Mandarínar töpuðu

Greinar

Danskir kjósendur höfnuðu á lýðræðislegan hátt að færa meira vald frá lýðræðisríki sínu í Danmörku yfir til hins ólýðræðislega Evrópusamfélags í Bruxelles. Þetta er mikill ósigur fyrir mandarínana í samfélaginu, því að vitað er, að Bretar eru sama sinnis og Danir.

Bretar og Danir eiga ekki heima í hinu miðstýrða og ólýðræðislega samfélagi, sem reynt er að þróa í Bruxelles. Þeirra hefðir eru aðrar. Hið sama má raunar segja um Þjóðverja, sem síðustu áratugi hafa þróað svipað lýðræði og er í engilsaxneskum og norrænum löndum.

Þótt Evrópusamfélagið sé efnahagslega öflugt, er það afturför frá vestrænni lýðræðisþróun. Í stað þingræðis aðildarríkjanna er að koma embættis- og ráðherraræði samfélagsins. Þessa þróun vildu mandarínar samfélagsins efla með þeirri skipan, sem Danir felldu.

Þing samfélagsins er næstum alveg valdalaus stofnun, sem má ekki skipa valdamenn og setja af, getur ekki haft frumkvæði að málum og má ekki fjalla um öll verk embættismanna og ráðherra. Engin teikn eru á lofti um, að þingið fái hefðbundið lýðræðishlutverk.

Samkvæmt Maastricht-samkomulagi mandarína Evrópu stóð til að bæta ofan á þetta sameiginlegri Evrópumynt, sameiginlegri utanríkisstefnu og sameiginlegri varnastefnu. Þetta felldu Danir með miklum sóma og tala fyrir munn grasrótar Norðvestur-Evrópu.

Evrópusamfélagið er franskt fyrirbæri með mikilli miðstýringu af hálfu embættismanna og ráðherra. Beinagrind þess er í andstöðu við lýðræðishefðir engilsaxneskra og norrænna ríkja. Þar á ofan hefur það reynzt ofbeldishneigt í samskiptum við umheiminn.

Evrópusamfélagið hefur reynzt okkur harðdrægt í viðræðum um sjávarútveg og fiskvinnslu. Það hefur líka reynzt öðrum harðdrægt, svo sem Bandaríkjamönnum og Japönum. Það stendur til dæmis þversum fyrir samkomulagi um aukið viðskiptafrelsi í heiminum.

Harka evrópskra mandarína er ekki í þágu evrópskra neytenda eða skattgreiðenda, heldur er hún á kostnað þeirra. Vöruverði og sköttum er haldið uppi í Evrópu til að þjóna hagsmunum landbúnaðar, ýmissa stórfyrirtækja og voldugra þrýstihópa, sem óttast samkeppni.

Dæmigert fyrir frekjuna í mandarínum Evrópusamfélagsins er, að þeir hafa nú uppi hótanir í garð Dana um, að þeir verði skildir eftir. Er þó ljóst, að stjórnarskrá samfélagsins, Rómarsáttmálanum, verður ekki breytt án þess, að öll aðildarríkin samþykki það.

Ef mandarínar Evrópusamfélagsins vilja sameiginlega mynt, sameiginlega utanríkisstefnu og sameiginlega varnarstefnu framhjá Rómarsáttmálanum, verða þeir að stofna nýtt bandalag um það. Hótanir þeirra í garð Dana eru því að mestu leyti máttlaus reiðilestur.

Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusamfélagsins, er helzti hugmyndafræðingur og baráttumaður miðstýringarstefnu Maastricht-samkomulagsins. Eðlilegt er, að eftir þennan ósigur verði hann dæmdur af verkum sínum og látinn víkja við næsta tækifæri.

Evrópska efnahagssvæðið, sem nýlega var samið um, felur í sér helztu kosti Evrópusamfélagsins og fáa galla þess. Það felur í sér markaðshyggju í stað miðstýringar. Það magnar gróða þjóðanna af frjálsari verzlun, en fjötrar þær ekki í pólitískt valdabrölt mandarína.

Sigur Dana í þjóðaratkvæðagreiðslu þeirra er um leið sigur markaðshyggju Evrópska efnhagssvæðisins og ósigur miðstýringar mandarína Evrópusamfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV