Málleysi og ríkidæmi.

Greinar

Marcos Filippseyjaforseti er að reyna að þvælast fyrir heiðarlegum forsetakosningum í landinu, þrátt fyrir þrýsting frá Bandaríkjastjórn. Hann vill áfram fá að mergsjúga þjóðina og safna hundruðum milljóna á erlenda bankareikninga sína og helztu vildarvina. Sjaldan er auðvelt að hemja fólk, sem kemst til valda.

Marcos er í langri röð rummungsþjófa og morðingja, sem hafa komizt til valda hér og þar í heiminum fyrir meiri eða minni stuðning Bandaríkjanna. Annar stórþjófur í nágrenninu er Suharto lndónesíuforseti, einn helzti fjöldamorðingi, sem nú er uppi.

Löng var harmsagan í Suður-Vietnam, þar sem Bandaríkin komu til valda hverju illmenninu á fætur öðru. Þeir köstuðu ríkinu þar með í fang ógnarstjórnar Norður-Vietnan, sem hefur síðan gerzt fjölþreifin víðar um lndókína.

Verst hafa Bandaríkin komið fram í Mið- og Suður-Ameríku, þar sem þau hafa áratugum saman stutt þjófa og glæpamenn til valda. Duvalier á Haiti, Batista á Kúbu og Somoza í Nicaragua eru einna frægustu dæmin. Þá hafa Bandaríkin stuðlað að illræmdum herforingjastjórnum, svo sem var í Argentínu til skamms tíma og er enn í Chile.

Nauðsynlegt er, að stjórnmálamenn og embættismenn Bandaríkjanna reyni að gera sér grein fyrir, hvernig standi á þessum ósköpum, sem stinga í stúf við hefðir lýðræðis og fjármála í Bandaríkjunum sjálfum. Einnig þurfa bandamenn þeirra að gera sér grein fyrir þessu.

Fulltrúar Bandaríkjanna í utanríkismálum, hermálum og á öðrum sviðum tala yfirleitt ekki í útlöndum mál heimamanna og eiga því erfiðara en ella með að átta sig á aðstæðum. Þar við bætist, að Bandaríkin og fulltrúar þeirra hafa áratugum saman haft meira fé milli handa en gengur og gerist í öðrum löndum.

Þetta hefur sogað að þeim fólk, sem sameinar hundseðli, peningagræðgi og ófyrirleitni. Þessum jámönnum tekst oft að efla misskilning fulltrúa Bandaríkjanna á stöðu mála í öðrum ríkjum. Og sem jámönnum tekst þeim oft að auka völd sín með stuðningi Bandaríkjanna.

Um leið og fulltrúar Bandaríkjanna nota jámennina til að efla áhrif sín til skamms tíma, sjá þeir oft galla þeirra og fyrirlíta þá undir niðri. Þetta álit yfirfæra þeir svo á þjóðina í landinu í heild. Þannig hættir þeim til að vanmeta erlendar þjóðir.

Við sjáum þetta hér á landi, að vísu í tiltölulega mildri útgáfu. Frá upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar hefur sogazt að bandarísku herliði ýmis óværa, sem bezt lýsir sér í langvinnu hermangi. Skyldu ekki margir yfirmenn á Vellinum hafa, vegna ákveðinna dæma, litið á Íslendinga sem þjófótta?

Á liðnum áratugum hafa verið hér margir bandarískir sendimenn, sem hafa hvorki þekkt tunguna né þjóðina og aðeins umgengist þröngan hóp jámanna, sumra hverra lítilla sæva. Slíkir sendimenn hljóta að fá skekkta mynd af Íslendingum sem bandamönnum.

Vandinn hér á landi hefur verið sáralítill í samanburði við þriðja heiminn, þar sem fátækt er almenn, lýðræði hartnær óþekkt og lífsbaráttan grimm. Við fáum því aldrei neinn Marcos, Ky, Doe eða Duvalier. En rót vandans er eigi að síður nokkurn veginn hin sama, málleysi og ríkidæmi Bandaríkjamanna.

Jónas Kristjánsson.

DV