Mánasalur

Veitingar

Hinn nýlegi Mánasalur, stolt Sjallans, er sennilega snotrasta og þægilegasta matstofa Akureyrar. Að öðru leyti eykur salurinn ekki matarmenningu norðan fjalla. Hátt verð og metnaðarlaus matreiðsla falla í farveg Smiðjunnar og Hótels Kea. Raunar er Mánasalur dýrastur þessara og matreiðsla hans sjónarmun lakari en Smiðjunnar.

Auðvitað hlýtur að leika vafi á, að rúm sé fyrir þrennt af nokkurn veginn hinu sama á 13.000 manna Akureyri. Og nú eru fínu og dýru staðirnir þar nyrðra orðnir fimm, ef ekki sex, því að Laxdalshús, Laut og jafnvel Kjallarinn hafa bætzt við. Aðsóknin bendir ekki til, að markaður sé fyrir þessi ósköp.

Málverk og skreytingar eru á grænum veggjum hins 60 manna salar, sem liggur um hús þvert, með gluggum til beggja átta. Efst á veggjum eru speglar og í loftum bæði ljósakrónur og speglunarperur. Rautt teppi er á gólfi, svo og lítill parkettflötur. Notalegur, lítill bar er fyrir miðjum langvegg. Armstólarnir eru þægilegir. Snyrtilegir, rauðir dúkar og reisuleg, fersk blóm voru á borðum.

Flygill er á staðnum og leikin matartónlist 19-22, annan hvern hálftíma, því að píanistinn hefur líka kjallarann á herðunum á sama tíma. Oft er þetta Ingimar Eydal, sómi staðarins.

Mánasalur er stundum frátekinn. Okkur var ekki skýrt frá því, er borð var pantað. Þegar við komum, lentum við fyrst á áhugasnauðum barmanni á jarðhæðinni. Á endanum var okkur og fleira hugsjónafólki vísað í Rauðu stjörnuna, sem er Ingimarslaus og gluggalaus, 24 sæta salur í tengslum við efri hæð hins eiginlega Sjalla. Þar voru kerti og þreytuleg blóm á slitnum borðdúkum. Spegilveggur á aðra langhliðina og glerveggur á hina kom í veg fyrir innilokunarkennd. Í næstu atrennu fengum við svo aðgang að Mánasal.

Í öll skiptir var þjónusta mjög góð. Hún var raunar heldur betri en í Smiðjunni og á Hótel Kea, að henni öldungis ólastaðri á síðarnefndu stöðunum. Í Mánasal fór saman skólagengin fagþekking og eðlislæg og fumlaus háttvísi. En annir voru líka engar. Í hádeginu var raunar alls ekkert að gera.

Versnandi matseðill

Eldhúsið er hið sama fyrir alla veitingasali Sjallans. Sambúð við dansstaði um eldhús er sjaldan af hinu góða. Sérstakur matseðill er fyrir Mánasal. Hann var fyrst handskrifaður og virtist breytast milli daga. Þá var hann mjög stuttur, með níu réttum, þar af aðeins fjórum aðalréttum og einum eftirrétti. Slíkir matseðlar eru girnilegri en langir, því að þeir gefa í skyn, að kokkurinn kunni fleira en færa mat úr frystikistu í örbylgjuofn.

Nú er kominn langur matseðill með tólf forréttum, ellefu aðalréttum og sex eftirréttum. Þetta virðist vera fastur seðill, eins í hádegi og að kvöldi. Ekki er, svo ég viti, boðið upp á neina rétti dagsins eftir árstíðum og aflabrögðum. Fátt er spennandi á þessum seðli, helzt sérríbætt Kínasúpa, silungssúpa með saffran, gufusoðinn silungur og rabarbaraís.

Í staðinn er nokkuð af gamalkunnum og lítt frumlegum réttum á borð við franska lauksúpu, síldartríó, graflax, ostgljáða hörpuskel, dósasnigla, pönnusteikta stórlúðu, blandaða sjávarrétti, grillsteiktar lambalundir, mínútusteik, turnbauta, vanilluís og djúpsteiktan camembert.

Vínlistinn er kapítuli út af fyrir sig, hinn ómerkilegasti, sem ég hef séð á Akureyri. Hann byggðist á Liebfraumilch og Beaujolais í ýmsum útgáfum. Ekkert drykkjarhæft hvítvín fann ég þar, en meðal rauðvínanna var blessunarlega til Chateau de Saint Laurent.

Matreiðslan rokkaði nokkuð upp og niður. Það trausta var hrásalatið. Í eitt skiptið einkenndist það af lauk og karrí, í annað skipti af olífum og ediki. Á þessu sviði virtist eldhúsið þora að víkja frá hinu hversdagslega. Þá var smjörið jafnan borið fram á ís, en ekki í hinum hvimleiða álpappír, sem er í tízku annars staðar á Akureyri og raunar víðar. Loks var kaffið jafnan gott, borið fram með konfektmolum.

Segja má, að brauðið hafi verið dæmigert fyrir metnaðarleysið í eldhúsinu. Í eitt skipti var borið fram ágætt, þrenns konar brauð, en í annað skipti gamlar heilhveitiflautur. Á svipaðan hátt voru súpurnar stundum góðar og stundum vondar, kjötið stundum gott og stundum vont.

Ýmsar súpur í dulargervi

Silungssúpa með saffran var ágætis súpa, en var í rauninni humarsúpa í dulargervi. Ennfremur reyndist hvítvínsbætta humarsúpan ekki vera humarsúpa, heldur rækjusúpa í dulargervi, full af þurrum rækjum, sem höfðu dvalizt of lengi í súpunni.

Sérríbætt Kínasúpa reyndist vera góð, tær súpa, með nokkuð flóknu ívafi káls, maís og svínakjöts, svo og skemmtilegu ostabrauði til hliðar. Skelfisksúpa var í góðu meðallagi, hæfilega mild súpa með humri, rækjum, hörpudiski og dósasveppum.

Grillsteiktur silungur var áferðarfallegur, en þurr undir tönn og án silungsbragðs, svo sem oft er raunin með fisk, er flytzt úr frysti í örbylgjuofn. Að því leyti minnti hann á annan fisk, sem eldhúsið afgreiddi til Kjallarans. Til að bæta gráu ofan á svart var gífurlegt magn af ofsoðnu brokkáli borið fram með silungsgreyinu.

Steiktar lambalundir áttu að vera lítið steiktar, en reyndust vera miðlungi steiktar. Sem slíkar voru þær frambærilegar, en að þessu sinni fólst hið gráa ofan á svart í miklu magni af ofsoðnu og ólystugu rósakáli.

Koníakssteikti turnbautinn var hæfilega hrásteiktur, borinn fram með dósasveppum og hrúgu af ofsoðnu brokkáli. Hin mjög svo bragðsterka rauðvínssósa fékk fljótlega á sig ólystuga hveitiskán.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku af Chateau de Saint Laurent var 1.357 krónur á mann, sem er allt of dýrt, um 100 krónum dýrara en í Smiðjunni og Kea, sem líka eru of dýrir staðir. Engir réttir dagsins með milduðu verði bættu úr skák Mánasalar, ekki einu sinni í hádeginu.

Með þessu verði getur Mánasalur ekki keppt við Smiðjuna í hádeginu. Vegna innréttinga og þjónustu gæti hann gert það á kvöldin, ef matreiðslunni væri kippt í lag. En Mánasalur liggur ekki eins vel við aðkomufólki og verður því frekar að treysta á heimamenn. Og þeir voru lítið farnir að láta sjá sig, þegar ég leit þar síðast inn. Enda geta þeir alveg eins borðað betur og ódýrar heima hjá sér.

Jónas Kristjánsson

Matseðill:
235 Gratineruð frönsk lauksúpa
198 Sérríbætt Kínasúpa
246 Koníaksbætt skelfisksúpa
250 Sniglasúpa að hætti Sjallans
330 Síldartríó með grófu brauði
345 Reyktur lax með ferskum sveppum og piparrótarsósu
215 Kavíar með hrárri eggjarauðu og lauk
370 Grafinn lax með dillsósu
340 Ostgljáð hörpuskel með ristuðu brauði
370 Hvítlauksgljáðir sniglar með brauði
600 Pönnusteiktur humar í raspi og hvítlauk
440 Pönnusteikt stórlúða með tómötum og piparrótarsmjöri
475 Gufusoðinn silungur með grænmeti og rjómasósu
530 Soðinn lax með tómatsmjöri og sýrðum gúrkum
455 Grillsteikt rauðspretta með rósapipar og vínberjum
585 Blandaður sjávarréttadiskur
940 Pönnusteiktur humar í raspi og hvítlauk
670 Grillsteiktar lambalundir með djúpsteiktum tómat og mintusósu
540 Kalt hangikjöt með rjómasoðnum kartöflum
765 Gráðostfyllt svínamörbráð, steikt í sinnepi með grænpiparsósu
845 Mínútusteik með smjörristuðum sveppum og Maitre d’Hotel smjöri
870 Koníakssteiktur turnbauti með rósapipar og rauðvínssósu
170 Vanilluís með súkkulaðisósu
185 Rabarbaraís með rjóma
185 Bananaís með bláberjasósu
230 Blandaðir úrvalsostar
225 Djúpsteiktur camembert með ávaxtahlaupi
120 Skyr með rjóma

DV