Málsgrein og myndskot

Greinar

“Ekki er ofmælt, að það sé lýðræðinu hættulegt, ef fólk treystir á sjónvarp sem helzta fréttamiðil sinn,” segir Walter Cronkite sjónvarpsstjarna í sjálfsævisögu sinni, þar sem hann fer rækilega yfir feril sinn sem frægasti fréttastjóri og fréttaþulur í sögu sjónvarpsins.

Í ævisögunni rekur Cronkite, hvernig sjónvarpsfréttir í Bandaríkjunum hafa smám saman verið að breytast úr upplýsingum yfir í að vera dægrastytting eins og annað sjónvarpsefni. Reynsla hans skiptir okkur máli, því að nýbreytni í vestri flytzt oftast austur um haf.

Cronkite bendir á, að hálftíma sjónvarpsfréttir flytji fólki “fáránlega lítið fréttamagn”, það er svipað fréttamagn og tveir þriðju hlutar úr einni síðu í erlendu dagblaði, sem jafngildir tæplega hálfri annarri síðu í dagblaði af þeirri síðustærð, sem við þekkjum hér á landi.

Fréttir bandarískra sjónvarpsstöðva hafa minnkað niður í “soundbite” og “photo opportunity”, það er að segja málsgrein og myndskot. Þetta sést vel í kosningabaráttu, þar sem spunastjórar forsetaefnanna gefa sjónvarpinu færi á einni málsgrein og einu myndskoti á dag.

Forsetaefnin haga ferðum sínum á þann hátt, að á hæfilegum tíma dagsins fyrir sjónvarpsfréttir kvöldsins gefa þeir færi á að mynda sig við einar heppilegar kringumstæður, þar sem þeir slá fram einni málsgrein, sem spunastjórarnir telja skipta máli þann daginn.

Árið 1992 var þessi breyting sjónvarpsfrétta svo langt leidd í Bandaríkjunum, að allra lengsta beina tilvitnun sjónvarpsfréttar í málflutning forsetaframbjóðanda nam átta sekúndum. Þið getið prófað þetta sjálf og reynt að segja eitthvað af viti á átta sekúndum.

Samhliða þessum samdrætti upplýsingamagns hefur fréttainnihaldið breytzt. Ekki er lengur fjallað um málefni og rök, heldur meintan persónuleika. Í fyrrahaust var endalaust fjallað um, hvort frambjóðandinn Bush væri heimskur og frambjóðandinn Gore væri ýkinn.

Af notkun bandarískra sjónvarpsfrétta hefði maður getað haldið, að Bush væri sífellt einni málvillu frá heimskunni og Gore væri einni hagtöluvillu frá lyginni. Fréttaflutningurinn snerist meira eða minna um samanburð við fyrri væntingar sjónvarpsfrétta um persónubresti.

Þannig hafa stjórnmálafréttir sjónvarps verið að færast í sama farveg og sjónvarpsfréttir af frægðarfólki á borð við kvikmyndaleikara. Fréttaneytendur þykjast vita allt um persónusögu þeirra, persónubresti og fjölskyldulíf, en vita ekkert um, hvað þeir muni gera á valdastóli.

Þetta þrengir sjóndeildarhring þeirra Bandaríkjamanna, sem eingöngu nota sjónvarp sem fréttamiðil. Hinir, sem nota dagblöð og fréttatímarit, hafa aðgang að miklu meiri breidd upplýsinga, þar sem bæði magn og gæði fara langt fram úr því, sem sést í sjónvarpi.

Það kostulega er svo, að sérhæfing sjónvarpsins í persónum frekar en málefnum leiðir ekki til aukins skilnings notenda á persónum sjónvarpsfréttanna. Dæmin hrannast upp um, að persónur stjórnmálamanna eru meira eða minna ímyndir, framleiddar af spunastjórum þeirra.

Varnaðarorð Cronkite skipta miklu, því að hann varð heimsfrægur einmitt í þessu umhverfi, sem hann gagnrýnir svo hastarlega í ævisögu sinni. Hann bendir þó ekki á neina einfalda leið úr fréttagildru þeirra, sem treysta á sjónvarpið sem helzta fréttamiðil sinn.

Fyrsta skrefið til að losna úr gildrunni er, að fólk átti sig á, að málsgrein og myndskot verða aldrei ígildi fréttar og að persónuímynd verður aldrei ígildi persónu.

Jónas Kristjánsson

DV