Málflutningur hefjist strax

Greinar

Utanríkisráðherra Íslands hefur ferðazt meira og talað meira út af minna tilefni en aðgerðum norskra strandgæzluskipa á hafsvæðinu umhverfis Svalbarða. Forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra hafa gengið harðar til verks í léttvægari málum en þessu.

Meðan ríkisstjórnin heldur að sér höndum, er ekki hægt að búast við öðru en samfelldum ósigri í deilunni við Norðmenn um sjósókn í Smugunni og við Svalbarða. Eðlilegt er, að ríkisstjórnin vilji fara varlega, en hún getur þó flutt og látið flytja málið af einurð.

Þorskastríð Íslendinga við Breta einkenndust af stöðugum málflutningi Íslendinga, einkum gagnvart brezkum fjölmiðlum. Margir stóðu sig afar vel á því sviði, til dæmis Helgi Ágústsson sendiherra, sem þá var sendifulltrúi í London. Þessi áróður holaði steininn.

Fjölmiðlar í Bretlandi sögðu frá röksemdum, sem komu fram í þessum málflutningi af Íslands hálfu. Margir Bretar fóru að efast um, að brezki málstaðurinn væri hinn eini rétti. Þetta leiddi smám saman til þess, að brezk stjórnvöld gátu ekki beitt sér af fullri frekju.

Sams konar málflutningur ætti fyrir löngu að vera kominn í fullan gang. Ef stjórnvöld ætla sér eitthvað með Smuguna og Svalbarða verða þau að stunda málflutning í norskum fjölmiðlum til þess að grafa undan þeirri sannfæringu, sem þar virðist ríkja núna.

Skipta þarf um sendiherra í Osló og setja þar inn mann, sem þekkir fjölmiðla og kann að umgangast þá. Jafnframt þurfa viðkomandi ráðherrar að gera sér tíðförult til Osló og halda þar blaðamannafundi til að rekja málstað Íslendinga og setja göt á norskar röksemdir.

Meðal atriða, sem hægt er að undirstrika um þessar mundir, er, að norska ríkisstjórnin treystir sér ekki til að flytja íslenzku veiðiskipin til hafnar og kæra skipstjórnarmenn fyrir brot á norskum lögum. Í stað þess fer hún fram með hættulegu ofbeldi á miðunum.

Klippingar norskra varðskipa eru ekki sambærilegar við klippingar íslenzkra varðskipa í þorskastríðunum. Þá gátu íslenzk varðskip ekki fært brezka togara til hafnar vegna aðgerða brezka sjóhersins. Við Svalbarða er enginn íslenzkur sjóher til að hindra töku togara.

Í þeirri stöðu, að ekki var hægt að koma af stað réttarfarslegu ferli, voru klippingar íslenzku varðskipanna neyðarúrræði. Klippingar norsku varðskipanna eru hins vegar ekki neyðarúrræði, af því að yfirmenn þeirra hafa ekki reynt að koma skipstjórnarmönnum fyrir dóm.

Þegar gangur réttvísinnar byrjar, er óhjákvæmilegt að hann endi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Norðmenn og Íslendingar hafa undirritað skuldbindingar um að hlíta úrskurði hans á sviðum sem þessu. Svo virðist sem norska ríkisstjórnin þori ekki að hefja það ferli.

Ef íslenzk stjórnvöld og sérfræðingar þeirra telja, að málstaður íslenzku togaranna í Smugunni eða við Svalbarða sé góður, eiga þau að vinna öllum árum að því að koma málunum fyrir alþjóðlegan dómstól, þar sem frekjugangurinn í Norðmönnum hefur ekkert vægi.

Með því að hefja málflutninginn nú þegar og beina honum að norskum fjölmiðlum, er hægt að láta þá hugmynd síast inn í Noregi, að skynsamlegt sé að leysa þessa deilu fyrir þar til gerðum dómstóli í stað þess að fara fram með lífshættulegum dólgshætti á opnu úthafinu.

Forsætis-, utanríkis- og sjávarútvegsráðherra Íslands skulda þjóðinni skýringar á, hvers vegna þessi leið er ekki farin og hvers vegna þeir eru eins og í álögum.

Jónas Kristjánsson

DV