Mannréttindi eflast

Greinar

Stjórn Ceausescus Í Rúmeníu naut fram undir andlátið sérstakrar velvildar stjórnar Bandaríkjanna, þar á meðal svonefndra beztu kjara í viðskiptum. Þetta stafaði af, að Ceausescu stóð oft uppi í hárinu á ráðamönnum Sovétríkjanna, Bandaríkjamönnum til ánægjuauka.

Ráðamenn vestra hafa lengi metið fólk eftir, hvort það segist vera á móti “Rússum” og “kommum”. Þetta hefur sett svip á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sérstaklega gagnvart þriðja heiminum, þar sem dólgum af ýmsu tagi hefur verið lyft á kostnað lýðræðissinna.

Með hruni Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins minnka líkurnar á, að ógeðfelldar ríkisstjórnir og stjórnmálamenn í þriðja heiminum geti spilað á Bandaríkin í skjóli Rússa- og kommagrýlunnar. Þetta mun smám saman bæta ástandið í þriðja heiminum.

Hjöðnun spennunnar milli póla austurs og vesturs hefur líka áhrif á hinn veginn. Fidel Castro mun veitast örðugar að sníkja hjá Sovétríkjunum fé til viðhalds harðstjórn sinni á Kúbu. Ýmsir aðrir ógeðfelldir skjólstæðingar Sovétríkjanna sjá fram á erfiða tíma.

Breytingin gerist ekki á svipstundu. George Bush Bandaríkjaforseti er enn að reyna að halda á floti hinu vanheilaga bandalagi Bandaríkjanna og Kína, til dæmis með því að ofsækja kínverska námsmenn, er vilja fá að vera áfram vestra af ótta við kínverska ráðamenn.

Skömmu fyrir áramótin laug James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að desemberferð ráðherranna Scowcrofts og Eagleburgers til Kína væri sú fyrsta eftir fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar. Í ljós hefur komið, að þeir voru þar líka rétt eftir morðin.

Bush virðist ímynda sér, að hann hafi sem sendiherra í Kína í gamla daga öðlazt skilning á, hvernig beri að umgangast ráðamenn þar eystra. Ekki hefur blásið byrlega fyrir þeirri ímyndun í vetur, en Bandaríkjaforseti hefur enn ekki lært af þeirri bitru reynslu.

Þetta lagast vonandi fljótlega, sem og viðhorf stjórnvalda í Bandaríkjunum til ýmissa stjórnvalda, sem hafa of lengi skákað í skjóli kalda stríðsins. Þíðan rýrir svæðisbundið mikilvægi stjórnvalda í vandræðaríkjum á borð við Ísrael, Suður-Afríku og El Salvador.

Erfiðara verður fyrir ríkisstjórn Turgut Özals í Tyrklandi að halda áfram ógeðfelldum mannréttindabrotum í skjóli þess, að ríkið hefur landamæri að Sovétríkjunum og er öflug brjóstvörn Atlantshafsbandalagsins í suðri. Þannig munu Tyrkir græða á þíðunni eins og fleiri.

Hingað til hafa hin vondu áhrif kalda stríðsins verið eins og vítahringur. Stuðningur Sovétríkjanna við Víetnam, hernámsríki Kambódíu, og tilhugalíf Bandaríkjanna og Kína, óvinar Víetnams, leiddi til óbeins stuðnings Vesturlanda við Rauðu khmerana í Kambódíu.

Nú má á hinn bóginn vænta uppsöfnunaráhrifa þíðunnar. Þegar ráðamenn í Bandaríkjunum sjá, að ekki hentar Vesturlöndum að halda uppi hryðjuverkastjórn í Ísrael, má búast við, að auðveldara verði að einangra þær stjórnir í heimi íslams, sem verst haga sér.

Þegar mannréttindabrjótar geta ekki lengur hallað sér að heimsveldi, hafa Vesturlönd fengið tækifæri til að ryðja braut hinum raunverulegu hagsmunum Vesturlanda, sem felast í, að vestrænar hugmyndir um mannréttindi nái fram að ganga í þriðja heiminum.

Þannig verða aukin mannréttindi í þriðja heiminum eitt af stærstu framfaramálum mannkyns á næstu árum, einmitt vegna hruns sovézka heimsveldisins í vetur.

Jónas Kristjánsson

DV