Mannrán og mannúð.

Greinar

Gíslataka er orðin svo algengt fyrirbæri, að fréttalesendur eru nánast hættir að taka eftir því. Jafnvel ekki, þegar farþegar í áætlunarflugi eru hafðir í haldi dögum saman, eins og nú hefur gerzt í Beirút, þeim volaða stað, þar sem engin skynsemi virðist þrífast.

Flugrán eru alvarlegasti þáttur þessarar tízku. Óviðkomandi fólk er tekið höndum. Flogið er með það út og suður, undir ógnunum vitstola manna. Fólki er misþyrmt, það er skotið til bana og því fleygt niður á flugbrautina. Slíkt hefur nú gerzt enn einu sinni.

Þetta er fordæmt af öllu venjulegu fólki á Vesturlöndum. En því miður fer óbeitin til lítils, því að vestræn hugsun hefur takmarkaða útbreiðslu. Hugmyndir um mannúð, frelsi og réttlæti eru bundnar við meginhluta Evrópu og ýmis lönd, sem Evrópumenn hafa byggt í öðrum álfum.

Þessi vestrænu sjónarmið eiga sér forngrískar og kristnar rætur. Þau hafa aðeins náð þroska í því samfélagi borgara, sem ríkt hefur á Vesturlöndum í tvær aldir eða skemur. Þessum sjónarmiðum er hafnað víðast annars staðar og þar á meðal í löndum múhameðstrúar.

Íslam er um þessar mundir að rísa upp í vaxandi óhugnaði gegn fyrra ofurefli hinnar vestrænu hugsunar. Villimannlegar refsingar hafa verið teknar upp í vaxandi mæli, bæði í fátækum löndum á borð við Súdan og Pakistan og í ríkum löndum á borð við Saúdi-Arabíu.

Þessi trúarbrögð, sem líta á himnaríki sem eins konar vændishús handa karlmönnum, hafa risið upp gegn hinni vestrænu hugmynd, að konur séu jafnar körlum. Þær megi sækja háskóla, sýna andlit sitt og bera vitni fyrir rétti til jafns við aðra. Þessu fer nú öllu aftur.

Jafnvel í fimm þúsund ára gömlu menningarríki eins og Egyptalandi, þar sem íslam hefur aðeins ríkt einn fimmta hluta tímans, er ofsatrúin á uppleið. Í þessari miðstöð arabískrar menningar, menntunar og lista er frjálslyndið komið á hægfara undanhald.

Hrikalegust hafa þessi sinnaskipti orðið í Íran, hinni sögufrægu Persíu. Þar hafa skítugir, fáfróðir og öfgafullir klerkar verið allsráðandi í nokkur ár. Þeir hafa innleitt ógnarstjórn, sem er margfalt verri en sú, sem þeir leystu af hólmi þegar keisarinn flúði.

Sérkennilegt er svo, að ofstopamenn, sem sjálfir búa ekki yfir neinni mannúð, skuli vita af henni í fari Vesturlandabúa og tefla upp á hana. Það gera þeir til dæmis með því að taka gísla og hóta að drepa þá, ef ekki verði orðið við ýmsum kröfum.

Jafnvel maður í ábyrgðarstöðu eins og Berri, dómsmálaráðherra í Líbanon, heldur verndarhendi yfir glæpamönnunum og tekur óbeint undir kröfur þeirra. Því kemur ekki á óvart, að almenningur í Beirút flykkist út á flugvöll til að taka undir sjónarmið mannræningja.

Á Vesturlöndum hljóta menn að velta fyrir sér spurningum um framhald slíkra mála. Hvað gerist til dæmis, ef ofbeldismenn komast yfir kjarnorkusprengju? Nýlega var bent á, að nægilegt væri að ræna samtímis eðlisfræðistofur fimm bandarískra háskóla til að setja saman sprengju.

Vesturlönd verða að sjálfsögðu að efla viðbúnað sinn gegn villimennsku á borð við gíslatöku og hryðjuverk, þar á meðal að efla eftirlit á flugvöllum. Vesturlönd verða að hafa mátt til að vernda þjóðskipulag sitt gegn ágangi allra þeirra, sem vilja það feigt.

Jónas Kristjánsson.

DV