Mannréttindaeinkunn

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur sent Þýzkalandsstjórn lista yfir rúmlega 100 þýzk fyrirtæki, sem hafa reynt að rjúfa bann Sameinuðu þjóðanna á viðskiptum við Írak. Svipaðir listar hafa borizt ýmsum öðrum ríkisstjórnum og sýna vel, hve erfitt er að hemja öfgamenn í kaupsýslu.

Saddam Hussein varð ekki hjálparlaust að skrímslinu, sem hann er nú. Sovétríkin byggðu hann upp, þegar Bandaríkin voru í bandalagi við keisarann í Persíu. Eftir valdatöku erkiklerka í Persíu varð Saddam Hussein að gæludýri Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu.

Töluverður hluti af áþján mannkyns stafar annars vegar af aðgerðum vopnasala á borð við Bofors í Svíþjóð og aðgerðum misheppnaðra utanríkisfræðinga á borð við Kissinger í Bandaríkjunum. Slíkir aðilar hafa víðs vegar vakið upp drauga á borð við Saddam Hussein.

Kalda stríðið milli austurs og vesturs hefur auðveldað líf harðstjóra. Þeir hafa hallað sér að öðru heimsveldinu eða hótað að styðja sig við hitt. Þeir hafa teymt utanríkisfræðinga og ríkisstjórnir heimsveldanna á asnaeyrunum og komið sér upp ógrynni vopna í skjóli þeirra.

Sumir harðstjórar eru ekki mikið skárri en Saddam Hussein. Dæmi um slíkan er Suharto Indónesíuforseti, sem er einn mesti fjöldamorðingi síðustu áratuga. Hann hefur blómstrað í skjóli Bandaríkjanna og nýtur meira að segja stjórnmálasambands við fjarlægt Ísland.

Suharto hefur stundað hliðstæða landvinninga og Saddam Hussein með öllu meiri manndrápum og heldur minni pyndingum. Að auki er hann sjálfur einn mesti stórþjófur síðustu áratuga, næst á eftir Marcosi Filippseyjaforseta, sem var amerískur skjólstæðingur.

Nú hafa Sovétríkin horfið af velli heimsmálanna. Sovétstjórnin er önnum kafin við vonlausa viðleitni til að halda saman sjálfu ríkjasambandinu innan landamæranna og hefur enga orku aflögu til að etja kappi við Bandaríkjastjórn á alþjóðlegum vettvangi.

Um þessar mundir er því aðeins eitt heimsveldi. Og á sama tíma sker einn harðstjórinn sig úr í landvinningum og hroðalegu stjórnarfari. Þess vegna gat heimsveldið, sem eftir var, náð saman alþjóðlegu samkomulagi um að senda á vettvang fjölþjóðaher bandamanna.

Þetta tækifæri þurfa stuðningsmenn stofnskrár og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna að nota til að krefjast breyttra vinnubragða í samskiptum vesturs við ríki íslams og þriðja heimsins. Hér eftir verður að gera kröfur til þeirra, sem eru í bandalagi við vestrið.

Hugmyndafræði stofnskrár og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna hefur skyndilega sigrað í Austur–Evrópu. Hún hefur einnig skotið rótum utan hins vestræna menningarheims, svo sem í Japan, Indlandi og Botswana. Hún er ekkert vestrænt einkamál.

Talsmenn harðstjóra íslams og þriðja heimsins hafa linnulaust reynt að sannfæra Vesturlandabúa um, að vestrænt lýðræði henti ekki í þeirra menningarheimi. Harðstjórafræðingur Morgunblaðsins skrifaði árið 1973, að “hæfilegt einræði” hentaði Grikkjum bezt!

Staðreyndin er hins vegar sú, að lýðræði hentar almenningi um allan heim, þar á meðal í svörtu Afríku og í löndum íslama. Í stefnu utanríkisviðskipta og hergagnaviðskipta við þriðja heiminn og heim íslams verða Vesturlönd nú að fara að gera mannréttindakröfur.

Bezt væri að fela Amnesty og skyldum samtökum að mæla mannréttindi ríkja eftir einkunnaskala og haga samskiptum við ríkin með hliðsjón af einkunninni.

Jónas Kristjánsson

DV