Manndrápslónið

Greinar

Aðstandendur Bláa lónsins hafa ekki reynzt færir um að reka það á frambærilegan hátt. Þeir hafa ekki tekið mark á óhugnanlega tíðum dauðsföllum í lóninu og ekki sinnt til frambúðar kröfum heilbrigðisyfirvalda og löggæzlu um aukið öryggiseftirlit við lónið.

Mikilvægt er, að öryggi sé í fullkomnu lagi við Bláa lónið. Það er orðið að mikilvægum þætti í kynningu landsins á erlendum vettvangi. Erlendir ferðamenn eru hvattir til að fara í lónið og kynnast dulúð þess og heilsumögnun. Árlega koma þar 130.000 erlendir ferðamenn.

Aðstaða við lónið fyrir þetta fólk og aðra ber öll merki bráðabirgða, þar með talinn öryggisbúnaður. Greinilegt er, að varfærin og dýr langtímasjónarmið eru ekki höfð í heiðri, heldur ráða skammtíma gróðasjónarmið ferðinni. Slíkt getur leitt til, að gulleggið brotni.

Mannheld girðing umhverfis lónið lá niðri að hluta, þegar þar varð síðasta dauðaslysið um mánaðamótin. Enginn vaktmaður er þar á ferli utan notkunartímans. Gæzlumenn á annatímum eru of fáir. Leiðbeiningar fyrir baðgesti eru ekki nógu gagnorðar og sýnilegar.

Fjórum sinnum fleiri koma í Laugardalslaug en Bláa lónið. Á fyrri staðnum hafa orðið þrjú dauðsföll á þremur áratugum. Ef ástandið væri eins í Bláa lóninu, yrði þar eitt dauðsfall á fjögurra áratuga fresti, en ekki átta dauðsföll á 14 árum. Munur baðstaðanna er þrítugfaldur.

Vegna gufu og litar vatnsins koma neðanvatnsmyndavélar og útsýnisturnar að litlu gagni við Bláa lónið. Það þýðir ekki, að menn geti fórnað höndum og stungið þeim síðan í vasann, heldur verður að fara gamalkunnar leiðir við aðvarnir og gæzlu á hættulegum stöðum.

Formaður heilbrigðisnefndar Suðurnesja segist telja, að ráðamenn Bláa lónsins “taki gildandi reglur ekki nægilega alvarlega”. Talsmaður lögreglunnar í Grindavík segist telja, að “slakað hafi verið á kröfunum”. Viðhorfin, sem þeir lýsa, hafa kostað allt of mörg mannslíf.

Lán er, að ekki skuli hafa orðið málaferli af hálfu aðstandenda hinna látnu. Ef einn hinna látnu útlendinga væri Bandaríkjamaður, hefði her þarlendra lögmanna tekið að sér að reka dómsmál gegn erlendu ferðaskrifstofunni, flugfélaginu og aðstandendum Bláa lónsins.

Fá þarf að Bláa lóninu traustari rekstraraðila með langtímasjónarmið í huga. Þeir þurfa að leggja fram töluvert fjármagn til að reisa vandaða og varanlega aðstöðu í stað bráðabirgða-aðstöðunnar og einkum þó til að koma öryggismálum staðarins í sómasamlegt horf.

Þegar þannig er hugsað til framtíðar, þýðir það um leið, að enginn arður verður af rekstri Bláa lónsins fyrstu árin, meðan verið er að koma málum í öruggt og sómasamlegt horf. En því miður er það landlæg árátta hér á landi að ætlast til, að gróðinn komi hér og nú.

Þannig springur íslenzkt framtak oft á limminu. Þannig höfum við til dæmis ekki getað haldið mörkuðum, sem við höfum aflað okkur í útlöndum fyrir sjávarafurðir. Ekki er tekið nægilegt tillit til vandamála, sem upp geta komið, svo sem í langtíma afhendingaröryggi.

Auðvitað yrði skelfilegt fyrir ferðamannaþjónustuna í landinu, ef sú skoðun yrði ofan á hjá ráðamönnum erlendra ferðaskrifstofa, að þeir ættu á hættu skaðabótamál, ef þeir mæltu með Íslandsferðum, þar sem hið illræmda manndrápslón gæti orðið einn áfangastaðanna.

Af þeirri ástæðu er brýnt, að tekið sé fram fyrir hendur núverandi rekstraraðila Bláa lónsins og strax gerðar ráðstafanir til að reyna að hindra frekari slys.

Jónas Kristjánsson

DV