið eftir, að súlurit DV um grænmetisverð sýna, að í sumar hefur að verulegu leyti lagzt niður samkeppni í grænmetisverði. Hún hefur verið nokkurn veginn afnumin í framleiðslu og heildsölu og hefur því lítið svigrúm í smásölunni einni.

Afleiðingarnar eru margar og meðal annars sú, að neytendur borga kúafóður á borð við hvítkál á 80 krónur kílóið eða á svipuðu verði og kílóið af eplum. Auðvitað leiðir þetta til, að neytendur kaupa frekar epli og mafían verður að fleygja vöru sinni á haugana.

Starfsreglur ráðherrans miða líka að því, að framvegis megi banna innflutning á grænmeti, þótt sama tegund sé ekki framleidd innanlands, heldur hliðstæð tegund. Þannig má banna innflutning á hrísgrjónum, ef kartöflur seljast illa. Þetta mun hann reyna næst.

Lygin er mikilvægur hornsteinn þessa kerfis. Sama daginn og talsmaður mafíunnar sagði ekki koma til greina, að tómötum yrði fleygt á haugana, gat DV náð ljósmynd af þeim hinum sama verknaði. Og mafían notar núna orðið “markaður” yfir einokunarkerfið.

Neytendur hafa litla vörn. Stjórnmálaflokkarnir styðja mafíuna allir sem einn. Verðlagsstjóri vísar frá sér öllu, sem varðar hina heilögu kú, landbúnaðinn. Neytendasamtökin hafa ekki bolmagn til mikillar baráttu, en þau reyna þó að klóra í bakkann eftir beztu getu.

Ef neytendur vildu losna úr þrældómnum, gætu þeir þó sameinazt um að neita alveg að kaupa vörur mafíunnar. Það gera þeir þó ekki og því versnar ástandið.

Jónas Kristjánsson

DV