Marcos þrjózkast við

Greinar

Þótt Corazon Aquino hafi unnið forsetakosningarnar á Filippseyjum, er fremur ólíklegt, að hún komist til valda. Í morgun virtust mestar líkur á, að Ferdinand Marcos mundi halda dauðahaldi í völdin og láta þægt þingið lýsa sig sigurvegara.

Óháðir áhorfendur eru sammála um, að menn Marcosar hafi stundað stórfellt kosningasvindl. Ofríki þeirra var slíkt, að starfsfólk við talningu átti fótum fjör að launa. Þessar kosningar eru einn svartasti bletturinn á ljótri glæpasögu Marcosar Filippseyjaforseta.

Óháð eftirlitsstofnun og erkibiskupinn í Manilla hafa lýst Corazon sigurvegara kosninganna og telja hana hafa unnið með miklum yfirburðum. Jafnvel kosningastofnun ríkisins varð um tíma að viðurkenna, að hún stæði framar í talningunni.

Frank Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Alaska, kom í nótt frá Filippseyjum heim til Anchorage. Hann var í eftirlitsnefnd Reagans Bandaríkjaforseta. Við komuna sagði hann, að menn Marcosar væru önnum kafnir við að falsa kosningaúrslitin.

Þegar nóg hefur verið falsað, er ætlunin, að þjóðþingið á Filippseyjum, sem að mestu er skipað mönnum Marcosar, komi saman til að lýsa hann sigurvegara. Fyrstu fréttir bentu ekki til, að Marcos mundi koma heiðarlega fram í þessu máli frekar en öðrum.

Ferdinand og Imelda Marcos eru sennilega mesta þjófahyski, sem nú er uppi í heiminum. Þau hafa mergsogið Filippseyjar og komið milljörðum fyrir í Banda ríkjunum og víðar um heim. Talið er, að Suharto í Indónesíu komist ekki í hálfkvisti við þau í þjófnaði.

Þar á ofan er líklegt, að Marcos eða frúin hafi látið myrða einn helzta stjórnarandstæðinginn, eiginmann Aquino, á flugvellinum í Manila. Yfirmaður hersins var að vísu sýknaður í því máli, en á afar vafasömum forsendum. Hann er hægri hönd Marcosar.

Kominn er tími til að létta oki Marcosar af Filippseyingum. Kosningarnar gáfu vonir um, að bættir tímar væru í aðsigi. Ef til vill sér Marcos að sér og viðurkennir ósigur sinn. En í morgun voru því miður engin teikn á lofti um, að hann mundi virða leikreglur.

Bezt væri, að Ferdinand og Imelda færu til útlanda og byrjuðu að eyða illa fengnum auði sínum. Lítill vafi er á, að þau fengju hæli í Bandaríkjunum sem gamlir skjólstæðingar Bandaríkjastjórnar. Raunar kæmi vel á vondan, að þau settust að þar.

Filippseyjar ættu að geta verið ríkt land, en þjóðinni hefur verið haldið í sárustu fátækt. Hún hefur menntun og dugnað til að komast áfram eins og Suður-Kóreumenn, Taiwanir og Singapúrar hafa gert. En persónuleg græðgi Marcosar hefur gert hana fátæka.

Þessi heimshluti skiptir Vesturlönd miklu máli. Þar hefur verið tilhneiging til lýðræðis, sumpart fyrir áhrif frá Japan og Vesturlöndum. Slíkrar tilhneigingar verður ekki víða annars staðar vart í þriðja heiminum, þar sem einræði harðstjóra er hin almenna regla.

Um leið hafa flest ríkjanna í þessum heimshluta sótt fram í átt frá þriðja heiminum til vestrænnar iðnbyltingar og bætts efnahags. Filippseyjar hafa setið eftir, einmitt fyrir tilstilli Marcosar-hjónanna, sem hafa eingöngu hugsað um að skara eld að eigin köku.

Vonandi tekst glæpalýð Marcosar ekki að hindra valdatöku hins rétt kjörna forseta, Corazon Aquino. En útlitið var því miður svart í morgun.

Jónas Kristjánsson

DV