Margslunginn trúarhiti

Greinar

Fyrrverandi biskup og biskupsfaðir fór fjarri öllu velsæmi, þegar hann líkti gagnrýnendum ýmissa þátta kristnihátíðar við nazista. Ummæli hans voru dapurleg móðgun við milljónir fórnardýra nazismans. Með samanburðinum gerði biskupinn örlög þeirra lítilfjörleg.

Léleg aðsókn kristnihátíðar er orsök streitunnar hjá hinni kirkjulegu fjölskyldu á Íslandi, þar sem gamli biskupinn og nýi biskupinn, aðalpresturinn, tónsmiðurinn og almannatengillinn eru allir í einni og sömu fjölskyldunni og taka in solidum inn á sig erfiða stöðu mála.

Lúterska ríkiskirkjan rændi kristnihátíðinni og gerði hana að herkvaðningu sinna manna með feiknarlegum auglýsingum og áróðri. Herkvaðningin fór gersamlega út um þúfur og er orðin tilefni aukinnar umræðu um bága stöðu ríkiskirkjunnar í hugskoti fólksins í landinu.

Það voru mistök að gera kristnihátíð að lúterskri innansveitarkróníku. Ríkiskirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í lífi þjóðarinnar sem opinber helgisiðastofnun á mikilvægum stundum, en kveikir ekki mikinn trúarhita í brjóstum fólks. Hún er deild í stjórnarráðinu.

Japanir ganga enn lengra en Íslendingar á þessu sviði. Þeir hafa tvenn óskyld trúarbrögð í senn, ganga í hjónaband að Búddasið og deyja inn í Shintosið. Þetta veldur þeim engum geðklofa, enda er um formlega helgisiði að ræða, en ekki neina persónulega trúarreynslu.

Þannig væri hægt að taka ásatrú inn í íslenzka trúarbatteríið sem aðra deild í kirkjumálaráðuneytinu. Eins og hún er stunduð í Ásatrúarfélaginu virðist hún ekki kveikja mikinn trúarhita í hjörtum manna, en gagnast vel til helgisiða við mikilvægar stundir í lífi fólks.

Sumir telja það ríkiskirkjunni helzt til gildis, að hún taki upp pláss trúarinnar í tilveru þjóðarinnar og dragi þannig úr útþenslu sértrúarsafnaða, þar sem ríkja fjörug messugerð og miklir ræðuskörungar, endurskírnir og persónuleg trúarreynsla að bandarískum hætti.

Trúarhiti leynist víðar í þjóðfélaginu en í viðurkenndum söfnuðum á skrá Hagstofunnar. Viku eftir mislukkaða kristnihátíð flykktust Freysdýrkendur í langtum stærri hópum á óvenjulega langvinna graðhestasýningu, sem stóð klukkutímum saman og dögum saman.

Í lokaatriðinu var Freyr leiddur inn á völlinn í gervi kraftaverkahestsins Orra frá Þúfu við trylltan fögnuð safnaðarins, þar sem heitasta ósk manna er að vinna í happdrætti, þar sem dregið er um, hvaða öndvegishryssur megi njóta sæðis hans fyrir 350.000 krónur hver.

Trúarhiti og trúarofstæki leika lausum hala í kaffistofur hestamanna, þar sem gerður er samanburður á kraftaverkahrossum. Ef Ásatrúarfélagið drægi úr Óðinsdýrkun sinni og sneri sér að arftökum Hrafnkels Freysgoða og Fals í Efstadal, mundi hagur þess vænkast að mun.

Freyjudýrkun er einnig útbreidd hér á landi, studd sögupersónum Halldórs Laxness og ímynd Bjarkar söngkonu, þar sem konan stígur fram sem dularfullt náttúruafl, kynorkumögnuð álfkona, eins konar móðir Jörð. Freyja birtist þjóðinni í gervi Úu og Bjarkar.

Náttúrudýrkun hins forna siðar hefur læðst inn í viðskiptalífið á Íslandi, þar sem ferðabransinn gerir út á Orra frá Þúfu, Úu og Björk. Sveitarfélög láta meira að segja prenta nákvæm kort af byggðum álfa og huldafólks og bjóða upp á skipulagðar ferðir milli þessara staða.

Trúarhiti Íslendinga er margslunginn og mestallur utan ríkiskirkjunnar, þótt menn virði hana sem helgisiðastofnun. Kristnihátíðin opinberaði þetta.

Jónas Kristjánsson

DV