Málamiðlun um lénsherrahag

Greinar

Nefnd um ný lífeyrislög náði vondu samkomulagi um helgina. Frumvarpið, sem kemur frá henni, gætir fyrst og fremst rótgróinna hagsmuna lífeyrissjóðanna. Það hrindir ekki af stað þeirri samkeppni, sem þarf að vera milli sjóða til þess að þeir nái árangri í rekstri.

Það eina góða við samkomulagið er, að það varðveitir þá meginhugsun gamla kerfisins, að lífeyrir veiti sameiginlega tryggingavernd, hvort sem menn eiga stutt eða langt ævikvöld og hvort sem þeir verða öryrkjar eða ekki. Upp að vissu marki gildir þessi hugsun áfram.

Þegar náð hefur verið greiðslustigi, sem felur í sér rétt til lágmarkslífeyris upp á 56% af launum, geta lífeyrissjóðir boðið félagsmönnum fjölbreyttari lífeyri fyrir þær iðgjaldagreiðslur, sem umfram eru. Sá lífeyrir getur verið í séreignaformi, sem hefur rutt sér til rúms.

Frumvarpið gerir hins vegar fólki ekki kleift að velja milli lífeyrissjóða. Hver sjóður mun áfram einoka sína stétt. Þannig geta sjóðir starfað áfram, þótt þeir hafi langtum lakari ávöxtun og langtum hærri rekstrarkostnað en aðrir sjóðir. Fólk getur ekki flutt sig annað.

Meðalávöxtun sjóða er misjöfn. Lakastur er Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbankans, sem nær 3% ávöxtun. Beztur er Lífeyrissjóðurinn Hlíf, sem nær 9,7% ávöxtun. Hann er rúmlega þrisvar sinnum betri en hinn. Svona munur þrífst eingöngu í lénsherrakerfi.

Athyglisvert er, að stórir sjóðir, sem eru áberandi í þjóðfélaginu og eru stundum taldir hafa staðið sig vel, hafa aðeins náð meðaltalsárangri í ávöxtun. Þannig er Lífeyrissjóður verzlunarmanna í miðjum hópi með 6,9% ávöxtun og ætti að geta staðið sig betur.

Munurinn á rekstrarkostnaði er enn hrikalegri. Lífeyrissjóður framreiðslumanna er einna lakastur. Hann ver 17% af tekjum sínum í rekstrarkostnað. Einna beztur er Eftirlaunasjóður starfsmanna Búnaðarbankans, sem ver aðeins 0,7% tekna sinna í rekstrarkostnað.

Athyglisvert er, að stórir sjóðir, sem ættu í skjóli stærðar sinnar og starfslengdar að hafa lágt hlutfall rekstrarkostnaðar, sigla raunar í miðjum flokki sjóðanna. Þannig ver áðurnefndur Lífeyrissjóður verzlunarmanna 2,6% af tekjum sínum í rekstrarkostnað

Lífeyrir okkar ætti auðvitað að safnast upp í sjóðum, sem finna góða ávöxtun sparifjár og hafa lítinn rekstrarkostnað. Eftirlaun mundu stórhækka, ef þau væru fremur ávöxtuð í sjóðum, sem eru á 8­10% ávöxtunarbili, heldur en í þeim, sem eru á 3­6% ávöxtunarbili.

Ef fólk gæti valið milli sjóða, mundu lélegu sjóðirnar skyndilega vakna til lífsins og bæta stöðu sína til að halda viðskiptavinum. Þannig vinna markaðslögmálin að hagsbótum allra, sem fá aðgang að þeim. En lífeyrisnefndin neitar okkur um slíkan aðgang.

Birting samanburðartalna, sem sýna misjafnan árangur sjóðastjóra, kemur að nokkru gagni, en takmörkuðu. Sjóðfélagar í lélegum sjóðum geta látið gremju sína bitna á sjóðstjórnarmönnum, en þeir geta ekki greitt atkvæði með því að færa sig annað.

Nefndarmönnum lífeyrisfrumvarpsins var kunnugt um hinn hrikalega mun lífeyrissjóðanna, þegar þeir ákváðu að standa vörð um lénsskipulagið, sem er forsenda lélegs árangurs sumra sjóða. Samt ákváðu þeir að vernda rótgróna hagsmuni skussanna við stjórnvölinn.

Nefndin hafði tækifæri til að spara þjóðinni mikið fé og afla henni mikils fjár. Hún lét tækifærið renna sér úr greipum. Hún náði málamiðlun um lénsherrahag.

Jónas Kristjánsson

DV